Lent

Jæja þá erum við lent í London, borg hryðjuverkanna. Það var nú ekki að sjá að neitt hefði átt sér stað. Allt var eins og venjulega í gærkvöldi, meira að segja var ítalski kvartettinn að spila við veitingastaðinn hérna á móti í gærkvöldi þegar við komum svo ekki var að sjá að þessar sprengjur hefðu truflað líf margra.

Fólki er samt ekkert sama. Yfirmaður minn hérna úti var 1 mínútu frá sprengingunni. Hann var að ganga upp stigann í lestarstöðinni þegar hann heyrði í sprengingunni. Hann hefði annars verið niðri í göngunum. Annar var 10 mínútum frá því að lenda í því að vera í göngunum á meðan sprenging átti sér stað.

Eini munurinn sem maður sér á fólki er sá að þegar sírenur fara í gang (sem gerist yfirleitt á svona mínútu fresti í London) þá horfir fólk upp og er með smá áhyggjusvip. Maður er löngu hættir að heyra í sírenum svona dags daglega en þegar svona stendur á, þá heyrir maður allt í einu í þeim, reynir jafnvel að fylgja hljóðunum.

Annars er ágætt að vera komin aftur en ég sakna þó alltaf Íslands um leið og ég flýg yfir hafið. Svo langt þangað til ég kem aftur til Íslands, tæpir 2 mánuðir. Gæti þó verið að ég þyrfti að fara fyrr því hnéð á mér er eitthvað bilað. MRI skann sem ég fór í á Íslandi sýndi að ég er með rifinn liðþófa í vinstra hné, að innanverðu. Búin að vera illt í hnénu lengi (nokkur ár) en samt farið tvisvar til læknis sem sögðu ekki neitt. Svo labbaði ég Laugaveginn og var að drepast og fór eftir það í skann/röntgen og þetta var niðurstaðan. Það þarf að bora í hnéð, setja inn myndavél og laga þennan liðþófa eða fjarlægja hann. Langar helst að láta gera þetta heima en ég þarf að athuga með tryggingar og fleira fyrst ég er með lögheimili hér í Bretlandi. Ég ætla samt í ræktina, tek bara efri hlutann. Verð þá kannski eins og Nigella Lawson í laginu hí hí. Finnst alltaf jafn fyndið að hún er aldrei mynduð fyrir neðan mitti :) Æi ég kemst örugglega ekki að samt áður en ég fer til Afríku en það hefði samt verið gott að geta klárað dæmið áður. Ég verð bara að fara varlega í Afríku, hlaupa ekkert á eftir ljónum og svoleiðis he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It