Bráðni, bráðni, bráðni

Er að bráðna úr hita. Kannski ekki akkúrat núna en var að bráðna í dag. Ég var með fyrirlestur í Verðbréfamarkaði London (London Stock Exchange) og við reyndar tókum minicab þangað (ég og önnur sem vinnur með mér). Það var fínt því ég er enn þá að skakklappast á hnénu og get ekki labbað langt. En jæja við komum á staðinn og við vorum með fartölvu og töskur með okkur (bara svona stelputöskur) og við erum nú ekki mjög terroristalegar sko en það mætti halda að við værum eftirlýstar svo mikil var gæslan. Fyrst tók á móti okkur öryggisvörður utandyra sem sagði eitthvað merkilegt í talstöð og hleypti okkur inn. Hann hafði ekki augun af okkur (og ekki af því honum fannst við svo sætar sko, held ekki). Svo tók á móti okkur svona innandyraöryggisvörður sem sagði okkur að það þyrfti að leita á okkur og leita í töskunum okkar. Það var allt í lagi. Það var leitað á okkur og engar byssur né sprengjur fundust. Svo voru töskurnar okkar skannaðar með sprengjuleitartæki. Við vorum sem sagt ekkert hættulegar og öryggisverðir (innandyra sem utan) gátu andað léttar. Þangað til við þurftum að fara að pissa, þá varð upp smá fótur og fit því við gátum ekki farið báðar án þess að taka töskurnar með okkur, þá hefði orðið rosa öryggisuppþot og töskurnar sennilega sprengdar áður en við værum búnar að spræna. Við þurftum sem sagt að fara ein í einu, í fylgd örygissvarðar. Við vorum að bíða eftir því að fara á fundinn þegar ég kláraði jógúrtdrykkinn minn (kom með hann að heiman og var að drekka hann þarna). Það er að sjálfssögðu engin ruslatunna (yfirleitt aldrei í svona byggingum vegna hættunar á því að einhver skilji eftir sprengju) og þá voru góð ráð dýr. Ég fékk fyrir náð og miskunn að henda jógúrtílátinu hjá móttökuritara en ekki fyrr en búið að var að opna og skoða í það. Þeir sáu bara leifar af íslensku jógúrti sko. Ég hefði sennilega ekki fengið að henda ílátinu hjá móttökuritara nema af því hún vorkenndi mér fyrir að hafa svona langt eftirnafn (hún ætlaði aldrei að vera búin að skrifa Thorsteinsdottir í tölvuna sína) og þetta er ekki einu sinni svo langt nafn. Það þýðir reyndar ekkert að útskýra það í Englandi.

En já fyrirlesturinn gekk vel og þetta eru fínustu skrifstofur sem ég hef komið inn í. VÁ. Allt úr harðviði (skamm skamm LSE) og flati skjárinn sem var notaður var ofan í stórum kassa sem opnaðist þegar maður ýtti á takka. Væri alveg til í svoleiðis sko. Klósettin voru hljóðeinangruð (ekkert skrítið sko, fólk er jú svo stressað á þessum verðbréfamörkuðum sko) og mér leið eins og ég væri á 5 stjörnu hóteli. Svo var bakkelsi fyrir svona 20 manns (ekki á klósettinu heldur á fundinum) þó við værum bara 8 og besti appelsínusafi sem ég hef smakkað held ég. Nýkreistur og ískaldur. Langaði að taka könnuna með mér.

En já eftir fundinn þá tókum við lestina áleiðis heim og tókum svo leigubíl síðasta spölinn því ég gat ekkert labbað. Það var svoooooooooooo heitt, um 30 stig og stingandi sól. Ég skakklappaðist líka beint á Starbucks og fékk mér íslatte. Hefði alveg verið til í að sitja í garðinum með Jóhannesi í dag en hann er í Prag akkúrat núna :(

Það var dáldið skrýtið að vera í lestunum í dag. Skrýtið að því leytinu að það var ekki hægt að sjá eða finna neitt óeðlilegt. Það eru að vísu 4 línur niðri sem þýðir aukið álag á aðrar línur og voru lestarnar pakkfullar kl 14.30 í dag sem er mjög óvenjulegt. Fyndið líka að mest af þessu voru túristar. Það voru líka listamenn að spila á stöðvunum og allir bara rólegir. Ég gleymdi því fljótlega að einhvers staðar í námunda við okkur er enn þá verið að grafa lík upp úr göngunum. Díses, svo er ég eitthvað að þykjast að vera flughrædd???? Er alveg að spá í að skipta um paranoju sko.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It