Bloggið
Páskakonfekt
Það er óskaplega gaman að búa til sitt eigið páskaegg og hér er uppskrift með greinargóðum leiðbeiningum að heimatilbúnu páskaeggi. Það er líka dásamlegt að vita það að ekkert af draslinu (E-efnum allskyns þ.m.t. litarefnum og sykri) í keyptu páskaeggi sé til staðar í manns eigin. Börnin eru ekki mjög ósátt við að búa til sitt eigið, brjóta súkkulaðið (tækifæri til að sleikja fingur), bræða súkkulaðið (tækifæri til að sleikja skálar) og pensla í mótið (aftur tækifæri til að sleikja fingur). Þetta eru allt handtök sem gott er að læra fyrir krakka og svo lengi sem maður fylgist með heitum hellum og heitu vatni, er ekkert því til fyrirstöðu að þau fái að vera með. Gleðilega páska!
Fiskisúpa frá Miðjarðarhafinu
Þessi dásamlega súpa er ekki ný svo sem en ég uppfærði myndina um daginn. Það er gaman að finna ljótar myndir og gera þær betri, ekki síst þegar uppskriftin er svona ljúffeng eins og þessi hér. Súpan er jafnvel enn betri daginn eftir, hituð upp og er fín með t.d. hýðishrísgrjónum í nestisboxið.
Tvær dásamlegar grænmetissúpur (báðar vegan)
Þessar dásamlegu súpur eru upplagðar í janúar og ekki síst af því að nú er veganúar (einungis vegan uppskriftir í janúar) í fullum gangi. Báðar uppskriftirnar eru svo sniðugar að því leytinu að gera má þær í miklu magni til að hafa í kvöldmat, jafnvel hádegismat daginn eftir. Til að drýgja matinn enn frekar, og spara tíma, má sjóða quinoa korn eða hýðishrísgrjón og bera fram með súpuafgangi þannig að súpan verði í raun sósa. Þetta gerum við gjarnan ef við eigum til súpuafganga sem duga ekki fyrir alla fjölskylduna. Ég er þekkt fyrir að fleygja aldrei mat og svona má drýgja matinn vel og lengi.
Veganúar á CafeSigrun
Þó ég sé ekki vegan sjálf þá er ég mjög hrifin af þeirri hugsun sem tengist því að nota ekki dýraafurðir í mat né til annarra nota. Ég reyni alltaf að nota vegan matvörur í matinn minn og hef t.d. ekki drukkið mjólk í um 5 ár. Ég nota aldrei gelatin í mat. Sjálf neyti ég ekki kjöts en borða fisk og egg. Þó minna af fiski en ég gerði eitt sinn verð ég að viðurkenna. Kjöt eða egg úr öðru en velferðarbúskap myndi ég aldrei nota og ef ég mögulega hef tök á, kaupi ég t.d. lífrænt framleidda jógúrt og helst úr velferðarbúskap. Þó ég sé ekki vegan fer óskaplega í taugarnar á mér þegar fólk heldur skammarræður yfir fólki sem aðhyllist vegan lífsstíl. Sama má svo sem segja um grænmetisætur, ég predika ekki yfir fólki um grænmetismat og ætlast til þess að aðrir prediki ekki yfir mér um hvað grænmetisætur séu mjóar, vannærðar og þar fram eftir götunum. Trúið mér, á 15 árum hef ég heyrt allt! En allavega.... CafeSigrun var boðið að vera með í Veganúar sem er bráðskemmtilegt og hvet ég sem flesta til að taka þátt. Ég tók saman nokkrar uppskriftir sem eru vegan eða mjög auðvelt að gera vegan og vonandi njótið þið vel óháð mataræði eða lífstíl. Ef þið hafið efasemdir um vegan mat, hafið þá í huga að langflestar af dásemlegu hráfæðiskökunum sem þið hafið (örugglega) smakkað, eru vegan :)
Jólakaka með ensku ívafi
Ég verð að viðurkenna að ég er ekki aðdáandi númer eitt þegar kemur að jólakökum sem þessum. Ég er aftur á móti óskaplega hrifin af dásamlegu lyktinni sem fyllir hús og vit þegar þær eru í ofninum. Hún ætlar mann lifandi að drepa! Jóhannes aftur á móti getur varla haldið jól nema þessi kaka sé á borðunum og aðventan hefst yfirleitt á því að ég hræri í jólakökuna vinsælu. Hún er afskaplega holl, laus við allan viðbættan sykur.
Dómur um CafeSigrún bókina! Fimm stjörnur!
Í dag (12. desember 2015) birtist ritdómur um bókina mína í Morgunblaðinu. Bókin hlaut 5 stjörnur af 5 mögulegum, eða fullt hús. Ég er auðvitað í skýjunum yfir viðtökunum, ritdóminum og öllum hlýju óskunum. Þær fóru langt fram úr því sem ég hafði þorað að vona:
„Fræðandi og skemmtileg
Café Sigrún: Hollustan hefst heima *****
Eftir Sigrúnu Þorsteinsdóttur.
Texti og myndir eftir Sigrúnu.
Vaka-Helgafell gefur út. 303 bls. innb. í stóru broti.
Café Sigrún hefur nafn sitt af vefsetri sem Sigrún Þorsteinsdóttir hefur haldið úti býsna lengi; ætli hún sé ekki einn af „elstu“ matarbloggurum Íslands og um leið einn sá þekktasti. Í inngangi að bókinni rekur Sigrún hvernig það kom til að hún fór að fást við matargerð sem skilaði sér í vefstetrinu cafesigrun.com og síðar í þessari bók. Þar kemur og fram að hún fór snemma að velta því fyrir sér hvernig það sem við innbyrðum er ekki bara orkugjafi, heldur getur það skipt verulegu máli um vellíðan og velferð. Sú hugsun einkennir þesssa bók og er hvarvetna vel útfærð, hvort sem það er í inngangstexta að hverri uppskrift, í leiðbeiningum eða merkingum, en við hverja uppskrift er hægt að sjá hvort hún sé glútenlaus, eggjalaus, hnetulaus, mjólkurlaus, vegan eða án fræja eða hvort einfalt sé að breyta henni í þá átt. Þetta er náttúrlega ekki neitt sem alætur þurfa að hafa áhyggjur af, en getur skipt verulegu máli ef eldað er fyrir einhvern sem þjáist af óþoli eða ofnæmi og er því einkar gagnlegt. Gríðarmikið er af fróðleik í bókinni, sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa spreytt sig á framandlegri matreiðslu, en ekkert hráefni rakst ég á í bókinni sem ekki er fáanlegt hér á landi – þökk sé fjölmenningu. Þetta er þó ekki beinlínis ævintýrabók, uppskriftirnar eru einfaldar í sjálfu sér, eða réttara sagt blátt áfram og kalla ekki á margra daga undirbúning og eldhúsfimleika. Leiðbeiningarnar eru líka greinargóðar og myndirnar mjög lýsandi. Frágangur á bókinni er til mikillar fyrirmyndar, uppsetning einkar góð og myndir í henni, sem Sigrún tekur sjálf, eru hreint afbragð. Þegar hefur verið getið um uppskriftirnar sjálfar, en inngangur að uppskriftunum og eins að hverjum kafla fyrir sig er fræðandi og skemmtilegur, svo skemmtilegur reyndar að þegar ég tók bókina upp í fyrsta sinn gleymdi ég mér í textanum – fletti yfir uppskriftirnar til að skyggnast í líf Sigrúnar og fjölskyldu hennar. Um 200 uppskriftir eru í bókinni.” (Árni Matthíasson)
Ný mynd: Kitheri (afrískur pottréttur)
Ég er búin að vera að hugsa lengi að ég yrði að uppfæra myndina við Kitheri réttinn (afrískur grænmetispottréttur) en hann er einn af þessum stórkostlegu afrísku réttum sem allir geta útbúið og nærir marga með litlum tilkostnaði. Rétturinn er mildur og hentar börnum, þeim sem eru vegan, og/eða með mjólkur-, glúten-, eggja-, og hnetuofnæmi. Það er saga á bak við baunirnar á þessari mynd en í síðustu viku komu Elín (mágkona) og Borgar (bróðir) með þær færandi hendi. Baunirnar koma langt að, alla leið frá Kenya þar sem þau dvelja með annan fótinn. Baunirnar eru ræktaðar af konu sem heitir Susan en hún á sæg barna. Susan vinnur baki brotnu, frá morgni til kvölds til að sjá fjölskyldu sinni farborða. Þau búa í hrörlegum bárujárnskofa án allra nútímaþæginda. Borgar og Elín hafa reynst þessari konu og fjölskyldu hennar vel eins og þeirra er von og vísa og með þeirra aðstoð er Susan búin að kaupa sér jarðskika og ætlar að byggja stærra hús. Vonandi mun fara betur um þessa duglegu konu sem snertir hjartað í öllum þeim sem henni kynnist. Mér þykir ótrúlega vænt um þessar baunir því þær sýna mér hvað heimurinn er í raun lítill og hve fólk er örlátt þó það ekki sé það efnað á okkar mælikvarða.
CafeSigrun bókin kemur út og þér er boðið í útgáfuteiti!
Ótrúlegt að komið sé að þessu...uppskeruhátíðin ef svo má segja, eftir öll þessi ár :) Nú er komið að því sem margir hafa beðið eftir (og þar með talið ég)....að CafeSigrun bókin er að detta inn í verslanir! Á fimmtudaginn næstkomandi (1. október) kl. 17-19 í Pennanum Austurstræti 18, ætla ég að hafa útgáfuteiti og þér lesandi góður er boðið í teitið!
Í bókinni eru yfir 200 nýjar uppskriftir og nokkrar til viðbótar klassískar af vefnum. Bókin verður seld á sérstöku tilboðsverði í útgáfuteitinu. Láttu þig ekki vanta!
Sé ykkur hress á fimmtudaginn. Nánar um útgáfuteitið á Facebook síðu CafeSigrun.
er boðið :)
Heimatilbúið, sultað engifer (gari) fyrir sushigerð
Ég geri þó nokkuð mikið af sushi. Flestir halda að sushi sé ofboðslega hollt og klárlega getur sushi verið það. Ekki allir vita þó að sushi getur verið gríðarlega óhollt, fullt af sykri, bragðaukandi efnum (MSG), gervisætu (t.d. aspartam), majonesi með alls kyns aukaefnum og jafnvel djúpsteiktu kjöti! Ekkert af þessu á skylt við það frábæra og hreina sushi sem við fengum í ferð okkar til Japan árið 2007. Við borðuðum sushi á hverjum degi í 10 daga og stundum oft á dag. Það var töluvert minna sætt en það sem er á boðstólum á Vesturlöndum og allt hráefni útbúið frá grunni. Svo má aldrei vera steikingarlykt inni á sushistað (en grjónin taka í sig bragð af henni) en það finnur maður allt of oft hér á landi sem og víða annars staðar. Það er ekki að undra þó Japanar lifa fram í háan aldur því hráefnið er gott og maturinn hreinn.
Á einum af þessum sushistöðum sem við prófuðum fylgdist ég með sushimeistaranum útbúa engifer (gari) og uppskriftin mín er fengin þaðan en reyndar með smávegis tilfærslu. Ég nota nefnilega steviadropa en ekki sykur og það er bara stórgott. Allavega vilja mínir sushimatargestir aldrei neitt annað. Og þeir hafa verið ófáir í gegnum tíðina!
Pride Uppskrift CafeSigrun 2015
Prideuppskrift CafeSigrun 2015 er að þessu sinni kaka. Börnin ærðust úr gleði þegar þau sáu hana enda ekki oft sem mamma notar matarliti í matargerðina :) Til hamingju með daginn og munum að fagna fjölbreytileikanum!