Þögnin
Já í gær fengum við boð um að fara út fyrir skrifstofubygginguna til að minnast þeirra sem dóu síðasta fimmtudag. Það var 2 mínútna þögn kl 12 á hádegi. Það var fullt af fólki úti á götu og á slaginu 12 datt allt í dúnalogn. Ég sá myndir í sjónvarpinu af Piccadilly Circus, þar sem umferðin er venjulega eins iðandi og eins og slagæð í manneskju, stoppar aldrei nema akkúrat kl 12 þá stoppaði allt, eins og London hefði verið sett á pásu á myndbandstæki. Mjög skrýtið.
Hann var mjög óheppinn ungi maðurinn sem kom labbandi að okkur fyrir utan bygginguna. Óheppinn að því leytinu að hann var af þeim litarhætti að hann hefði getað verið hryðjuverkamaður (er ekki að alhæfa, ég veit fullvel að múslimar eru ekki hryðjuverkamenn og að það eru aðeins örfáir sem eru svona klikk á meðal þeirra). Hann kom skælbrosandi að okkur og spurði hvað væri í gangi, akkuru fólk væri úti á götu? Hann fékk nokkuð mörg stingandi augnaráð og á milli samanbitinna vara var einhver sem svaraði honum: „vviðermaðvottfólkinsemdóvirðnguokkarnúáðveraÞÖGN“ (eða „Við erum að votta fólkinu sem dó virðingu okkar og nú á að vera ÞÖGN“). Hann varð voða skömmustulegur greyið og steinþagði. Erfiðar tvær mínútur fyrir hann.
En já mér finnst þetta gott og blessað sko að sýna fólki virðingu sína en ég SKIL ekki svona þagnir. Hverju eiga þær að áorka? Þarf fólk almennt að taka frá eina mínútu eða 2 mínútur til að minnast þeirra sem dóu? Ég minnist þeirra í einhverju mæli á hverjum degi og þarf ekki að taka frá tíma til þess. Ég hef aldrei skilið svona þagnir. Þær hjálpa kannski einhverjum en fyrir mér er þetta bara þögul múgsefjun. Er ekki þögn sama og samþykki? Erum við að samþykkja að fólk hafi dáið? Ég skil að fólk vilji votta virðingu sýna en mér finnst mun gáfulegra að gera það í bók eða vefsíðu (skilur eitthvað eftir sig svo sem eins og hlýleg orð), leggja pening inn á reikning (hjálpar þeim sem hjálpa öðrum til dæmis læknum, sjúkrahúsum og þess háttar). En þögn skil ég ekki.
Þetta þagnardæmi er álíka óskiljanlegt fyrir mér og þegar fólk segir „Góða helgi“ á laugardagseftirmiðdegi. Ég skil það ekki, það KEMST bara ekki inn í hausinn á mér. Sko helgin byrjar á föstudegskvöldi og endar á sunnudagskvöldi. Það er ekki hægt að segja „Góða helgi“ á laugardagseftirmiðdegi. Það er eins og að segja „Njóttu myndarinnar“, í hléi eða að segja „Góða ferð“ á næstsíðasta degi ferðalags. En það er bara ég sem er svona pirruð og aumingja Jóhannes fær oft ræðurnar frá mér. Hann gnístir eflaust tönnum þegar hann les þetta hí hí :) Það er bara sumt í lífinu sem ég skil ekki. Það er líka allt í lagi að vera ósammála, það er bara skemmtilegt.
Annars er það að frétta frá London að í gær var stuðnings- og mótmælafundur á Trafalgar torgi. Þar var meðal annars strætóbílstjórinn í strætó nr. 30 sem varð fyrir sprengingunni og hann minntist á bjagaðri ensku þeirra sem dóu og vildi koma þeim skilaboðum á framfæri að fólk myndi „hvorki bugast né brotna“. Hann var auðvitað miður sín yfir fólkinu sem dó, sérstaklega dóttur vinnufélaga hans sem hafði verið í strætónum. Borgarstjórinn Ken Livingstone hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að það sem þessir hryðjuverkamenn hefðu ætlað sér að áorka, að stía trúarhópum í sundur og egna kristnum gegn múslimum í þeirri von um að boðskapur heittrúaðra múslima kæmist í gegn þá mistókst þeim gjörsamlega því á Trafalgar torgi komu saman allir helstu trúarleiðtogar Bretlands og fólk af öllum kynþáttum, trúarbrögðum, stærðum og gerðum og stóð bökum saman og fordæmdi árásirnar. Þeim bersýnilega mistókst ætlunarverk sitt. Ég sá þetta í sjónvarpinu og það voru engin læti, fólk var bara að hlusta og tala saman, sýna samstöðu. Mun betra en að þegja bara.
Jæja ég ætla að hætta að rífast og fara að þegja.
Ummæli
16. júl. 2005
Hæ - ég er sammála að vissu leyti e ósammála að öðru :-) Þögnin ávinnur engu, gerir ekkert NEMA þetta er kannski auðveldasta, augljósasta og etv ódýrasta leiðin til að sýna þessum terroristum hve vel fólk getur staðið saman þegar þörf krefur. Tvær mínútur sýna að vissu leyti meira en heill dagur því þarna eru allir á sama andartakinu en ef það er heill dagur þá eru það mismikið eftir vinnutíma !! En annars alltaf gaman að lesa hugsanir þínar og pælingar - kveðja að heiman - Anna Stína