Bloggið
Afrískt sítrónu- og appelsínukökubrauð með birkifræjum
Sigríður barnapía (sem við köllum frekar hjónabandsbjargara en barnapíu) fær köku að eigin vali þá daga sem ég er í skólanum. Það eru langir dagar og nánast engin pása fyrir hana greyið og þess vegna er gott að eiga eitthvað gott að narta í. Í gær varð þessi kaka fyrir valinu og þar sem engin mynd var til af kökunni á vefnum (enda ein af þessu eldgömlu uppskriftu sem maður gleymir eiginlega) og ég smellti af mynd áður en ég fór í skólann. Það gengur ekki alltaf vel að taka myndir með 20 aukafingur í kringum sig. Auðvitað þarf að passa að krókódíllinn (rauðu ofnhanskarnir) borði ekki flóðhestinn (kökubrauðið) og svo þarf að gefa flóðhestinum (kökubrauðinu) að borða (gula tappann)..........Svo þarf auðvitað að þefa af kökunni.....oft og mörgum sinnum. Af 20 myndum eru yfirleitt 1-2 sem eru nothæfar og svo þarf að passa að yngra skrímslið, 16 mánaða (sem skilur ekki hugtök eins og „ekki setja símann í klósettið”) bíti ekki í kökuna á meðan maður er að taka mynd. Svo á meðan hann fær eitthvað dót lánað til að skoða (t.d. síma), þarf maður að vera fljótur að smella af.
En í hádeginu þegar ég kom heim úr skólanum til að fara með eldra afkvæmið (sem er á mynd, 3ja ára) í leikskólann fékk ég þessa tilkynningu: „Mamma! Kakan var ÆÐISLEG!”.......Það er nú ekki leiðinlegt!
Ný mynd, gömul uppskrift
Ég útbjó þetta döðlubrauð í síðustu viku og tók nýja mynd :) Alltaf jafn gaman að klæða gamlar uppskriftir í nýjan búning. Eru einhverjar uppskriftir á vefnum sem þið viljið fá í betri fötin?
Ottolenghi
Við hjónakornin skruppum út að borða síðastliðinn föstudag (það er ekkert betra en að stinga af út í myrkrið, vita af einhverju spennandi að smakka handan við hornið og vita af börnunum í góðum höndum). Við höfum ætlað okkur að fara lengi en ekki látið verða af því fyrr en núna. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við fórum sem sagt á Ottolenghi (sem þið gætuð kannast við út frá Ottolenghi, Plenty og Jerusalem uppskriftabókunum). Ottolenghi notar mikið grænmeti, allt ferskt, helst ekki aðflutt og almáttugur, maturinn er dásamleg bragðsprengja.
Ottolenghi er dýr en kannski ekki miðað við marga aðra staði. Mælt er með 3 diskum á mann (það eru ekki forréttir og eftirréttir eins og tíðkast, maður fær sér nokkra diska í staðinn) og ég náði að borða 2 en Jóhannes hefði hæglega getað borðað 4 eða fleiri. Þetta er svo sem ekki spurning um að belgja sig út heldur fara þægilega saddur frá borði (eins og alltaf). Mig hefði langað að prufa fleiri rétti en það hefði verið græðgi. Hérna eru nokkrar myndir sem eru svo sem ekki í góðum gæðum en þær eru teknar á símann minn. Athugið að aðalborðið er langborð fyrir miðju staðarins og sést ekki á myndunum. Ég mæli hiklaust með því að prufa staðinn (aðeins hægt að panta borða á Islington staðnum) og þá þarf að panta með góðum fyrirvara (oft nokkurra vikna). Annars má koma við og grípa með sér eða reyna að fá borð fyrir hádegismat.
Ottolenghi séð innan frá
Einnig séð utan frá, krítartaflan fræga sem er framan á Plenty bókinni sést þarna í hægra horni
Sýnishorn af matseðlinum sem breytist daglega
Meiri matseðill....slef
Ég næ engan veginn að festa á filmu fallegt útlit né dásamlega bragðið af matnum
Horft í átt að útidyrunum og eftirréttarborðinu
Nýjasta bók þeirra félaga Yotam Ottolenghi og Sami Tamimi, Jerusalem
Ljótri mynd skipt út......
Árið 2005 þegar ég byrjaði að taka myndir fyrir vefinn minn, var ég EKKERT að velta fyrir mér hvort að fólk væri að skoða myndir á vefnum mínum. Myndirnar tók ég svo að ég myndi CIRKA muna eftir því hvernig maturinn sem ég var að útbúa liti út. Oft smellti ég bara af með flassi, í rökkri, ekkert að velta fyrir mér bakgrunni né nokkru öðru. Ég er enn að finna þessar myndir á vefnum mínum og mér líður eins og vefurinn sé með tannskemmdir. Þegar ég hef tíma reyni ég að gera uppskriftina upp á nýtt, taka aðra mynd og gera hana aðeins skikkanlegri. Þessi kaka hér fyrir neðan er gott dæmi um hversu hörmulegar myndirnar geta verið og svo er sú fyrir neðan aðeins skárri...í það minnsta litríkari. Þetta er kakan sem ég útbjó fyrir þriggja ára afmælisskvísuna. Hún var himinlifandi með kökuna.
Gamla myndin af dökku súkkulaðikökunni án súkkulaðis
Nýja myndin af dökku súkkulaðikökunni án súkkulaðis....aðeins litríkari!
Kökudiskurinn sleiktur....það hlýtur að vera góðs viti!
Þriggja ára afmælisskonsa
Þessi krullhærða og græneygða afmælisskonsa er 3ja ára í dag. Hér er mynd af henni að hjálpa mömmu við matargerðina (eins og gerist oft). Alltaf er hún tilbúin til að „smakka til”. Hún er búin að biðja um hráfæðisköku í afmælisveislunni (carobköku með ávöxtum) og mamman verður við þeirri bón. Þessi stúlka hefur aldrei á ævinni bragðað á sælgæti, súkkulaði, skyndibita, ís, hefðbundnum kökum né annarri óhollustu og er líklega (vonandi) ekki verri fyrir vikið!
Til hamingju með afmælið litla mín!
Hollusta í London
Á leið minni í leikskóla Afkvæmisins rekst ég yfirleitt á foreldra sem eru að sækja börnin sín úr skólum í hverfinu. Ég sæki dótturina á bilinu 15.30 og 16.30 og upp úr klukkan 15.15 hrúgast börnin úr skólunum. Það var ekkert sérstakt sem varð til þess að ég tók eftir þessu í dag en athygli mín beindist að því sem börnin voru að borða. Ég hef séð eldri börn hrúgast inn í sjoppurnar hér og kaupa snakk og sælgæti (eftir skóla) en í öllum dæmunum hér fyrir neðan voru foreldrarnir með í för enda börnin yngri. Hér eru nokkur dæmi af því sem ég sá:
- Ostastrengir (cheese strings)...telst varla matur enda al-gjör viðbjóður frá A-Ö
- KFC kjúklinganaggar
- McDonalds krakkabox
- Eitthvað sem leit út eins og pylsa í pylsubrauði en ég sá að móðirin opnaði box sem innihélt einhvers konar sykurpylsur með frauði innan í og súkkulaði (í staðinn fyrir pylsur). Systkinin borðuðu með bestu lyst
- Lítil Ritz kex (eða svoleiðis nema með meiri sykri) og ostasósa (kom saman tilbúið í pakka)
- Heill poki af hlaupi (sem barnið, um 4ra ára hélt á og borðaði upp úr)
- Ribena safi og einhvers konar sælgæti
- Fanta Lemon og snakkpoki
Ekki í eitt skipti (ég kíkti vel í kringum mig) sá ég barn með ávexti eða grænmeti eða neitt slíkt.
Það tekur mig akkúrat 7 mínútur að labba í leikskólann.
Þeytivinda og eftirköstin
Oft er ég spurð að því hver skilgreining á „góðri heilsu“ sé. Þetta er góð spurning því hver og einn hefur ólíkt svar. Sumir vilja meina að það að vera grannur sé merki um góða heilsu. Það getur verið svo, en er ekki algilt (fólk getur verið haldið alls kyns sjúkdómum þó það sé grannt). Aðrir vilja meina að það að geta hlaupið maraþon sé vísbending um góða heilsu. Það er pottþétt að gott úthald o.fl. þarf í maraþonhlaup. Svo eru sumir sem segja sjósund vera eingöngu fyrir hreystimenni (efast ekki um það í eina mínútu....ég þarf að hita baðherbergið upp áður en ég fer í sturtu....að sumri til).
Mín skilgreining á góðri heilsu er svona: „Að geta sinnt daglegum athöfnum (s.s. þrífa, ganga, versla í matinn o.fl.), að geta sinnt áhugamáli sem krefst hreyfingar (s.s. gönguferðir, klifur, hjólreiðar o.fl.), að geta leikið við börnin/barnabörnin með góðu móti“. Að mínu viti þarf ekki að uppfylla öll þessi atriði, nægilegt er að uppfylla eitt, og maður má ekki liggja farlama í líkamanum daginn eftir vegna hjartavandamála, stirðleika eða annarra krankleika.
Þið sjáið að kílóafjöldi er ekki inn í þessarri skilgreiningu, en er þó innifalinn þ.e. það eru ekki margir sem geta t.d. sinnt áhugamáli sem krefst hreyfingar, ef kílóin eru margfalt umfram það sem hollt gæti talist. Ég vil þó ekki setja neinn ákveðinn kílóafjölda því hver og einn finnur sín takmörk. Það má þvarga fram og til baka um þessa skilgreiningu en við skulum bara hafa hana á bak við eyrað.
Ok. Ég get með góðri samvisku sagt að ég sé við góða heilsu. Ég get sinnt daglegum athöfnum og leikið við börnin, án þess að finna fyrir því né blása úr nös. Ég get reyndar ekki gert neitt sem krefst áreynslu á hné (því vinstra hnéð er ónýtt) en það skiptir ekki máli, ég er almennt við góða heilsu. Í dag hélt ég samt að ég myndi gefa upp öndina....og ég er enn að jafna mig.
Ég fór með eldra eintakið á stóra rólóinn í dag (ég hef hana heima á fimmtudögum til að spara pening....dagvistun í Bretlandi er reiknuð í hundruð þúsundum, ekki tugþúsundum). Stóri rólóinn er Coram‘s Fields, mjög skemmtilegur staður. Þar eru fullt af rólum og rennibrautum o.fl. skemmtilegu. Ég reyni alltaf að taka þátt í því sem dóttirin (að verða þriggja ára) er að gera, hvort sem það er að fara í rennibraut, klifra, hanga í köðlum eða hvað. Þetta er ein af mínum skilgreiningum á góðri heilsu, að geta tekið þátt í leik barnanna. Ég held að það sé afar mikilvægt upp á að hvetja til hreyfingar og að barnið fái gæðastundir sem ekki felast í öðru en að „vera til“. Dóttirin sem sagt sá rólu sem hún var ólm í að prófa. Ég samþykkti enda veit ég ekkert skemmtilegra en að sitja í rólu. Rólan er þannig að hún hangir eins og í grind og svo situr maður í körfu og snýst í hringi. Við lágum í rólunni og snerumst í hringi. Það var ægilega gaman og skríkirnir sem komu upp úr litla búknum staðfestu það. Eftir nokkrar mínútur fór þó að renna á mig tvær grímur. Ég stoppaði róluna, sat á brúninni og var komin að því að kasta upp. Ég stóð upp og þurfti að halda mér í staur á meðan ég íhugaði að láta vaða í hettuna á flíspeysu barnsins. Ég staulaðist áfram og sá stjörnubjartan himinn (þetta var um miðjan dag) svo fuku himnarnir hjá í gráblárri og svo fagurgrænni móðu, ég heyrði hanagal (ok það er reyndar fiðurfénaður á svæðinu) og ég taldi víst að nú væru mínar síðustu mínútur að líða hjá. Á meðan ég hélt í staurinn hljóp litla dýrið af stað, í þráðbeinni línu og hrópaði „mamma, mamma, prófum ÞESSA rólu“.....og ég tautaði með gubbubragðið upp í mér: „ok.....ef ég má hringja á sjúkrabíl“.....Heimferðin var martröð.....mig sundlaði og svimaði og aldrei hafa bílarnir í London keyrt jafn hratt fram hjá mér og aldrei hefur sótthreinsilyktin af gosbrunninum í Russel Square (þeim sem dúfurnar sækja í), verið jafn megn.
Síðan þetta gerðist eru liðnir 5 klukkustundir og ég er ekki enn búin að jafna mig....mér líður eins og innyflin séu enn á hreyfingu, hausinn sömuleiðis. Kannski er þetta aldurinn, kannski losna innyflin? (mér líður þannig...eins og ég hafi verið á 1300 snúningum í þeytivindu).....en mikið svakalega vildi ég, að ég gæti hlaupið í beinni línu eftir að hafa snúist í hringi í 5 mínútur. Það hlýtur að vera merki um góða heilsu....
Ólympíuleikaleysi
Nú eru almennu Ólympíuleikunum lokið (en Ólympíuleikar fatlaðra eru að hefjast innan fárra daga). Allt húllumhæið í öll þessi ár, allir peningarnir, öll þjálfun íþróttafólks, allar endurbæturnar á byggingum og götum, reiðhjólastígum og strætóum, fínu ruslatunnurnar.....og nú er þetta bara búið! Ruslatunnurnar reyndar halda sér og fínu endurbæturnar á mörgum götunum í London munu vonandi standast tímans tönn.
Hins vegar urðum við ekki vör við neitt. Ekki neitt. Við sáum nokkra blaktandi Ólympíufána, og hér og þar voru götur merktar sem forgangsgötur fyrir keppendur og merkikerti. Það segir ekkert um hvort umfangið var lítið eða mikið. Það segir okkur bara hversu borgin er stór og við kannski ekki mjög mikið að þvælast um borgina (nema okkar næstu þúfur). Við sáum ekki neina atburði og eigum ekki sjónvarp. Var þó límd við sjónvarpsskjáinn þegar fimleikar karla voru í gangi (var í matvörubúðinni og röðin var löng og ég flýtti mér hægt).
Ég get því ekki sagt að mér sé létt við að Ólympíuleikarnir séu afstaðnir (minni lokanir eru vegna Ólympíuleika fatlaðra svo við munum ekkert finna fyrir þeim, ekki það að þeir séu minna mikilvægir).....því miðað við hversu lítið vör við urðum við allt, hefði alveg eins getað verið heimsmeistaramót flughnýtinga í gangi.
Ég bjóst við meira umfangi kannski, lúðrasveitum og húllumhæi, íþróttafólki á götunum, túristum með fána. En í staðinn var borgin tóm. Algjörlega tóm. Vegna þess að allir héldu að borgin yrði yfirfull af fólki og umferð. Hóteleigendur skutu verðinu upp í topp, enginn kom, hótelherbergi voru því seld á niðursettu verði þegar fram á leikana leið. Því hér var enginn. Verslunareigendur kvörtuðu mikið um lélega sölu því túristarnir flúðu og heimafólk flúði og þar með datt salan niður.
Hver veit nema að við munum sjá Ólympíuleikana í Brasilíu 2016....en fyrst þurfum við að fá okkur sjónvarp (höfum ekki átt slíkt í 15 ár).....það gengur ekki að vera að fylgjast með í matvörubúðinni.
Pride ísdrykkurinn
Það er óhætt að segja að Pride ísdrykkurinn hafi slegið í gegn. Ég held að fáar uppskriftir hafi fengið jafn mörg „likes" á Facebook og fáar uppskriftir hafa verið skoðaðar jafn oft á stuttum tíma. Ísdrykkurinn var svolítinn tíma í undirbúningi en aðalvandamálið var blái liturinn sem nánast ómögulegt er að gera fljótandi....þess vegna fór ég þá leið sem ég fór. Þið getið lesið allt um drykkinn með því að smella á tengilinn undir myndinni.
Ný Whole Foods Market (eða öllu heldur er hún flutt í nýtt húsnæði)
Ó mæ lord.....ef þið eruð á leið til London og ef þið hafið áhuga á heilsuvörum o.þ.h. þá mæli ég með heimsókn í Whole Foods Market. Hún var áður á Brewer Street (á 2. hæðum, lítil og sæt) en er núna flutt á Glasshouse Street (einnig mjög nálægt Piccadilly Circus) í nýtt og glæsilegt húsnæði.....Þó að WFM í Kensington sé enn þá stærsta og flottasta þá er þessi samt ekki síðri að mínu mati. Aðeins minni í sniðum en í staðinn fyrir 200 stykki af alveg eins eplum þá eru kannski 50 stykki og þar fram eftir götum. Heimsóknarinnar virði, guaranteed!