Bloggið

Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Kaffeine

Kaffeine séð að utan

Kaffeine að innan

Við fengum ábendingu/áskorun um daginn um að gaman væri að fá að heyra um hvaða kaffihús við sækjum mest hérna í London og hvernig þessi kaffihús eru. Af nógu er að taka! Ég ákvað að fá meistarann til liðs við mig, Jóhannes (eiginmanninn), kaffidómara og kaffispeking. Hann verður gestabloggari næstu sunnudaga. Ég gef honum orðið:

Sigrún hefur minnst á það hér á blogginu sínu að það var ekki eitt einasta kaffihús í snobbhverfinu Wimbledon Village með almennilegt espresso og að hérna í Bloomsbury, þar sem við búum núna sé alveg aragrúi af kaffihúsum sem maður getur valið um.&; Í framhaldi af því bað vinkona okkar, Sigrún Þöll, Sigrúnu um að koma með smá útlistun á þessum kaffihúsum svo að þeir sem eigi ferð um London geti fundið sér gott kaffi, ekki bara eitthvað sull eins og þessar stóru kaffikeðjur bjóða upp á.&;

Þar sem Sigrún drekkur ekki espresso sjálf og ég verð víst að viðurkenna að ég er bæði algjör snobbhæna þegar kemur að kaffi og líka mjög mikill espresso nörd (ég á&; t.d. svolítið erfitt með að viðurkenna það að konan mín fari á Starbucks), þá bað hún mig um að vera „gestabloggari” á CafeSigrun og skrifa aðeins um þessi kaffihús. Ég ætla að skrifa um hvert kaffihús fyrir sig svo þetta verða nokkrar færslur sem koma næstu vikur.

Áður en ég byrja á að tala um kaffihúsin þá vil ég aðeins tala um hvað það er sem ég flokka sem almennilegan espresso, svo fólk átti sig á hvaða viðmið ég er að nota. Það eru margir þættir sem spila inn í þegar verið er að búa til espresso. Þrýstingurinn á gufunni þarf að vera réttur, kaffið þarf að vera rétt malað, gufan sem þrýst er í gegnum kaffið má ekki vera of mikil (einfaldur espresso á að vera um 25-30ml., það alveg sýður á mér þegar ég fæ hálft baðkar af svörtu gutli þegar ég panta espresso) né má hún vera of lítil. Það á svo að taka milli 25-30 sekúndur fyrir espressoin að leka í bollann. Það er líka merkilegt þegar kemur að espresso gerð að þar sem kaffi er ferskvara þá er alveg óvíst að það sem virkaði vel í espressovélinni í gær virki vel í dag. Það sem getur spilaði inn í er t.d. loftþrýstingurinn og rakinn í loftinu. Þessir þættir spila svo með því hvernig gufan fer í gegnum malaða kaffið og því þarf maður oft að breyta stillingum á malaranum dag frá degi (og stundum oft á dag). Þessi kaffihús sem eru virkilega að hugsa um þessi mál byrja daginn alltaf á því að stilla allar græjurnar áður en þau fara að selja fólki kaffi. Eins er líka mikill munur á hvaða mölun hentar hvaða kaffi og líka hvaða brennslu, þ.e. ef sama kaffi er brennt með mismunandi hætti þarf í flestum tilfellum mismunandi stillingar á malaranum.

Allt þetta gerir það að verkum að ég held því statt og stöðugt fram að það að laga espresso sé listgrein!

Hvað um það, við skulum snúa okkur að fyrsta kaffihúsinu, Kaffeine.

Kaffeine
66 Great Titchfield Street, Fitzrovia [kort sem sýnir staðsetningu Kaffeine]

Nálægasta Tube: Oxford Circus

Þetta kaffihús er ekki stórt og ekki mjög fansí, húsnæðið er frekar hrátt en á jákvæðan hátt. Það er aftur á móti eitt af mínum 3 mest-uppáhalds kaffihúsum í London. Það geta um 25-30 manns setið þarna en það eru ekki stök borð heldur bekkir/kubbar sem fólk situr við og á. Stemmningin þarna er alltaf mjög afslöppuð og þægileg, mest megnis fólk sem býr í hverfinu eða fólk í hönnunar/listageiranum sem vinnur í nágreninu. Maður sér ekki oft túrista, bankastráka eða hnakka/skinkur. Þetta er mjög svipaður hópur og er t.d. á Kaffismiðjunni heima (annað frábært kaffihús).

Kaffeine notar kaffi frá Square Mile kaffibrennslunni og það eitt segir manni að þau hugsa um gæði kaffisins en ekki verðið (Square Mile er alveg efni í sér póst, kannski ég setji hann saman einhvern daginn).

Fyrir utan það að vera með afburða gott kaffi (sem þýðir líka afburða góða kaffibarþjóna) þá eru þeir líka með mjög gott „með’í” bæði mat og svo sætabrauð. Ég mæli hiklaust með heimsókn á Kaffeine ef þið eruð á ferðinni í miðborginni. Fyrir þá sem kannast við sig í London er kaffihúsið stutt labb af Oxford Street, beygt upp nálægt Urban Outfitters.

Afsakið myndgæðin, myndin að innan er svolítið hreyfð!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Banksy

Banksy í hverfinu

Það er alltaf gaman að rekast á Banksy verk, sérstaklega í hverfinu! Myndin er tekin rétt hjá BT Tower í Fitzrovia.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Mamma gúsa róna!!!!

Ég er alltaf að flýta mér. Alltaf, alltaf, alltaf. Ég kom 5 vikum fyrir tímann í heiminn því ég var að flýta mér svo mikið. Ég stoppa sjaldan og Jóhannes segir stundum að ég sé eins og kólíbrífugl eða fiðrildi. Hann segir reglulega við mig: „hraði drepur” og svo dæsir hann þungan því hann verður þreyttur á að horfa á mig hreyfa mig. Það getur haft sína kosti. Maður kemur t.d. miklu í verk á stuttum tíma. Til dæmis getur maður sett í þvottavél, talað í síma og gefið Afkvæminu að borða, allt á sama tíma (svona eins og flestar konur og örugglega karlar líka). Á góðum degi gæti ég líka hent í muffinsa í leiðinni. Með Nr. 2 er enn meiri ástæða til að flýta sér. Koma þvotti í vélina, útbúa mat fyrir Afkvæmið, tæma uppþvottavélina, fara í búðina, þerra tár og rassa o.s.frv., o.sfrv. Ókosturinn er t.d. sá að ég er alltaf að brjóta glös, diska o.fl. drasl því hamagangurinn er oft mikill.

Á hverjum degi sæki ég Afkvæmið á leikskólann. Þetta eru ekki nema 5 mínútur sem maður labbar þaðan og heim. Leikskólinn sjálfur er staðsettur við lítinn leikgarð sem gerður var fyrir 8-12 ára börn og er mjög flottur. Þangað fara börnin reglulega út að leika en garðurinn er sambyggður leikskólanum. Börnin eru úti allan daginn, alla daga sem er hið besta mál. Á leið okkar fram hjá leikgarðinum hefur Afkvæmið spurt mig 100 sinnum...Róna? Róna? Róna núna? (Róna=Róla). Eitt leiktækið (þau eru öll mjög spes, úr við, köðlum, keðjum og voða náttúrulega og falleg) er hengirúm sem gert er úr köðlum þannig að það gætu legið tveir á því. Ég er alltaf að flýta mér og segi því yfirleitt „Ekki núna, kannski á morgun“. Einn daginn var ég fyrr á ferð en venjulega og ég vissi að Nr. 2 var í góðum höndum heima. Afkvæmið kyssti fóstruna bless og smeygði litla, þybbna lófanum í minn. „Róna? Róna?“ spurði dóttirin með von í röddinni. Ég vaaaaaaaar að fara að segja „Ekki núna, kannski á morgun“ en hikaði. Ég ákvað að gefa mér nokkrar mínútur. Afkvæmið leiddi mig um allan garðinn og við skoðuðum maura, laufblöð, steina og blóm. Hún leiddi mig svo að hengirúminu og við settumst á það báðar. Við róluðum dágóða stund og rauluðum lagstúf með. Ég horfði út undan mér og sá að dóttirin var brosandi út að eyrum. Hún horfði í augun á mér með þessum ljómandi, ólífugrænum augum og sagði „mamma gúsa róna!!!“ (knúsa mömmu í rólunni) og gaf mömmu sinni þétt faðmlag (eins fast og tæplega tveggja ára skott getur kreist). Bara fyrir það að hafa sest með henni niður að gera það sem er skemmtilegast í heimi fyrir tveggja ára....skoða heiminn og róla. Í 5 mínútur. Ég hef ekki alltaf tíma til að staldra við en ég geri það þegar ég mögulega get. Þvotturinn getur beðið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Allt að verða vitlaust

Það er allt að verða vitlaust í London. Eða svoleiðis. Við reyndar finnum ekki fyrir miklu en allt í kringum okkar logar allt í rugli. Ég sá óeirðarbíl frá lögreglunni efst á Tottenham Court Road í dag, nálægt þeim stað sem við búum á og ég taldi 20 manna lögreglulið á leið minni í dag. Yfirleitt sé ég kannski einn á vappi. Mér skilst að þeir hafi búist við einhverjum látum með kvöldinu því þessi gata er jú þekkt fyrir tölvur og tæki hvers kyns en ég held að það hafi ekki verið nein læti. A.m.k. hef ég ekki heyrt neitt nema öðru hvoru í þyrlum og sírenum. En það er eiginlega daglegt brauð svo það er ekkert óvenjulegt.

Ástandið var afar slæmt í mörgum „verri hverfum” London, þannig að maður varð virkilega glaður að búa hér í friðsældinni í Bloomsbury, uppi á 4. hæð með læst járnhlið fyrir framan húsið. Hér líður okkur vel og við erum örugg. Mér finnst merkilega lítið fjallað um alvarleika málsins í fjölmiðlum heima...þar hefur fólk meiri áhyggjur af rassinum á Kim Kardashian. Það er ekki fyrr en núna að einhver umfjöllun virðist vera komin af stað.

Ég er bara svo glöð að tilheyra ekki samfélögum þeim sem ala upp þessa hegðun og þetta 'mentalitet' í ungviði sínu. Ég skil ekki svona hegðun, þessa múgsefjun og þessa lögleysu. Undir niðri kraumar heift, andúð og skelfileg öfundssýki. En kommon...að brjóta niður glugga og stela hvítum strigaskóm? Ekki til að klæða sprungna fætur barnsins þíns sem hefur aldrei átt skó. Nei, ó nei. Ákveðin merki voru sigtuð út og meira að segja voru skór mátaðir í búðinni. Glingri, flatskjám, hettupeysum, ipodum, ipadum, úrum......segir það ekki svolítið. Þetta fólk er ekki að stela mat sér til lífsbjargar, né vatni. Það er að stela efnislegum hlutum sem skipta engu máli, bara af því „það fær tækifæri til". Það er virkilega mikið að í samfélagi sem lætur svona. Mikið af þessu liði eru krakkar sem hafa ekkert að gera. Mikið af þessu liði er líka fólk á atvinnuleysisbótum (en tilheyrir ekki þeim hópi sem er að reyna), ólöglegir innflytjendur, tækifærissinnar, ofbeldisseggir, auðnuleysingjar og aumingjar. Samfélagsmein. Þetta er ekki fólk sem skilar einu né neinu til samfélagsins. Þetta er fólk sem heldur að það eigi rétt á betra lífi án þess að þurfa að vinna fyrir því (við hin þurfum að borga brúsann) og heldur að lífið verði betra með því að stela hvítum strigaskóm, joggingpeysu og stórum eyrnalokkum. These people make me sick.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Að horfa upp

Í ys og þys daganna hér í London gleymir maður stundum að líta upp, en ef maður gerir það er margt sem getur komið á óvart eins og myndirnar tvær hér að neðan sýna....

Húsið með konunni

Konan í glugganum

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Vantra (spennandi grænmetisstaður í London)

Ég prófaði í dag Vantra, sem ég hef ætlað að prófa í þúsund ár. Eða síðan ég flutti til London. Síðan eru jú liðin þúsund ár. Fyrst var hann í um 20 fm húsnæði og ég labbaði fram hjá honum svo til á hverjum degi. Í hvert skipti hugsaði ég…jæja verð að fara prófa þennan. Svo á síðasta ári tók ég eftir því að staðurinn hafði flutt sig um set og er kominn í stórt húsnæði, rétt hjá Soho Square, við hliðina á Govindas. Govindas er grænmetisstaðurinn sem Hari Krishna fylgjendur reka. Ég er ekki fylgjandi en mér finnst gott að borða þar og maturinn er ódýr. Vantra, staðurinn sem ég prófaði svo í dag er nánast við hliðina á og ég hitti Maríu vinkonu mína yfir smoothie með hnetumjólk, mangoi og kakói. Ég fékk mér líka súkkulaðimuffins og trufflur. Namm. Þeir nota engan hvítan sykur og eru með ansi skemmtilegar samsetningar af drykkjum. Þeir eru líka með girnilegan mat. Allur maturinn er vegan (fyrir jurtaætur) og mikið af hráfæðisréttum. Ef þið viljið borða CafeSigrun vænan mat og eruð stödd í London mæli ég með Vantra…hann er heldur ekki túristapleis sem er alltaf kostur.

Govindas, Hari Krishna staðurinn

Govindas, Hari Krishna staðurinn

Vantra að utan

Vantra, staðurinn sem ég prófaði loksins

Vantra og afgreiðsluborðið

Vantra, að innan

Vantra að innan

Meira að innan

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Stigamaðurinn

Ég var að labba út úr dyrum heima um daginn þegar ég sá út undan mér mann í stiga....nema maðurinn var ekki með hjálm, engar hlífar, engin bönd, ekki neitt (ég gáði þegar ég var komin út). Stiginn er sá lengsti sem ég hef séð. Það rétt sést glitta í gaurinn þarna efst....

Maður þarf að vera sæmilega crazy til að stunda þessa atvinnu...án öryggisbúnaðar. Ég sver það að mig svimaði bara við að horfa á hann.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sagan af heilsugæslunni

Ég þoli ekki breskt heilbrigðiskerfi....það er stirðara og þrjóskara en aldraður fíll. Ef maður ætlar að spyrja um t.d. útbrot á líkama hefur maður 10 mínútur (og ég hef séð lækni stilla klukku í tölvunni til að vera viss um að fara ekki fram yfir tilsettan tíma). Ef hins vegar maður er t.d. með útbrot OG verk í hnénu verður maður að panta annan tíma til að ræða verkinn í hnénu. Þetta er dagsatt. Læknar hafa a.m.k. tvisvar NEITAÐ að svara einföldum spurningum um afkvæmið (hósti, niðurgangur og eitthvað svoleiðis) og bentu mér á að panta annan tíma. Málið er nefnilega að þeim mun fleiri sjúklinga sem þeir afgreiða, þeim mun hærri laun fá þeir. Þetta á við NHS, almenna heilbrigðiskerfið sem virkar illa enda 100% ókeypis.

Ég fór til að skrá mig á heilsugæsluna í morgun. Þeirri sömu og ég hef verið hjá síðan 2005. Ég hélt ég þyrfti bara að henda inn umsóknarforminu útfylltu og þar með væri það afgreitt. NHS hafði aðrar hugmyndir. Það er eitthvað sérstaklega erfitt við að starfa í móttökunni á breskum heilsugæslum því ef maður skoðar umsagnir um heilsugæslurnar þá virðist fólk HATA fólkið í afgreiðslunum og starfsmenn virðast HATA sjúklingana á móti. Þessi heilsugæsla er lúin, á 4 hæðum með slitið teppi og það brakar í gólfunum. Sjónvarpið í móttökunni er alltaf bilað, stólarnir götóttir og afgreiðslukonurnar með of mikinn augnblýant, með of stóra eyrnarlokka og í joggingfötum. Svona var samtal mitt við afgreiðslukonurnar.

Sigrún: Já ég er að skila inn umsókn um skráningu.
Heilsugæslan: Já þú þarft að skrá þig til þess.
S:
Ég er að skila inn skráningarforminu, á því er NHS númerið og upplýsingar um hvar ég var síðast skráð.
H:
Þú þarft að panta tíma til að skrá þig í health check (10 mínútna skoðun, blóðþrýstingur mældur o.fl.).
S: En ég hef verið skráð hér síðan 2005?
H: Ekki síðan janúar 2011.
S: Ég flutti frá svæðinu í nokkra mánuði en var á annarri heilsugæslu, er ekki nóg að fá gögnin þaðan?
H: Nei þú þarft að skrá þig hér.
S: Þó að læknir þar hafi gert health check? Og ég hafi verið við fullkomna heilsu (og við bæði)?
H: Skiptir engu máli.
S: Það er mjög erfitt fyrir okkur hjónin að komast til að skrá okkur, við erum með nýfætt barn og í vinnu o.fl.
H: Það er mikilvægt að læknirinn viti að þið séuð hraust.
S: Læknirinn þar sem við bjuggum síðan í síðasta mánuði getur staðfest það með nýlegum athugunum.
H: Skiptir engu máli.
S: Ég get komið með pappíra upp á að ég hafi fætt barn heima og að blóðþrýstingur hafi verið kominn í eðlilegt horf innan 10 mínútna frá fæðingu. Segir það ekki eitthvað um heilsufar?
H: Þið verðið að skrá ykkur.
S: Svo, ef ég þarf að fara til læknis, þarf ég þá að panta tíma til að skrá mig, áður en ég panta tíma hjá lækni?
H: Errrrrm, já.
S: En ef læknum er svona umhugað um heilsu okkar, þá ættu þeir að hafa í huga að ef við komumst ekki til að skrá okkur (til að geta pantað tíma seinna), gætum við orðið veik og ekki komist til læknis því við verðum jú ekki skráð?
[Konurnar ræða sín á milli (þær sitja hlið við hlið, 10 sm á milli þeirra), eldri konan [sem leiðir greinilega hópinn í þykkt augnblýants-strikanna] horfir á þá yngri og segir „Þau verða að panta tíma til að skrá sig“].
[Sú yngri horfir á mig]. Þið verðið að skrá ykkur. [Svo dæsir hún við þá eldri og segir pirruð: „Þetta er örugglega erfiðasta keisið sem ég hef fengið hingað inn, jeeeez“].

Ég ÞOLI ekki breskar heilsugæslur né breska banka (sem taka enn 3 daga í að millifæra á milli reikninga fólks, í netbanka....það eru allir möguleikar fyrir hendi til að millifæra hraðar en þeir halda eftir gróðanum af vöxtunum sem upp safnast). Ef ég yrði mikið veik, myndi ég sennilega flytja með hraði til Íslands því ég myndi drepast hér á innan við viku. Ok það er margt sem vel er gert en það er yfirleitt svo í einkageiranum. Það er ekkert mál að fara í aðgerðir í einkageiranum en ég beið eitt sinn í 9 mánuði eftir MRI skanni (sem tók 2 daga á Íslandi). Það hefði tekið viku í einkageiranum. Samkvæmt ráðleggingum ljósmóður minnar fæddi ég Nr. 2 heima í stofu frekar en á spítala...svo mikla trú hafði hún á spítalanum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Komin í faðm Bloomsbury

Er lífs (ekki liðin) og ekki búin að gleyma ykkur. Það er eins og innbúið okkar (sem ég SVER að jókst um 20 kassa í flutningabílnum) hafi ælt í stofunni.

Við erum ánægð í íbúðinni, hún er rúmgóð og björt og ég er viss um að ég fer að sjá í gólfið bráðum. Það ættu að vera reglur um eignarhald á drasli....maður ætti bara að mega eiga 5 kassa, ekki meir (nema 2 aukakassa fyrir uppskriftabækur....og fyrir skálar og svoleiðis fyrir myndatökur.......) ok 10 kassa. Eða kannski aðeins fleiri kassa fyrir nestisboxin og muffinsformin. Ok 15 kassa....þið sjáið hvert þetta stefnir.

Það eru kaffihús á hverju götuhorni (í Jóhannesar gæðaflokki, nánar um kaffihúsin síðar) og ég er 3 mínútur að labba í Planet Organic sem er næst-uppáhalds heilsubúðin mín....

Ég er með góðan bakstursofn (líklega aldrei verið notaður) og 12 manna+ uppþvottavél sem ég er eiginlega 2 vikur að fylla (þetta myndi flokkast undir lúxusvandamál).

Það er gott að vera komin í hverfið okkar aftur :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hvernig bananamuffins getur bjargað lífi manns þegar síst skyldi ætla

Í gær munaði 10 metrum að ég yrði fyrir eldingu og þar með líklega hefði saga mín verið öll eða að minnsta kosti hefði ég verið mjög „well done”.

Ég var á ferð með Afkvæminu í næsta bæjarfélagi, Merton. Ég þurfti að ná í fæðingarvottorð fyrir Nr.2. Himininn var svartur því rigningin hékk yfir. Alls staðar í kring heyrði ég þrumur og öðru hverju sá ég glitta í eldingu. Ef ég lokaði augunum leið mér eins og mér leið í Rwanda á sínum tíma þar sem stanslausar þrumur og eldingar gera andrúmsloftið áþreifanlegt. Loftið var svo þykkt að maður gat tuggið það, golan var svöl en samt ekki nóg til að fötin hættu að klístrast við mann í rakanum. Loftið var rafmagnað, þannig að maður fann fyrir því, svona óþægilega rafmagnað. Fólk er eins og á nálum (kannski meira í Rwanda heldur en í Merton), horfir áhyggjufullt upp í himininn og flýtir för sinni. Ég villtist auðvitað aðeins og þurfti að spyrja til vegar. Maðurinn sem ég gekk upp að horfði tómlega á mig og yppti öxlum. Það vantaði held ég nokkra kafla upp á heila bók hjá honum. Ég var engu nær en hélt áfram og rambaði loks á afskaplega fallegt, friðað hús (sem notað er í hjúskaparvígslur o.fl., svokallað Register Office. Þar skráir maður dauðsföll og fæðingar líka). Húsið var umlukið trjám og fallegum gróðri. Alls staðar mátti sjá glitrandi confetti, leifar af fyrri hjónavígslum. Á leikvellinum fyrir framan bygginguna voru ryðgaðar rólur sem sveifluðust fram og til baka, tóm buslilaug (nema full af laufblöðum) og vegasalt sem á vantaði sæti.Ég hef sjaldan séð jafn dimman himinn eins og hékk yfir okkur....það voru nokkrar sekúndur í að hann myndi springa og flæða yfir okkur með rigningu. Það fór hrollur niður eftir bakinu þegar ég fann fyrsta dropann.

Við vorum alveg að vera komin að byggingunni þegar ég mundi eftir að hafa lofað að gefa Afkvæminu bananamuffins og hún var byrjuð að minna mig á (hún gleymir því ekki svo glatt eins og þeir sem hafa verið í kringum hana hafa upplifað). Ég hafði útbúið heilan helling af banamuffinsunum hennar (einungis með bönunum, spelti, eggjum og kanil) til að frysta og eiga (þeir eru fullkomið nesti í kerruna). Hún elskar þá og það er algjört trít að fá einn til að maula á. Ég beygði mig niður og var í góðar 10 sekúndur að veiða muffinsinn upp úr boxinu sem var ofan í pokanum. Ég hélt svo af stað aftur og á sama augnabliki og ég var að fara að stíga inn í bygginguna bókstaflega sprakk himininn og ljósið varð svo skært að ég sá ekki handa minna skil. Í sama vetfangi heyrði ég hvell sem var svo hár að mér datt fyrst í hug sprengja. Það sem gerðist var að eldingu laust niður í 100 ára gamalt tré sem stóð fyrir utan húsið. Ég var 10 metrum frá trénu og þegar eldingin sprengdi tréð í svarta, rjúkandi tannstöngla fann ég og sá hvernig hárin risu á höfðum okkar beggja. Ég var algjörlega orðlaus úr sjokki. Tréð sem var tugi metra að hæð var nú svartur stubbur og allt í kring voru leifar af þessu fallega tré. Ég þusti inn þar sem starfsfólkið var í enn meira sjokki en ég. Ég hafði ekki einu sinni rænu á að taka mynd af trénu með símanum og var svo bannað að fara út aftur fyrr en þrumuveðrið væri gengið yfir.

Ef ég hefði ekki stoppað til að ná í bananamuffinsinn, hefði Jóhannes þurft að ná í fæðingarvottorð Nr. 2 og skrá dánarvottorð okkar mæðgna.... (praktískt að gera þetta allt í leiðinni) en ekki skemmtileg tilhugsun. Kannski var það frekar maðurinn sem ég spurði til vegar sem bjargaði lífi mínu (með því að hafa ekki hugmynd um hvað ég var að spyrja hann um) en ég vil frekar hugsa um að hollir muffinsar hafi bjargað okkur. Trefjarnar vernda mann ekki einungis gegn sumum tegundum krabbameins og bananarnir passa ekki bara upp á að blóðþrýstingur og hjarta sé í lagi...heldur geta hollir muffinsar bjargað manni frá bráðri eldingarhættu. Eða þið vitið hvað ég meina....

Myndina hér að ofan tók ég í Rwanda 2008.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It