Bloggið
Tuttugu flutningsráð
Við erum búin að flytja óheyrilega oft á síðustu árum. Bara síðan 2001 erum við búin að flytja til London, frá London, til London, frá London og til London aftur. Við höfum bæði flutt með búslóð og án (mæli með að flytja án hennar ef maður kemst upp með það). Við höfum líka flutt innan London ótal sinnum. Þrisvar á einu ári er held ég met. Ef ég sé brúnan pappa nálægt mér næstu 12 mánuði, gubba ég.
Ég er enginn heimsmeistari í að pakka búslóð og ég t.d. hef ég eftir flutning á milli landa opnað kassa með vöfflujárni og fundið gamla vöfflu fasta í vöfflujárninu. Ég hef líka pakkað mikilvægum hlutum eins og auðkennislyklineðst í pappakassa (einhverjum kassa) og þurft að opna 100 kassa rétt fyrir mánaðarmót til að geta greitt reikninga. Ég hef líka flutt á milli landa, gert ítarlegan lista yfir innihalda kassanna (brilliant hugmynd) en týnt listanum í miðjum flutningum svo ég var engu nær hvað var í kassa nr. 1 frekar en kassa nr. 73. Það hefur þó margt síast inn á þessum flutningum öllum og að beiðni Melkorku, notanda vefjarins ætla ég að „deila viskunni”. Vonandi hafið þið gagn af:
- Byrjið snemma. Pakkið ofan í einn og einn kassa hlutum sem maður þarf ekki að nota í langan tíma eins og t.d. vetrar/sumarfötunum, 4ða aukasettinu af rúmfötunum og auka handklæðum.
- Verið búin að gera ráð fyrir mat þessa daga sem þið eruð á fullu að pakka. Það er gott að geta hitað upp t.d. pítu-pizzur í ofninum þegar allir eru á fullu. Gott, heimatilbúið konfekt kemur manni líka vel áleiðis. Flutningar eru engin afsökun fyrir því að borða óhollt!
- Verið búin að útbúa lista yfir alla þjónustu sem þarf að flytja yfir á nýtt heimilisfang (internet, sími, áskriftir, tryggingar o.fl.).
- Geymið helling af fötum og handklæðum fyrir kassana með leirtauinu/brothætta dótinu. Það er asnalegt að pakka hlutum inn í dagblöð þegar maður á föt til að pakka þeim inn í. Ég neita að flytja dagblöð svo mikið sem sentimetra á milli staða.
- Pakkið EKKI snyrtivörum ofan í kassa sem ekki má ilma rækilega (sérstaklega ef kassinn á að geymast lengi óopnaður).....Ég á um 50 bækur sem ilma eins og Jean Paul Gultier ilmvatnið.
- Notið tækifærið og gerið tiltekt í skápunum. Farið með gömul föt, leikföng , bækur o.fl. í söfnun fyrir góðgerðarmál, það er óþarfi að flytja dót sem þið ætlið ekki að nota á milli staða. Notið gagnrýnið auga...þurfið þið virkilega tvo þvottabala? Og já axlapúðar ERU dottnir úr tísku og koma ekki aftur.
- Fáið pössun fyrir börnin ef hægt er til að geta tekið góðan skurk í pökkun (og á flutningsdeginum)...litlar hendur hafa einstaklega gaman af því að taka UPP ÚR kössunum því sem maður pakkar og litlir fætur flækjast fyrir stórum fótum. Það er lífsins lögmál.
- Merkið kassana með innihaldi t.d. „eldhús 1” og skrifið niður á blað hvað „eldhús 1” inniheldur. Þetta er sérstaklega mikilvægt í flutningum á milli landa. Geymið listann á góðum stað (og afrit í tölvunni).
- Pakkið ekki bókum í stóra kassa, þeir verða mjög líklega of þungir. Sama gildir um leirtauið.
- Kaupið hreingerningaþjónustu ef þið hafið ráð á því til að láta þrífa húsnæðið þegar þið skilið því. Tveir dagar í þrif eru tveir dagar sem þið fáið aldrei aftur!
- Fáið aðstoð við flutning ef þið getið...vinir og vandamenn eru oft boðnir og búnir (sérstaklega ef boðið er upp á öl/kalda drykki og eitthvað gott í matinn).
- Kaupið nokkra góða plastkassa sem þið getið svo notað áfram eftir flutningana. Þeir eru góðir til að hafa í geymslunni eða fyrir vetrar/sumarskóna inni í fataskáp.
- Á sjálfum flutningsdeginum skuluð þið vera búin að raða kössunum (og því sem þarf að flytja) þannig upp að fljótlegt sé að henda þeim í bíl. Ekki geyma 10 kassa í einu herbergi og 3 kassa í öðru. Setjið alla kassana/allt dótið á einn stað. Þetta fer auðvitað eftir plássinu sem er til staðar.
- Leggið stífan pappa eða plastdúk á gólfin þar sem þið gangið um...gólf geta orðið ónýt mjög hratt ef farið er inn á skítugum skónum, aftur og aftur.
- Það sem nota á sama dag og flutt er (ef ekki er flutt á milli landa) er gott að hafa vel merkt og á handhægum stað. Þetta á við um t.d. rúmföt, sængur, hraðsuðuketil, glös, uppáhalds leikföng og bækur fyrir börnin, bleiur o.fl.
- Fyrir börnin skal passa að allur matur fyrir daginn sem þið flytjið sé tilbúinn (og nógu mikið af hollu snarli), það er fátt erfiðara heldur en að bíða eftir fullorðna fólkinu þegar maður er svangt og þreytt barn.
- Verið búin að losa úr frystinum með góðum fyrirvara...það er ótrúlega oft sem hann gleymist þangað til á síðustu stundu og ef þið eruð eins og ég, hendið aldrei mat, getið þið lent í að vera með blauta poka í flutningum innan bæjar...af mat sem er að þiðna.
- Ef þið eruð upptekin með t.d. barnaskara, gerið þá ráð fyrir að opna aðeins nokkra kassa fyrstu dagana á nýja staðnum....þessir kassar ættu að innihalda allt það mikilvægasta svo merkið þá vel. Hina kassana má opna síðar.
- Pakkið uppáhalds bókum, leikföngum, teppi, náttfötum o.fl., fyrir börnin og hafið með ykkur á nýja staðinn. Börnin þurfa eitthvað kunnuglegt í öllu stressinu.
- Það er tvennt sem ég pakka alltaf síðast í kassa en það eru brauðristin og blandarinn. Brauðristin því ristað brauð með osti er alltaf góður matur og í blandarann getur maður sett allan fjandann þegar maður er að hreinsa úr ísskápnum, frystinum og skápunum. Hnetumauk, bananar, mjólk og frosnir ávextir (eða bláberin úr berjamó) og spínat er t.d. eðalgóður smoothie.
Flutningar eina ferðina enn
Það er aldrei lognmolla hér á bæ....nýbúin að snýta króganum út og nú taka við flutningar enn og aftur (þriðju flutningarnar á þessari meðgöngu sem er reyndar búin en ég var jú ólétt þegar ég var byrjuð að pakka). Við erum búin að ákveða að yfirgefa „þorpið”. Ástæðan fyrir gæsalöppunum nú (en ekki í janúar þegar við fluttum hingað) er að þetta er alls ekkert þorp. Þetta er eins og að búa við Reykjanesbrautina á stórum gatnamótum. Við tókum húsnæði sem við héldum að væri í rólegri götu en það reyndist alls ekki vera. Við getum ekki sofið með opna gluggana því hávaðinn frá götunni og aðal umferðaræðinni í gegnum „þorpið” er svo mikill. Aðeins innar í götunni eru 8 endurvinnslugámar út frá veitingastöðum sem eru losaðir frá kl 7 á morgnana til kl 22 á kvöldin með tilheyrandi, óþolandi hávaða (m.a. verið að sturta gleri). Oft er búið að losa 3var fyrir klukkan 7.30 á laugardags- og sunnudagsmorgni. Sem er fáránlegt. Svo eru fleiri ókostir eins og t.d.:
- Ekkert almennilegt kaffi fyrir Jóhannes
- Enginn jógúrtís fyrir mig (nenni ekki alltaf að búa til sjálf)
- Langt í vinafólk okkar, Mariu og Pete sem búa í bænum
- Mikil og þung umferð nánast allan sólarhringinn og byrjar af þunga kl 5 á morgnana
- Stanslausir hurðarskellir frá bílum sem leggja í götunni (fólk að hlaupa í matvörubúðina til kl 22 á kvöldin)....og bílarnir liggja nánast á húsinu okkar
- Lítið hægt að gera um helgar nema maður eigi bíl
- Ég get ekki búið á stað þar sem fólk segir „Thank you Driver” þegar það fer úr strætó
- Strætó er að gera mig bilaða, maður kemst ekkert nema með strætó og oft koma 4 í röð og svo enginn næsta hálftímann....ég eyði kannski klukkutíma í að bíða eftir strætó dag hvern og ég sé eftir þeim tíma...mikið
- Ég er að fara í nám í haust (nánar um það síðar) og ég nenni ekki að ferðast héðan til að fara í skólann, sérstaklega ekki að vetri til
Áður en við fluttum hingað vorum við búin að kynna okkur svæðið vel og búin að spyrja ALLA sem við gátum, hvernig svæðið væri. Alltaf voru svörin á þá leið að hverfið væri dásamlegt, að þetta væri paradís fyrir fólk með fjölskyldur (svæðið hefur viðurnefnið Nappy Valley (Bleiudalur)), að alls staðar væru græn svæði, að hér væri ró og friður, að í þorpinu sjálfu væru sæt kaffihús o.fl., o.fl.... Sennilega er þorpið að lifa á ansi fornri frægð vegna Wimbledon tennismótsins því hér eru ekkert nema fatahreinsanir, kaffihúsaKEÐJUR (ekki sæt kaffihús), þær sömu og má finna í hverjum einasta bæ í London, Rauða kross búðir (sem selur notað dót) og það er eitt grænt svæði, berangurslegt með engum róluvelli eða neinu slíku (ef maður á bíl getur maður keyrt í annan garð) og það er ekki rass í bala ró og friður nema maður búi í einu af risastóru einbýlishúsunum (en af þeim er nóg hér). Það er margt undarlegt hér á hæðinni. Eins og t.d. fínu konurnar í bleiku reiðbuxunum sem eru stífmálaðar með Louis Vuitton töskur og í 80 þúsund króna leðurstigvélum í hesthúsinu og eru ALDREI með svo mikið sem rykkorn á sér. Enda eru þær of fínar til að moka hrossaskít...þær fá einhverjar smástelpur til þess. Mér finnst líka skrýtið að sjá fólk keyra hunda í barnavagni (eða hundavagni sem lítur út eiginlega eins og barnavagn)...mjög spes. Það er líka skrýtið að sjá aldrei túrista...en ég kann vel við túrista, finnst gaman að fylgjast með þeim. Einnig er undarlegt að það sé ÞUNG umferðaræð í gegnum aðalverslunargötuna þar sem kaffihús eru með borð og stóla nánast á hraðbraut. Við erum að tala um að fólk er að drekka kaffi á kaffihúsi á meðan 18 hjóla flutningatrukkur spýr svörtum reyknum ofan í kaffibollann (ef viðkomandi teygði sig af stólnum gæti hann snert dekkin) og þjónustufólkið þarf að lesa af vörum þegar það tekur pantanir því það heyrir ekkert fyrir hávaðanum. Ekki beint ró og friður. Af þeim rúmum 7 árum sem við höfum búið í Bretlandi höfum við búið í 4 ár í miðborginni og það er ekki svona mikill hávaði þar nema maður sé á $#%&$ Oxford Street. Það eru vonbrigði að þurfa að flytja...en að sama skapi erum við glöð að komast aftur í okkar hverfi. Við verðum reyndar ekki í Fitzrovia heldur í Bloomsbury, rétt hjá British Museum en það er mjög nálægt Fitzrovia. Þar eru billjón alvöru kaffihús með alvöru kaffi fyrir Jóhannes (meira að segja eitt í okkar götu), fullt af jógúrtísbúðum fyrir mig, heilsubúðin (Planet Organic) nánast í næsta húsi og leikvellir í nágrenninu.....Íbúðin sjálf er penthouse íbúð (á efstu hæð), 90 fermetrar á EINNI hæð (ekki þremur...geri það ekki aftur, sérstaklega ekki með tvö börn) og húsið er með lyftu (ekki á 4ðu hæð með engri lyftu...geri það ekki aftur). Stóri gallinn við nýja húsnæðið er að það er ekki gaseldavél og ísskápurinn er lítill (hata litla ísskápa) en ég lifi hehe.... Myndin er af vef http://www.equetech.com/canter.asp?year=5
CafeSigrun á Facebook
Ég er búin að vera með 5000 vini á Facebook í nokkuð langan tíma. Eða reyndar eiginlega 6500 vini því á tímabili var ég með um 1500 manns á 'biðlista'. Facebook hins vegar fílar ekki að ég sé með svona marga vini. Facebook heldur að ég sé eitthvað rosa stórt fyrirtæki, sé að auglýsa mig í gríð og erg þegar ég birti uppskriftir og vill að ég loki vinaprófílnum mínum. Sem er dálítið svekkjandi því það er gaman að eiga 5000 'vini' og 1500 á biðlista.
CafeSigrun á Facebook (vinasíðan) mun því loka fljótlega en í staðinn er til aðdáendasíða þar sem maður gerir 'like' eða 'líkar' við (hnappur efst á síðunni). Það eru um 8500 manns aðdáendur CafeSigrun á Facebook og mér finnst það algjörlega magnað. Það eru 8500 sem vita yfir höfuð hvað CafeSigrun er!!! Er það ekki ótrúlegt? Mér finnst það allavega.
En já anyways....þið sem viljið fylgja CafeSigrun á Facebook, farið þá inn á CafeSigrun - Hollar uppskriftir og bætið ykkur við. Vonast til að sjá ykkur sem allra flest þar
Fróðleikskornið: Að gera óþroskaða ávexti þroskaðri
Vissuð þið að til þess að láta óþroskaða ávexti þroskast fyrr getið þið stungið ávextinum (t.d. mango, peru eða avocado (já avocado er ávöxtur)) ofan í skál með ósoðnum hrísgrjónum eða byggi. Best er að setja banana ofan í grjónin líka og hylja svo ávextina með grjónunum! Þið getið reyndar líka stungið ávextinum í bréfpoka (upplagt að nota pokana utan af íslenska bankabygginu), sett banana með og lokað fyrir, gerir sama gagn og að stinga ofan í hrísgrjónin..... Hrísgrjónin getið þið svo notað eins og áður.
Ný uppskrift: Jarðarberja- og vatnsmelónudrykkur
Nú er jarðarberjatíminn í Bretlandi og ég er líklega búin að kaupa 30 kg af jarðarberjum síðasta mánuðinn. Ég hélt þetta væri eitthvað svona óléttudæmi (að vera sólgin í jarðarber) en ég er alveg jafn slæm eftir að Nr.2 kom í heiminn. Ég var að setja inn þessa uppskrift að Jarðarberja- og vatnsmelónudrykk sem er einstaklega frískandi í sumarhitanum (só sorrí þið á Íslandi :) Þið sem eruð að krókna getið allavega útbúið drykkinn til að fá öll fínu vítamínin sem eru í honum :)
CafeSigrun kynnir til leiks...
Þá er nýjasti notandi CafeSigrun kominn í heiminn. Hraustur strákur, 14 merkur og 50 sentimetrar.
Bögg um töpuð kíló
Ég get eiginlega ekki orða bundist. Nú er ég búin að halda úti vef með heilsuuppskriftum síðan árið 2003. Vefurinn gengur út á hollari mat en fólk er að borða svona almennt og hentar þeim sem vilja léttari lífsstíl eða eru að huga að heilsunni á einhvern hátt. Þetta er ekkert flókið. Ég nota magrari mjólkurmat þegar ég get, mikið grænmeti og nota ekkert sem flokkast sem unnið eins og sósur, kex o.þ.h. Ég geri sem mest frá grunni og kaupi aldrei skyndibita. Ég nota helling af fitu (hollri) og svo nota ég sætu eins og agavesíróp, hlynsíróp, rapadura hrásykur o.fl. Sem sagt uppskriftirnar eru ekki endilega hitaeiningasnauðar en líkaminn vinnur öðruvísi og betur úr þessum mat heldur en hann gerir við það sem inniheldur tómar hitaeiningar (hvítan sykur, hvítt hveiti o.fl.). Ég hef aldrei, utan eitt skipti þegar ég talaði um kílóafjölda eftir meðgöngu (þegar ég bætti á mig 5 eða 7 kg) minnst á það á vefnum mínum að fólk geti létt sig, tapað x mörgum kílóum með því að borða matinn minn eða eitthvað í þeim dúr. Ég gæti sagt margar reynslusögur fólks sem hefur borðað matinn minn yfir langan tíma og orðið töluvert léttara (í tveggja stafa tölum) og ég hef lúmskt gaman af. Mér finnst það bara einfaldlega ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hvort að fólki líði vel eftir að borða matinn, að minna sé notað af drasli og unnum vörum, að öll fjölskyldan geti borðað hollari mat o.fl. og að þessi lífsstíll sé vonandi til frambúðar. Hvort að viðkomandi missi 5 eða 50 kg er mér eiginlega alveg sama um. Ég hef verið beðin um að birta hitaeiningafjölda uppskriftanna á vefnum mínum. Ég tel aldrei hitaeiningar og ég á ekki baðvog. Orðið „megrun” er ekki til í mínum orðaforða nema sem bannyrði. Ég veit aldrei hvað ég er þung nema þegar ég er ólétt því þá er einhver sem segir manni að stíga á vigt. Ég veit að sömu föt passa mér í dag og þau gerðu fyrir viku og 10 árum og að mér líður vel og samkvæmt læknisskoðunum er ég mjög hraust.
Þetta er ekki flókið, ef maður borðar fleiri hitaeiningar en maður brennir, bætir maður á sig þyngd. Ok aðeins flóknara kannski því sumir hreyfa sig, aðrir ekki, enn aðrir hafa hraða brennslu en hinir hægari en þetta er svona yfir höfuð, þegar til lengri tíma er litið, ekki flóknara en svo. Majonessósur og skyndibitamatur + sófinn eða léttar sósur og hollur heimatilbúinn matur + hreyfing = Það geta allir reiknað þetta dæmi.
Það sem er að pirra mig í dag (kannski af því ég er pirruð svona yfir höfuð að bíða eftir Nr. 2 og skárra að rífast hér en í Jóhannesi greyinu) er að í hvert skipti sem ég opna stærsta fjölmiðlavef landsins blasir við mér að einhver hafi tapað x mörgum kílóum, að þessi og hinn hafi grennst svo um muni, að þessi kona sé glæsileg í kjól eftir að hafa farið í megrun, að þessi sé í detoxi, að þessi sé að tálga sig og fleira í þeim dúr. Það er einhver scary útlitsdýrkun í gangi núna sem ég hef ekki orðið vör við í langan tíma. Það eru ekki bara töpuð kíló heldur fylltar varir, sléttari húð, brúnkukrem, botox, stinnari rass, grenningarlyf o.fl. sem að tröllríður öllu. Þetta blasir allt við manni ef maður opnar vefinn. Ég veit vel að það má sleppa því að opna vefinn (og málið leyst og ég get hætt að röfla) en punkturinn hjá mér er sá að það hefur eitthvað breyst bara á undanförnum vikum/mánuðum? Í staðinn fyrir að „Jóa Jóns sé búin að tapa 10 kg og kemst í kjólinn” myndi ég vilja sjá fyrirsagnir eins og „Jóa Jóns er með betra úthald og getur nú labbað upp stiga”. Ég þoli ekki opinbera umræðu í fjölmiðlum um töpuð kíló því hún einblínir á eitthvað magnbundið, einhverja tölu sem segir svo lítið en ekki gæði vellíðunar.
Ég veit að það eru margir sem berjast við alls kyns púka og þ.m.t. fitupúka og ég er hreint ekki að gera lítið úr þeirri baráttu. Hún er fyrir mörgum AFAR erfið. Að létta sig vegna þess að heilsan er að bila er mikilvægt og það eru ótal leiðir til þess. Það hentar ekki öllum að vera sveigjanlegur í mataræði og það hentar ekki öllum að eiga ekki baðvog. Sumir þurfa að reikna upp á gramm hvað þeir borða og sumir telja hverja einustu hitaeiningu. Fyrir sumum er það það sem þarf til að bjarga lífinu og öðlast betri heilsu. Við erum öll ólík og höfum ólíkar þarfir. Ég skil það fullkomlega og það eru margir sem heyja sína baráttu með sjálfum sér. Sumir vinna, aðrir tapa. Það sem skiptir samt fyrst og fremst máli er að fólki líði vel innan í sér, að fötin passi vel, að öndunin sé góð, að líkaminn sé styrkur, að úthaldið sé gott, að göngutúrinn með fjölskyldunni orsaki ekki andnauð, að hjólatúrinn í vinnuna sé léttur, að amman eða afinn geti sinnt barnabarninu sínu án þess að fá hjartverk og að hnén bili ekki undan manni eftir útiveru með hundinn. ÞAÐ er merki um hreysti og vellíðan og þó allt þetta tengist kílóum (ef þau eru allt of mörg eru ofangreind dæmi orðin að vandamáli) þá er það ekki útlitið sem hér um ræðir heldur heilsan, hjartað, pípulögnin okkar, vöðvarnir, líkaminn okkar sem er í aðalhlutverki .
Mér finnst hreinlega ekki rétt að básúna þá staðreynd í fjölmiðlum að manneskja sem hefur einhver fáein aukakíló utan á sér, hafi tapað þeim og líti nú betur út. Það er ekkert að því að tapa þessum kílóum en heldur ekkert að því að hafa þau utan á sér líka (ef manni líður vel á annað borð og er hraustur). Það er þessi „Hún lítur mun betur út eftir að hafa tapað þeim og kemst nú í fína kjólinn” hugsunargangur sem fer í mig. Það er ekki tvennu að líkja saman að tapa x mörgum kílóum vegna þess að heilsan er að bila eða að tapa þeim til þess að komast í fínni kjól. Mér finnst líka alvarlegt mál að básúna það þegar fræga fólkið fer í eitthvað alls herjar átak og að birta fyrirsagnir þess efnis eins og það sé eina mikilvæga ástæðan fyrir því að þetta fræga fólk sé í fréttum. Það er svo mikið af ungu fólki að meta heiminn út frá okkur „þeim vitrari” og þetta eru ekki skilaboðin sem mér finnst rétt að varpa út. Mér finnst að það ætti að vera svona „útlitsvörn“ í boði á vefsíðum eins og það er „klámvörn“, svona sía...þannig að foreldrar geti verið vissir um að börn þeirra lesi ekki svona arfa.
Svo fyrir utan þetta þoli ég ekki þegar uppskriftir eru birtar eins og t.d. á fyrrnefndum vef og sagðar sykurlausar en innihalda samt hunang. Hunang er eitt form af sykri (bara eins og hrásykur eða agavesíróp en allt með mismunandi frúktósa/glúkósa samsetningu). Grrrrrrrrr.
Ok röfli dagsins lokið...þetta hlýtur að koma Nr. 2 af stað he he.
Kirsuber og perur
Nr. 2 hefur ekki látið sjá sig enn og er kominn 5 daga yfir áætlaðan útgáfudag. Ég var send í sónar fyrir nokkrum dögum því ljósmóðirin hélt að króginn væri búinn að snúa sér. Svo reyndist ekki vera heldur reyndist rassinn á honum standa svona út. „He has a bony bottom” sagði konan sem skannaði allt í bak og fyrir. Nú er hann bara að verða beikonhjúpaður þarna inni og gerir ekki annað en að safna á sig fitu. Hann vill líklega ekkert koma út þar sem ég er búin að vera dugleg að baka biscotti og smákökur til að eiga með kaffinu og fær bakkelsið beint í æð. Hann er eflaust hæstánægður með að vera frekar þarna heldur en að þurfa að mæta skessunni systur sinni sem hann hefur þurft að hlusta á síðustu mánuði.
Eins og flestir vita sem lesa þetta blogg er ég með þá allra ó-grænustu putta sem til eru. Það halda allir í kringum mig að ég sé svo myndarleg að rækta kryddjurtir í eldhúsglugganum, sé með matjurtargarð og hafi pottablóm í kringum mig. Ég kaupi kryddjurtir í búðinni, hef aldrei átt matjurtargarð (nema í skólagörðunum í gamla daga og var alltaf með ljótustu uppskeruna) og ég reyni ekki lengur að eiga pottablóm, þau drepast öll, alltaf, alveg sama hvað margar velviljaðar húsmæður (og húsfeður) með græna fingur gefa mér góð ráð varðandi lífgunartilraunir. Þetta er bara ekki „My Thing”. Ég er góð í mörgu en alls ekki í garðyrkju. Kannski breytist það einhvern tímann, vonandi. Mig langar að vera svona „Earth Mother” sem dundar sér í garðinum og er alltaf rauð í kinnum eftir útiveru. Veit ekki hvort það er raunhæf óskhyggja því ég hata mold á höndunum (sérstaklega þegar hún þornar og harðnar) og hata að verða kalt svo ég gef garðyrkju alltaf upp á bátinn. Við reyndum að setja rabarbara í garðinn einu sinni en hann dó (á rabarbari að geta dáið?).
Fyrir nokkrum vikum tók ég eftir því að trén í garðinum voru farin að blómstra í hlýjunni. Það er gaman að horfa á blómstrandi tré á vorin í Bretlandi. Þau verða svo ægilega falleg. Fáeinum vikum eftir þessa blómstrun fór að bera á einhverjum berjum á trjánum sem ég gaf ekki meiri gaum (því eitruð ber og óeitruð ber líta út eins fyrir mér). Ég steingleymdi að skoða þessi ber í langan, langan tíma og um daginn sagði Jóhannes: Ég held að við séum með kirsuberjatré í garðinum. Nei nei sagði ég...það getur varla verið. Svo gleymdi ég berjunum í langan, langan tíma. Fyrir nokkrum dögum síðan ákvað ég að skoða þessi blessuðu tré betur og viti menn, annað tréð ER kirsuberjatré en hitt er líklega perutré. Kirsuberin eru ekki rauð heldur gul og rauð (Rainier afbrigði eða eitthvað samkvæmt Google) og í dag var uppskeruhátíð. Ég fyllti heila skál af kirsuberjum sem við getum borðað næstu daga. Við höfum einu sinni átt plómutré og það var æði. Það rigndi plómum í nokkrar vikur og við borðuðum endalaust af þeim. Ég fyllist alltaf von og bjartsýni þegar eitthvað sem er nálægt mér dafnar og vex (og ég þurfti bara að horfa á það gerast, ekkert annað). Það að ég geti haldið lífi í litlum einstaklingi (og öðrum á leiðinni) verður að teljast kraftaverk. Ég man sem betur fer eftir að vökva Afkvæmið, gefa því næringu o.fl....
Hér fyrir neðan er smá myndasería af kirsuberjunum sem og peru sem er ekki orðin þroskuð.
Irish Moss tilraunir
Eins og ég lofaði þá ætlaði ég að láta ykkur vita hvernig tilraunir með Irish Moss hefðu gengið.
Irish Moss (Chondrus crispus/Carrageen Moss) er þörungur (ekki þang eins og ég hélt) sem vex við strendur Atlantshafs í Evrópu sem og í Norður Ameríku. Fyrir þá sem ekki vita vex Irish Moss (sem heitir á íslensku Fjörugrös) líka við strendur Íslands. Jóhannes mundi eftir að hafa séð þörunginn við hús ömmu sinnar sem lá við sjóinn. Ég leyfði mér að efast en hann hefur rétt fyrir sér. Hér er komin aldeilis fín viðskiptahugmynd fyrir sniðuga því þetta er hráefni sem hefur fáránlega marga möguleika (sérstaklega í matargerð). Irish Moss er mjúkt viðkomu, eins og blautt fjallagras. Það er breytilegt í lit, allt frá græn-gulum, í rautt upp í dökk fjólubláan. Plantan er um 10% prótein og um 15% steinefni (aðallega joð og súlfúr). Þegar það er lagt í bleyti og verkað (blandað í matvinnsluvél eða soðið) breytist það í gel og eykst þyngdin þá 20-100 falt.
Myndin hér að ofan sýnir Irish Moss eins og það kemur „beint af kúnni”, mjög salt, mikil sjávarlykt af því og meira að segja eitthvað blátt plast flækt í þörunginn.
En hvers vegna í ósköpunum er ég að velta fyrir mér Irish Moss? Jú, ég er búin að sjá þetta merkilega hráefni í mörgum hráfæðisbókum (sérstaklega í eftirréttum) sem ég á og forvitni mín var að sjálfsögðu vakin. Jóhannes er svo óskaplega tilraunaglaður fyrir mína hönd (og elskar eftirrétti) svo þegar hann fór til California í vinnuferð greip hann mér sér poka af Irish Moss. Hann fór nefnilega á nokkra hráfæðisstaði (við mikla öfund mína) og af því hann er svo hrifinn af hráfæði almennt (sérstaklega eftirréttunum) þá vildi hann endilega að ég prófaði…sem ég samþykkti auðvitað.
Ég er búin að eiga pokann í 6 mánuði svo ég var ekki viss um að þörungarnir væru ok. Ég skolaði þá örugglega 100 sinnum eða þangað til allur sandur og óhreinindi voru á bak og burt og mesta sjávarlyktin var farin. Það tók heilmikinn tíma að skola hráefnið eða svipað því þegar maður skolar sterkjuna af sushi hrísgrjónum, það virðist aldrei ætla að verða búið.
Eftir skolun var komið að því að leggja Irish Moss í bleyti og það var nú ekki flókið, bara skál með vatni og inn í ísskáp. Ég skipti svo um vatn nokkrum sinnum yfir sólarhringinn. Eftir þessa meðferð var afurðin aðeins bólgnari og ljósari, dröppuð að lit og með örlítinn sjávarilm sem ég var hrædd um að myndi smokra sér í gegn um annað hráefni (þær áhyggjur voru ástæðulausar). Ég á ekki mynd af þessu stigi.
Nú var komið að því að setja Irish Moss í blandara og af því ég á Vitamix (ofurblandara) þá reyndist ekki mikið mál að blanda það. Ásamt Irish Moss fór vatn og svo var blandað þangað til sólin settist eða svo gott sem. Það þarf nefnilega að blanda í nokkrar mínútur, stoppa vélina, skafa skálina að innan, láta vélina kólna alveg og halda áfram. Þannig nær maður bestum árangri. Maður veit að Irish Moss maukið er tilbúið þegar engin korn finnast á milli fingranna þegar maður nuddar þeim saman.
Þessu hellti ég í skál og setti inn í ísskáp. Mér skilst að Irish Moss eigi að stífna á einhverjum klukkustundum en á öðrum degi var það enn þá eins og illa hrærður Royal búðingur. Ég ætlaði að láta hann eiga sig og svo fleygja honum bara síðar. Ég er glöð að ég gerði það ekki því á þriðja degi varð gelið svona líka stíft (eins og mjúkt silicon) og þannig að maður getur haldið ílátinu á hvolf án þess að hellist úr. Það gæti verið af því hann er orðinn þetta gamall að hann taki bara lengri tíma að soga í sig vökvann.
Myndin hér að ofan sýnir Irish Moss eins og það lítur út eftir að búið er að blanda það í blandara og láta það standa í ísskáp í nokkra daga. Það verður stíft eins og mjúkt gúmmí.
Ég var búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera úr Irish Moss gelinu, súkkulaðibúðing sem var uppskrift úr nokkrum sem ég hafði fundið hér og þar og var búin að púsla saman eftir mínu höfði. Áferðin var fádæma góð, létt og loftkennd, alveg eins og silkimjúkur búðingur. Jóhannes var algjörlega í skýjunum. Það var ég reyndar líka.
Stífur og fallegur búðingur og afar bragðgóður
Hér sést vel hversu stífur búðingurinn er, hann haggast ekki þó maður setji glasið á hvolf.
Það voru góðu fréttirnar. Slæmu fréttirnar voru þær að ég fékk ægilega magakrampa sama dag og ég borðaði búðinginn. Og svo var bara spretthlaup á dolluna. Maginn sagði þvert nei við Irish Moss. Ég hélt að um tilviljun væri að ræða og prófaði aftur um viku síðar (orðin mjög góð í maganum) en almáttugur, lætin og loftið…..búðingurinn fór eiginlega óunninn í dolluna, út um hinn endann. Ég hafði ekki lesið mér til um eiginleika Irish Moss en hann hefur sem sagt „aukaverkanir”!!!! Hann getur orsakað lágan blóðþrýsting, magakrampa, niðurgang og getur haft áhrif á upptöku lyfja í blóðinu. Óléttum konum og þeim sem eru með börn á brjósti er einnig bent á að neyta ekki Irish Moss. Ungbörn skulu heldur ekki neyta þess þar sem það getur veikt ónæmiskerfið. Þetta kom mér mjög á óvart því fólk í hráfæðisheiminum hefur hampað Irish Moss út í eitt og hef ekki séð talað um þessar aukaverkanir (ekki svo ég hafi tekið eftir) og hvergi er minnst á þær í bókum. Þetta eru þó líklega bara „fyrstu” áhrif því ég hef ekki fundið fyrir þessu síðan eftir þessi tvö skipti.
En allavega, það var mjög gaman að prófa og ég hugsa að ég geri fleiri tilraunir síðar (þegar ég veit að ég verð nálægt salarni næstu daga á eftir og ekki með „aukafarþega”). Jóhannes var allavega ægilega glaður með að hafa dröslað pokanum með sér frá Bandaríkjunum og bíður spenntur eftir fleiri tilraunum. Hann fékk engar aukaverkanir og borðaði heilan helling af búðingi.
Hér má lesa nánar um Irish Moss
Hér má t.d. kaupa Irish Moss á netinu 
Hermès Birkin taskan
Ég sá um daginn, í fyrsta skipti á ævinni „live“ Hermès Birkin tösku. Sagan í stuttu máli, segir að Jean-Louis Dumas, yfirstrumpur Hermès samsteypunnar hafi verið í flugi með Jane Birkin (leikkonu og söngkonu, þeirri sem var vinkona Serge Gainsbourg og stundi lostafull Je t'aime... í laginu hérna um árið). Hún átti að hafa reynt að troða handtösku sinni í farangurshólfið fyrir ofan sætið og allt hrundi út. Dumas ákvað að hanna tösku fyrir konuna og restina þekkjum við í formi Hermès Birkin töskunnar.
Nú er ég ekki manneskja sem fylgir tísku. Ég á eiginlega bara eina hvers dags yfirhöfn sem er upplituð á öxlunum, bráðnuð í faldinum (stóð of nálægt hitaofni í einhverju kuldakastinu) og með rifnu fóðri. Jóhannes segir að ef ég kaupi mér ekki nýja flík bráðum ætli hann ekki að fara með mér út á meðal fólks mikið lengur. Vandamálið er að mér leiðist að fara í fatabúðir meira en nokkuð annað í lífinu. Ég keypti flíkina árið 2003 fyrir fyrsta launaseðilinn minn hérna úti. Yfirhöfnin kostaði 30 pund og ég var miður mín yfir verðinu. Sömu sögu er að segja af Jóhannesi sem gengur um í stuttbuxum þegar vel viðrar, sem hann keypti árið 2001. Hann hafði á þeim tíma áhyggjur af því að vera að eyða um efni fram (vorum blönk og í námi). Stuttbuxurnar kostuðu 10 pund. Þetta erum við í hnotskurn. Við förum aldrei í fatabúðir (það sést) og allt of sjaldan í skóbúðir (það sést). Ok við erum svo sem ekki tötraleg en tískufyrirbæri höfum við aldrei verið né verðum nokkurn tímann. Ef okkur áskotnast peningur (umfram laun t.d.) er honum lagt til hliðar í þessari röð: Til mögru áranna I, Í sófasjóð (sem er eiginlega ferðasjóður því við höfum aldrei keypt nýjan sófa), Í heimsreisusjóð (eigum nú fyrir ferð fram og til baka til Færeyja um það bil), Í sjóð fyrir Afkvæmin, Til mögru áranna II, og að lokum Til eyðslu (þ.m.t. föt). Auka peningurinn endar þó aldrei lengra í röðinni en Í sjóði fyrir Afkvæmin. Enda er kannski góð menntun Afkvæmanna mikilvægari en nýjasta Karen Millen dragtin eða nýjustu svona eða hinsegin skórnir. Allur minn auka peningur fer líka í að kaupa hráefni fyrir tilraunastarfsemi í eldhúsinu. En fólk hefur mismunandi forgang í lífinu og konan sem ég sá á Starbucks í síðustu viku hefur líklega annan forgang en við hin eða hefur ráð á því að líta svona út OG þurfa ekki að leggja til hliðar til mögru áranna.
Ég hef aldrei séð konu sem gæti flokkast jafn vel sem impeccably polished (óaðfinnanlega fáguð) eins og þessi kona. Snyrtu neglurnar með frönsku naglaendunum voru fullkomnar, glansandi og ljósa hárið fagmannlega blásið (og líka að aftan, ekki bara að framan) og líklega var þetta svona brasilískur langtímablástur eins og er svo vinsæll hjá fræga fólkinu (hárið er blásið einu sinni í mánuði eða álíka). Dökka dragtin var algjörlega án krumpu, silfurlita silkiblússan var glansandi og án hnökra eða tildreginna þráða og háhæluðu skórnir voru óslitnir og engin beygla í leðrinu, ekki einu sinni þar sem táin mætir ristinni. Konan var hávaxin og grönn og hvergi var hrukku að sjá í vel förðuðu andlitinu. Skartgripirnir voru látlausir en virkuðu dýrir (sá sem á Hermès tösku og er með fíngerða skartgripi, er ekki með ódýra skartgripi). Það fór ekki mikið fyrir henni en samt tóku allir eftir henni. Ólíkt söngkonunni Beoynce sem strunsaði fram hjá okkur í Hyde Park fyrir 2 árum í gullskóm með 10 sm hælum og með gulltösku sem glitraði svo mikið að hún meiddi augun þó hún væri hinu megin við Serpentine pollinn í garðinum. Hún var líka með um 10 manns með sér í halarófu (alls kyns öryggisverðir o.fl.). Hún var um 2 metra fyrir framan okkur á tímapunkti og af henni skein ríkidæmi en af öðrum meiði en af þessarri konu. Þessi kona var svona hljóðlega rík (silently wealthy) og svoleiðis fólk er alltaf dálítið áhugavert á sinn hátt (þó að þeir sem séu minna efnaðir séu það líka....auðvitað).
En já Hermès taskan. Ódýrasta eintak af Hermès tösku kostar rúm 4000 pund (tæpar 800.000 krónur) og það er 2ja ára (og oft lengri) biðlisti eftir hverri tösku. Victoria Beckham á margar Hermès töskur og er sögð eiga safn upp á 190 milljónir króna. Dýrasta Hermès Birkin taskan ku vera upp á 80.000 pund eða um 14 milljónir króna). Frú Beckham á nokkrar svoleiðis. Taska fínu konunnar á Starbucks var í sama lit og skórnir hennar, ljósgrágræn með gylltum tón.
Ég er ekki með á hreinu hvers vegna töskurnar eru svona dýrar. Þær eru víst handsaumaðar af einhverjum frönskum saumasnillingum og úr krókódílaskinni (og bara hægt að nota krókódílarassana eða álíka) en þeir hljóta samt að vera fóðraðir á gulli. Ég er ekki snobbuð fyrir merkjum (ég á engin) og ekki upptekin af því sem aðrir ganga í (ég fylgist ekki með) en mér þykir alltaf jafn merkilegt þegar fólk á SVONA marga peninga. Svona eins og þegar fólk keyrir um í Bentley eða Maserati. Ég reyni alltaf að gjóa augunum laumulega inn fyrir bílrúðurnar bara til að fá 1 sekúndu innlit í líf þessa fólks sem á SVO marga peninga. Ég er ekkert öfundssjúk eða svoleiðis, mér finnst þetta bara svo áhugavert, ég verð svo forvitin og fer að ímynda mér líf fólksins.
Það fór svona smá hrollur um mig þegar ég áttaði mig á því að líklega myndi ég aldrei komast nær alvöru Hermès tösku á ævinni heldur en akkúrat þarna á Starbucks. As good as it gets eða þannig. Ekki það að mig langi í Hermès tösku...ég myndi frekar vilja kosta menntun eða heilsugæslu 1000 fátækra barna í þróunarlandi...en maður getur bara ekki slitið augunum af alvöru Hermès Birkin tösku. Þær eru voðalega fallegar og handbragðið sérlega fínt (enda má það líka vera fínt fyrir þessa upphæð). Ég ætla samt að halda áfram að láta mér nægja 5 punda taskan sem ég keypti af götusala á Tottenham Court Road. Hún geymir veskið mitt, kex fyrir Afkvæmið, húslykla, neyðarorku (ef blóðsykurinn fellur), Ipod og eitthvað fleira. Hún gerir sem sagt sama gagn og Hermès Birkin taskan en er um 799 þúsund krónum ódýrari.
(Myndin er af vef Wikipedia).