Bloggið
Ný uppskrift á CafeSigrun: Gulrótarkakan hans Alberts
Ég hef engu við að bæta um eldgosið (sem ég fylgist með úr fjarlægð héðan úr London) svo ég set bara inn nýja uppskrift í staðinn!
Reglulega fæ ég sendar uppskriftir frá notendum vefjarins (Lísa vinkona mín telst ekki með því hún er alltaf að senda mér girnilegar uppskriftir og ég á eftir að gera frá henni svona 200 uppskriftir). Það er alltaf gaman að lesa yfir uppskriftir frá öðrum og mest þykir mér vænt um þegar fólk sendir mér „fjölskylduppskriftir” sem hafa kannski verið í sömu fjölskyldunni áratugum saman. Stundum er fólk að senda mér uppskrift sem er þeim kær t.d. vegna sérstaks tilefnis. Það er gaman að vera treyst fyrir slíkum fjársjóðum. Ég hef ekki alltaf tíma til að prófa uppskriftir sem mér eru sendar en stundum stenst ég ekki mátið. Um daginn sendi mér notandi vefjarins, Albert Eiríksson að nafni, uppskrift að gulrótarköku sem er líka hráfæðiskaka. Mér leist svo vel á hana að ég varð að prófa. Hún stóð fyllilega undir væntingum og birti ég afraksturinn hér.
Guðmóðirin
Við erum búin að vera með gest núna í tæpa viku. Gesturinn er Guðmóðir Afkvæmisins og er búsett í Kenya. Hún er reyndar frá Goa, Indlandi en hefur búið í Kenya nánast allt sitt líf. Hún rekur nokkur hótel við Diani ströndina, Mombasa. Svona hótel þar sem börn eru ekki leyfð því fólk kemur í algjöra afslöppun og lætur þjóna sér á tá og fingri. Undir svoleiðis kringumstæðum t.d. í brúðkaupsferð er líklega fátt leiðinlegra heldur en að vakna upp við organdi krakkagríslinga (það er nægt framboð af hótelum sem taka við fólki með börn). Við höfum gist á hótelunum hennar og þau eru gorgeous. Þegar Afkvæmið var 6 mánaða vorum við í Kenya og vorum gestir Guðmóðurinnar (enduðum ferðalagið þar eftir smá flakk um Kenya). Við vorum einu gestirnir ásamt ferðafélögum okkar. Þar fór Afkvæmið (auðvitað með undanþágu undan barnareglunni því við vorum jú einu gestirnir og í boði Guðmóðurinnar) í fyrsta skipti í sundlaug og dýfði tánum í Indlandshaf. Dásamlegur staður þar sem mango og avocado vaxa á trjánum og við vegkantinn getur maður drukkið kókosvatn með röri úr kókoshnetum sem strákpjakkar safna sjálfir með því að klifra upp pálmatrén. Kókosvatnið er selt á 10 Kenyska shillinga sem eru um 15 krónur. Pjakkarnir hafa auðvitað ekki GRUN um hvað þeir eru með í höndunum.
Það er svo áhugavert að fá að heyra upplifun Guðmóðurinnar á Evrópu. Hún hefur komið hingað (til London) milljón sinnum og í morgun spurði ég hana hvort henni fyndist erfiðara að snúa til baka til Kenya eða koma hingað. Ástæðan fyrir því að ég spurði er að mér finnst alltaf meira menningarsjokk að koma til baka til Evrópu heldur en þegar ég fer til austur Afríku (Kenya, Tanzaníu, Rwanda, Uganda). Ég venst löndunum í Afríku hratt, menningunni, loftslaginu, landslaginu, fólkinu, einfalda en góða matnum, malargötunum, geitunum. Þegar ég sný til baka til Evrópu finnst mér eins og malbikað hafi verið yfir heiminn. Alls staðar er steinsteypa, malbik, bílar, hús, fólk sem er að drepa sig á óhollu mataræði eða lifnaðarhætti og endalaus ys og þys af öllum þessum fjölda fólks sem er að flýta sér, alltaf, alla daga. Það eru fá tré og engir regnskógar með þrúgandi hita, raka og ilmi. Skipulagsfræðingar njörva niður græna bletti í hverri borg sem fjárfestar horfa til með hryllingi. Hver þarf gras og tré þegar má byggja fleiri hús? Fólk er ALLTAF að flýta sér en í Afríku gildir pole pole reglan (hægt, hægt). Það getur gert mann brjálaðan þegar maður er að flýta sér t.d. í flug en ósjálfrátt dregur maður andann dýpra og lætur hitann um að mýkja vöðvana og sólina endurnæra sálina. Guðmóðirin svaraði spurningu minni þannig að henni fyndist margt undarlegt hér en svo sem líka í heimalandinu. Þar sem hún býr er ekki sjálfsagður hlutur að fara í göngutúr að kvöldi og hún nýtur þess í botn að ganga um götur London því þær eru fullar af fólki og hún er örugg. Við heimili okkar hér í London eru heldur ekki varðhundar og varðmenn og húsið er ekki innan girðingar (eða jú en girðingin er þannig að maður getur klofað yfir hana). Henni finnst þægilegt að koma á „venjulegt heimili” þar sem fólk gerir húsverkin sjálft. „Þvottavélin” hennar heitir Robert og ekki bara þvær heldur straujar og gengur frá þvottinum líka. Hún er aldrei ein með sjálfri sér því alltaf er þjónustufólk eða aðrir starfsmenn innan um hana.
Það er margt sem henni finnst skrýtið að venjast. Henni finnst t.d. skrýtið að ég geti skilið poka fullan af matvörum fyrir utan dyrnar í augnablik (þurfti að hlaupa frá) og enginn sem er svangur stelur honum. Henni finnst líka skrýtið að ég hafi opna glugga, jafnvel á 2. hæð (það gæti einhver komið inn). Henni bregður ef hún heyrir dynk fyrir utan húsið og finnst að einhver hljóti að vera inni í húsinu. Henni finnst alltaf jafn undarlegt þegar fólk er með „varðhunda” í bandi. Í Kenya eru hundar einungis notaðir sem varðhundar, ekki sem gæludýr. Það sem henni finnst samt óþægilegast að horfa upp á er neyslumenningin, allur maturinn sem endar í ruslinu, allt vatnið sem fer til spillis, allir bílarnir sem keyra með einum ökumanni. Henni finnst óþægilegt hvað fólk tekur húsaskjóli, mat, vatni sem sjálfssögðum hlut. Það pæla fáir í þessum hlutum dags daglega. Það er ofgnóttin sem henni finnst yfirþyrmandi og ég veit vel hvað hún meinar. Það er helst hún sem gerir mig sorgmædda í hvert skipti sem ég kem aftur til Evrópu (og þá er ég að tala um England eða Ísland).
Guðmóðirin er 46 ára en lítur út fyrir að vera mörgum árum yngri. Afríski maturinn gerir henni gott og hún hugsar vel um húð og hár og heilsu almennt. Hún borðar hollt en hefur ekki hugmynd um að hvaða leyti og síðustu daga hefur hún verið að spyrja mig út í mataræði mitt. Mér finnst drepfyndið að ég sé búin að vera að segja íbúa Kenya allt um leyndardóma kókosolíu, kókosvatns, kjöts ungrar kókoshnetu (brilliant til ísgerðar o.fl.), allt um cashew hnetur, jarðhnetur o.s.frv. Allt þetta hráefni er að finna í miklum mæli í Kenya en engum hefur hugkvæmst að þetta séu upplagðar afurðir til að selja til Evrópu (t.d. Íslands) þar sem 250 ml af kókosvatni er álíka dýrt og vín, þar sem cashewhnetur (brotnar, litlar og ljótar) kosta yfir 7000 kr kílóið, og þar sem ungar kókoshnetur fást ekki einu sinni. Kannski er komin viðskiptahugmynd fyrir einhvern sniðugan? Ég get allavega útvegað góða gistingu ef einhver er að spá í að skella sér!
CafeSigrun frystihólfið og Orðalisti CafeSigrun
Jæja, nú er „CafeSigrun frystihólfið” orðið fullt af mat. Ég tók mig til eina helgina og gerði 16 burrito, 12 fylltar pönnukökur (crêpes) og 18 pitu-pizzur. Svona tryggi ég að enginn verði svangur í heilan mánuð eftir komu Nr. 2. Það eina sem við þurfum að gera er að hita matinn upp í ofninum. Ég mæli eindregið með því að þeir sem sjá fram á að geta ekki sinnt eldhúsinu í einhvern tíma (t.d. vegna spítalavistar, barneigna, próflesturs) gefi sér tíma í að undirbúa máltíðir fram í tímann sem auðvelt er að frysta. Trúið mér þið eigið eftir að verða glöð yfir að hafa verið svona hagsýn. Það er fátt dásamlegra heldur en að vera dauðþreyttur, langa í eitthvað gott en hafa enga orku til að útbúa mat, opna frystihólfið og hita upp eitthvað heimatilbúið. Það eru margir sem fara í skyndibitann við svona aðstæður en hann gerir yfirleitt illt verra, og fólk endar á því að fá of mikið salt, of mikla fitu, of mikinn sykur og of mikið samviskubit í kroppinn (fyrir utan hvað það kostar mikið). Svo það er í raun engin afsökun þetta með að „hafa ekki tíma”. Maður getur skipt undirbúningi niður á nokkra daga yfir nokkrar helgar og þá getur maður vel undirbúið hollan og góðan mat fyrir frystinn. Það má frysta nánast allt nema núðlusúpur (nema maður setji núðlurnar í súpuna eftir á) og fiskur er heldur ekki góður margfrosinn. Hér verður ekkert take away thank you very much.
En að öðru... ég er búin að opna orðalista á vefnum (og heitir Glossary á enska vefnum). Þarna má finna eins konar orðskýringar á orðum/heitum sem koma oft fyrir og ekki allir kannski átta sig á í fyrsta kasti hvað þýða. Sérstaklega ekki þeir sem eru að hefja þessa (oft) löngu leið sem er heilbrigðari lífsstíll. Tengilinn má finna efst á síðunni, undir myndinni í haus vefjarins.
Gamlar uppskriftir með nýjum myndum
Upp á síðkastið hef ég verið að dunda mér við að gera uppskriftir aftur sem annað hvort höfðu ekki mynd eða voru með svo ljóta mynd að ég gat ekki lengur horft á þær. Hér fyrir neðan má finna gamlar uppskriftir með myndum/nýjum myndum. Ég er alltaf hrifnari af myndum með uppskriftum og það er oft þannig að uppskriftir á vefnum sem voru eiginlega týndar og maður tók ekki eftir, glæðast nýju lífi með því að fá mynd.
Enska útgáfa vefjarins opnuð!!!
Jæja, þá erum við búin að opna ensku útgáfu CafeSigrun. Það þýðir að ég er búin að þýða (nánast) hverja einustu uppskrift vefjarins og (nánast) allt efni (það er eins gott að við eigum ekki sjónvarp) og Jóhannes er búinn að vera sveittur við að forrita eins og enginn sé morgundagurinn (aftur, það er eins gott að við eigum ekki sjónvarp). Einnig opnaði ég Facebook síðu fyrir enska vefinn.
Það er eins gott að maður geri eitthvað jákvætt fyrir bresku þjóðina því hún mun annars leggjast í alls herjar volæði eftir morgundaginn. Ekkert brúðkaup framundan og engin löng helgi (tvær helgar í röð hefur verið frá frá föstudegi til mánudags). Við höfum þó sól og sumaryl sem er svolítil sárabót.
Afmælisræpa
Þá er gamla kerlingin orðin árinu eldri. Ég man að þegar ég var 16 ára og var að vinna á hestabúgarði eitt sumar í Danmörku fannst mér fyrir neðan allar hellur að konan á bænum sem átti fertugsafmæli það sumarið væri með sítt hár niður á rass sem farið var að grána. Hún var heldur ekkert svona „fertug" í háttum fannst mér enda konan „rammfullorðin” og hagaði sér ekki samkvæmt því svo mikið. Sem betur fer þekki ég ekki marga sem haga sér samkvæmt aldri, mikið væri lífið þá litlaust. Talandi um aldur þá hélt ein góð vinkona mín sem ég kynntist í gegnum CafeSigrun (hún var að taka viðtal við mig fyrir tímarit og hafði aldrei séð mig) að ég væri eldri kona, mussuklædd í klossum með krullað hár, þétt á velli og rauð í kinnum. Henni snarbrá þegar hún opnaði dyrnar. Ég lít sem sagt alls ekki þannig út en hún er ekki sú fyrsta sem hefur haldið akkúrat þetta.
Ég er kannski ekki með sítt hár niður á rass og það er ekki grátt en það er samt sítt. Maður þarf kannski að fara að huga að ondúleríngu og rúllum í hárið. Það er farið að hallast ískyggilega í átt að fertugsafmælinu (og þar með fimmtugsaldurinn guð hjálpi mér). Nú þarf maður að haka við 25-45 ára valmöguleikann í spurningakönnunum og þegar maður fyllir inn fæðingarárið í eyðublöðum á netinu þarf að skruna ansi langt niður til að komast í 1974. En svo lengi sem maður sjálfur og fjölskyldan hefur heilsu er lítil ástæða til að kvarta þó að bætist við í hrukkusafn eða grá hár. Þetta fer allt í reynslubankann.
Þetta var annars skrýtinn afmælisdagur því honum var eytt á dollunni. Einhver magapest hefur látið á sér kræla hjá okkur mæðgum og í staðinn fyrir að gera súkkulaðikrem á afmælisköku í dag þá…æi þið vitið restina. Það var alls ekki planið í dag. Ég ætlaði svo sannarlega að njóta dagsins í þessari veðurblíðu (afsakið Íslendingar) en í staðinn komst ég um 50 metra út fyrir dyrnar og þurfti þá að snúa við og hlaupa spretthlaup (með 8 mánaða kúlu framan á mér) upp á aðra hæð með bilað hné. Ekki að gera sig en allt fór þó vel og slysi afstýrt. Afmælishöldum hefur því verið frestað til næstu viku en þá er líka löng helgi og við ætlum að njóta einhverra veitinga á góðum stað þá frekar en núna enda lystin ekki upp á marga fiska hvort sem er….
Af öðru er það að frétta að ég er að leggjast í smá tilraunir á írskum mosa (Irish Moss) sem er þang sem er mikið notað í hráfæðisheiminum. Hann er afar spennandi hráefni, eiginleikarnir göldrum líkastur en afurðin sjálf illfáanleg og rándýr. Jóhannes kom með mosann handa mér þegar hann kom frá Californiu (viðskiptaferð hjá Disney….og já, í Disneylandi) á sínum tíma. Hann heimsótti marga hráfæðisstaði og kom með heilan poka af mosanum handa mér (það hefði verið MJÖG erfitt að útskýra þessi kaup fyrir tollvörðum hefðu þeir opnað töskurnar). Býst ekki við að birta uppskriftir með þessu sérstaka hráefni en það má allavega prufa hvernig það kemur út og deila reynslunni.
Jæja, best að hlaupa á dolluna.….
Brúðkaupið
Bretar eru að missa sig yfir brúðkaupi Will og Kate. Það á meira að segja að gefa Bretum frí þennan dag (sem er reyndar ómögulegt og rýndýrt fyrir þá sem eru verktakar) svo að fólk geti veifað breska fánanum og setið fyrir framan sjónvarpið, dýft kexinu í tebollann og fylgst með þessum stórmerkilega (á þeirra mælikvarða) viðburði. Þau eru reyndar voðalega sætt par og ég held að drengurinn sé sérlega vel upp alinn og góð fyrirmynd í alla staði (og stúlkan eflaust líka). Ég myndi óska þeim alls hins besta ef ég hitti þau á förnum vegi. Sem er reyndar ólíklegt. Ég held að Díana prinsessa hefði orðið stolt af syni sínum og ánægð með tengdadótturina (og eins gott þar sem tengdadóttirin ber á fingri sér trúlofunarhring Díönu sem metinn er á 35 milljónir punda (um 6 milljarða). Aðeins.
Nú er hægt að kaupa brúðkaups- strokleður, glös, servíettur, kökur, spil, trefla, derhúfur, boli, vatnsflöskur og auðvitað bolla. Búðargluggar eru skreyttir myndum og fánum og það er mikil tilhlökkun í loftinu greinilega. Nú er búið að setja upp vefsíðu þar sem fólk getur fylgst með brúðkaupinu í beinni útsendingu (við ætlum reyndar ekki að horfa á beina útsendingu né óbeina).
Mér skilst að það sé búið að baka kökurnar og eigi bara eftir að skreyta þær. Ég held að þetta verði ekki mikil hollustuveisla. Vissuð þið að efsta hring brúðartertunnar (sem á að vera úr marzipani) á maður að geyma í 9 mánuði samkvæmt hefðinni, til að nota í skírnarveislu fyrsta barnsins. Það á ekki að geyma kökuna í frysti heldur á köldum og þurrum stað. Jebb, mjög hollt eða þannig he he.
Brúðkaup Will og Kate verður líklega eins ólíkt okkar og hugsast getur. Við fórum til borgardómara og af því tveir bræður mínir voru akkúrat staddir hjá okkur þá í heimsókn þurftum við ekki að biðja húsvörðinn og afgreiðslukonuna um að vera vitni. Ég var í vinnufötunum mínum en minnir þó að ég hafi keypt skyrtu fyrir tækifærið (sem ég gat svo notað í vinnuna). Svei mér þá ef Jóhannes var ekki í skyrtu frekar en stuttermabol. Við fórum með strætó „heim“ eftir „athöfnina“. Við settumst upp á efri hæð í tilefni dagsins minnir mig. Gestirnir (bræður mínir tveir plús litli frændi minn) þurftu að borga fyrir sig sjálfir í strætó. Ég held ég hafi verið búin að baka köku, eða mig minnir það (ekki mörgum mánuðum áður samt, held ég hafi bakað hana samdægurs). Ég held hún hafi örugglega ekki geymst fram á næsta dag og alveg örugglega ekki í 9 mánuði. Við fórum á Starbucks eftir „athöfnina“ (alla leið inn til London) og fengum okkur kaffi og svo fengum við okkur sushi í tilefni dagsins. Ég svaf á dýnu á gólfinu (og Jóhannes í sófanum) brúðkaupsnóttina því það var þægilegra upp á gesti að þeir gistu í hinum herbergjunum. Afskaplega rómantískt (eða svoleiðis) en reyndar akkúrat eins og við vildum hafa „brúðkaupið“ okkar. Ég vildi ekki hring eða neitt svoleiðis og Jóhannes hefði líklega stungið upp á því að ferðast frekar fyrir peninginn. Nokkrum árum síðar fórum við til Japan fyrir peninginn sem hefði annars farið í veislu og vesen. Þetta fyrirkomulag er þó ekki allra og sumir vilja nota fullt af peningum í að skipuleggja draumadaginn sinn (og ekkert að því ef það er það sem fólk vill). Það er þó ekki líklegt að Kate myndi taka í mál að fara með Will á Starbucks eftir athöfnina. En maður veit þó aldrei. Það voru engir minjagripir seldir til heiðurs okkur Jóhannesi og það man enginn eftir brúðkaupsdeginum okkar. Ekki einu sinni við sjálf þessi síðustu 8 ár. Ég hef munað einu sinni eftir honum og Jóhannes eitthvað oftar. 
Það er annars heitt þessa dagana, fór upp í 23 gráður og steikjandi sól í gær (og spáð slíku áfram) sem ég veit að er ljótt að segja frá svona miðað við að það er enn hálfgert vetrarríki á Íslandi. Ég held ég sé pínulítið brunnin á nefinu en þið viljið líklega ekki heyra meira um það.
Ný uppskrift: Pistachio- og kókoskúlur
Ég var að setja inn nýja uppskrift á vefinn. Mér fannst tilvalið að setja inn uppskrift að konfekti rétt fyrir páskana enda eru margir sem eru ekki hrifnir af því að kaupa tilbúin páskaegg (og ég skil það vel) og vilja frekar búa til sitt eigið nammigott. Konfektið hentar einnig vel fyrir t.d. veisluborð enda eru margir í þeim hugleiðingum þessa dagana.
Á þeim nótunum þá tók ég saman páska- og veislu uppskriftir þ.e. uppskriftir og hugmyndir sem passa vel fyrir þetta tímabil sem nú er í gangi (páskar, fermingar, útskriftir og svoleiðis húllum hæ). Samantektin verður sýnileg af forsíðunni þangað til í byrjun sumars.
Það er auðvelt að blekkja neytendur!!!!
Ég las áhugaverða grein á dögunum í DailyMail. Blaðið er svo sem svolítið slúðurblað en inn á milli slysast ágætis greinar, sérstaklega um heilsutengd málefni. Þeir hlífa engum og í þetta skiptið fékk samlokustaðurinn Pret A Manger að finna fyrir því. Þetta var eiginlega smá sjokk, meira að segja fyrir mig því ég hef alla tíð haldið að samlokurnar þeirra væru heilnæmar og fínar. Ég hef þó ekki verslað við þá að ráði nema einstaka sinnum í gegnum árin. Ég þekki því ekki mjög vel inn á þeirra vörur. Þeir auglýsa mikið að þeir noti ferskt hráefni, engin aukaefni og að allar samlokur séu búnar til á staðnum (sem er mjög flott auðvitað). Ef afgangur er af mat í lok dags gefa þeir hann til þeirra sem minna mega sín (enn þá meira frábært). Mér hefur því alltaf verið svolítið hlýtt til Pret vegna fyrrnefndra atriða. Pret eru sem sagt risa keðja (en byrjuðu smátt) sem selur samlokur, vefjur, baguette, muffinsa, orkubita (svona með muesli og hnetum o.þ.h.), kartöfluflögur, þurrkaða ávexti, poppkorn og fleira. DailyMail ákvað að rannsaka næringarinnihald nokkurra vörutegunda og niðurstaðan var svakaleg. Sem dæmi:
- Samloka með skinku og osti innihélt fullan ráðlagðan dagsskamt kvenmanns af HITAEININGUM og þ.á.m. 18 gr af mettaðri fitu og 4.25 g af salti (ráðlagður dagsskamtur fyrir fullorðna manneskju er 6 g eða minna).
- Vefja með andakjöti og Hoisin sósu innihélt 3 teskeiðar af sykri sem er meira sykurmagn en í súkkulaðistöng frá sama fyrirtæki.
- Tómatssúpan í litlu íláti innihélt 4.5 g af salti sem er bilað magn.
- Osta- og súrgúrku baguette samlokan innihélt 800 hitaeiningar og 15.6 g af mettaðri fitu og er svipað og í lítilli pizzu frá Pizza Express (keðja) og ekki ósvipað hitaeiningafjölda í Big Mac og frönskum.
Þetta er áhugavert í ljósi þess að fólk setur samasem merki á milli þess sem er ferskt og án aukaefna og þess sem á að vera gott og hollt fyrir mann. Þetta er viðvarandi vandamál á íslenskum veitingastöðum sem auglýsa hollan og góðan mat án þess að nokkur fótur sé fyrir því. Alveg eins og þegar fólk heldur að kjúklingur sem borinn er fram á veitingastað í hollari kantinum sé lífrænt ræktaður (og free range) bara af því hann er borinn fram á svoleiðis stað. Kjúklingurinn hefur hins vegar án undantekninga (á Íslandi) verið alinn upp í búri og þurft að þjást og það illa.
Það er endalaust hægt að blekkja neytendur og Pret A Manger menn eru afar lunknir við að lokka til sín viðskiptavini með fögur fyrirheit um hollustu. Hollustan nær þó bara yfir einn anga en ekki alla.
Sammála
...og þið hélduð að ég væri að tala um Icesave he he....Bara svo það sé ljóst þá er ENGINN hér að velta fyrir sér þessu máli. Nema kannski pólitíkusarnir. Þetta mál er svo löngu, löngu gleymt og grafið í vitund fólks og það kom ein, lítil og mjó frétt í helstu blöðum í dag en þannig að líklega hafi fæstir tekið eftir. Það eru jú einhver sveitarfélög sem fóru illa út úr viðskiptum við Íslendinga en meginþorra almennings gæti ekki verið meira sama. Það eina sem afgreiðslufólkið í búðum og kaffihúsum, leigubílstjórar og samstarfsfólk o.fl. vill vita um er fyrirbærið "Ijafjedddlajogudll" og hvernig það hafði áhrif á almenning.
En frá Icesave og yfir í kjúklinga og svín og meðferð þeirra. Ég veit að ég er alltaf að böggast yfir þessu máli en ég er svo sammála því sem kemur fram í þessari færslu. Ég hef sjálf hringt í kjúklingabú (því Jóhannesi finnst kjúklingur góður en borðar reyndar ekki svínakjöt) og það var ansi fátt um svör.
Ég er sérstaklega sammála því sem hún segir um að rómantíska hugmyndin sem fólk hefur varðandi lífrænan búskap á Íslandi sé að lognast út af. Enda er lítil rómantík yfir raunveruleikanum. Svín og kjúklingar eru framleidd, þau eru ekki ræktuð og umræðan er vonandi eitthvað að opnast núna, enda ekki vanþörf á. Ég þori að fullyrða að ekki einn kjúklingur (og ekki eitt svín) sem framleiddur er til slátrunar hefur ekki lifað í búri eða þjáðst illa. Nema kannski hænugrey á bóndabæ sem er sett í súpupottinn í lok ævinnar. Ég er ekki að tala um svoleiðis "eðlilegar aðstæður" enda var hænugreyið ekki ræktað til slátrunar fyrir almenning. Ég er að tala um verksmiðjuframleidd dýr sem eingöngu eru ætluð til þess að fóðra mannfólkið.