Flugferð helvítis
Já við upplifðum flugferð helvítis í gær. Hún byrjaði voða vel í sól og blíðu á Heathrow flugvelli. Við að fara í sumarfrí, rosa glöð og kát. Eftir um klukkutíma, milli klukkan 19 og 20 var ein mesta rigning sem ég hef séð og rokið var víst eitthvað rosalegt. Ekki nóg með það heldur voru þrumur og eldingar. Svo rosalegar að það var eins og væru milljón ljósmyndarar á himninum að taka myndir með flassi. Við spáðum ekkert meira í þetta, okkur fannst þó rosa skrýtið hvað veðrið breyttist allt í einu úr fínu veðri í brjálað veður.
Nú svo líður og bíður og við erum svona að fara síðustu yfirferð yfir flugvöllinn, vorum að kaupa svona hitt og þetta nema við tyllum okkur og búumst við því að fara fljótlega upp í vél. Klukkan var um 20.30. Svo verður klukkan 21 svo 21.30 og þá vorum við orðin frekar pirruð, fluginu greinilega seinkað en enginn látinn vita, stóð bara „Delayed“ á skiltinu. Svo var klukkan orðin 22, 22.30, 23 og við orðin nett pirruð. Þá kemur loksins tilkynning um að það verði seinkun (surprise!). Engin ástæða tilgreind, enginn tímarammi á væntanlegri töf tilgreindur og enginn væntanlegur brottfaratími tilgreindur. Vá hvað þetta var pirrandi.
Við komum okkur fyrir og upp úr miðnætti var öllum orðið ljóst að um mikla seinkun yrði að ræða. Hvernig vissum við það? Jú við eltum uppi öryggisverði og aðra starfsmenn flugvallarins sem tjáðu okkur það að vélin okkar væri á öðrum flugvelli (Luton) og kæmi ekkert í bráð. Heyrðum við þetta í gegnum hátalarakerfið? Nei nei nei, við FRÉTTUM af þessu með því að spyrja einhvern Jóa Jóns. Þetta var SVO glatað. Klukkan 01 eftir miðnætti voru flestir lagstir í stólana til að reyna að sofna. Það var reyndar mjög erfitt þar sem smiðir voru akkúrat að bora, negla og saga á þessum tíma. Um þetta leyti var fólk farið að spyrja um mat þar sem allar búðir höfðu lokað klukkan 22 og flestir orðnir svangir. Okkur var auðvitað tjáð að „Allar búðir væru lokaðar og því ólíklegt að einhver matur væri til en að hún ætlaði að reyna að finna eitthvað“. Allt sem fannst voru dúkkustærðir af sódavatni í dós og barbístærðir af kexi í pokum. Þetta var okkur boðið upp á frá því klukkan 21 (áætluð brottför) til klukkan 3 um nóttina. Sem betur fer er ég alltaf með nesti fyrir 4 daga hrakfarir hvert sem ég fer (þó ég sé bara að fara á pósthúsið sko) og við vorum þess vegna með eitthvað að narta í og meðal annars orkustangir sem komu sér vel. Við höfðum líka keypt okkur vatn fyrr um kvöldið. Eini staðurinn sem var opinn var barinn og var mikil gleði með að geta keypt bjór (sem var auðvitað gagnslaust fyrir okkur þar sem við drekkum ekki) en sumir Íslendingar sátu þar allt kvöldið, ansi blautir undir lokin.
Klukkan 3 var okkur tjáð að vélin væri komin og að fólk mætti fara um borð. Flestir voru sofandi (eða að reyna að sofa). Við vorum ekkert búin að þá heyra um afdrif vélarinnar í um 2 klukkutíma. Það voru auðvitað allar flugvélar farnar af Heathrow. Við vorum einu farþegarnir á öllum flugvellinum í um 4 tíma. Jæja við vorum að búa okkur undir að fara í landgang vélarinnar en nei þá þurftu allir að fara út, og í rútu, þurftum að standa í biðröð úti og bíða eftir rútu. Mér var orðið kalt, ég var þreytt og ég var svöng. Á þessum tímapunkti var fólk orðið ansi pirrað, sérstaklega eldri útlendingarnir sem voru með í þessari vél. Okkur var troðið í rútu og það var „farið með okkur eins og rollur“ eins og einn farþegi komst að orði. Útlendingarnir hristu bara hausinn.
Við komumst svo loksins í vélina. Yfirflugfreyjan var alveg mega pirruð (þó að enginn annar væri pirraður). Haldið þið að við höfum verið beðin afsökunar? Nei ekki á íslensku en á ensku var beðist afsökunar. Hvað er með það?
Eftir pirringinn, þreytuna og hungrið vorum við að vona að okkur yrði boðið upp á þó það væru nú ekki nema samlokur eða eitthvað. Mikil (ó) gleði greip um sig (eða þannig) þegar ógeðsmaturinn sem mér hefur verið tíðrætt um hér áður var borinn fyrir okkur (sami viðbjóðurinn endalaust, er ekki enn þá viss eftir 4 mánuði hvort þetta er svín eða kjúklingur. AFHVERJU er matnum ekki breytt í 4 MÁNUÐI????) og meira að segja matargatið Jóhannes, að drepast úr hungri gat ekki hugsað sér að borða þennan viðbjóð. Við reyndum bara að sofna og við dottuðum eitthvað enda allir um borð orðnir örþreyttir og allir að reyna að sofna bara.
Nú við lentum sem sagt kl. 5 í morgun í Keflavík og fengum töskurnar okkar eiginlega strax (hvaða heppni var það eiginlega?) þegar ég rak augun í rifu á nýja bakpokanum hans Jóhannesar. Þvílíkt svekkelsi. Jóhannes er búinn að vera að dást að pokanum sínum í meira en mánuð, búinn að horfa á hann, snúa honum, strjúka honum, raða í hann, taka úr honum, raða í hann aftur, prófa hann á bakinu og þar fram eftir götunum en nú var pokinn ónýtur. Þetta var svooooooo ekki eins og sumarfríið átti að byrja. Til að gera langa sögu stutta þá reifst Jóhannes og skammaðist í Flugleiðum þangað til hann fékk pokann greiddan, á staðnum. Eitthvað hefur Jóhannes orðið reiður því þetta er eitthvað sem Flugleiðir gera aldrei. Meira að segja fór konan á viðgerðarstofunni sjálf að ná í pening fyrir Jóhannes (það vita allir hvernig þessi kona er sem hafa reynt að fá eitthvað bætt). Þeir ætluðu nefnilega að gera við pokann en Jóhannes tók það ekki mál enda pokinn ónýtur. Þetta er svona Rolls Royce bakpokanna, heitir Osprey Crescent og fæst ekki einu sinni hér á landi. Hann er húðaður að innan með sérstöku efni til að gera hann vatnsheldan og það dugar ekkert að „Zikk Zakka“ í rifuna eins og konan ætlaði að gera. Jóhannes hélt yfir þeim tölu um hvernig pokinn er uppbyggður, úr hvaða efni hann er og þau gáfu eftir á endanum eftir að Jóhannes hafði rifist í einhverjum yfirmanni sem ætlaði að halda því fram að pokinn væri notaður af því að hann hafði farið út á flugvöll. Díses. Jóhannes sagði sem var að þjónustan hjá þessu fyrirtæki (Flugleiðum) væri svo skammarleg að hann færi ekki fet fyrr en þetta væri borgað. AÐ FULLU. Samt hrikalegt svekkelsi að geta ekki prófað bakpokann um helgina, alveg ömurlegt.
Já en sem sagt ástæðan fyrir því að seinkunin varð svona mikil var sú að þrumuveðrið var svo rosalegt að Flugleiðavélin gat ekki lent á Heathrow (samt furðulegt að allar aðrar flugvélar gátu bæði lent og farið í loftið. Eru Flugleiðavélarnar úr gulli? Er það þess vegna sem ferðirnar eru svona dýrar???), þurfti að sveima í klukkutíma áður en þeim var beint á annan flugvöll nema hvað að óveðrið færði sig þangað og þeir gátu sig ekkert hreyft. Veit alveg að þetta var ekkert þeim að kenna en drottinn minn dýri hvað fólk er eftir á í upplýsingagjöf til fólks sem og almennri þjónustu eins og að bjóða fólki eitthvað vott eða þurrt á meðan það bíður.
Við lentum þó ekki verst í þessu. Það var þarna fólk með lítið ungabarn og svo voru einhverjir að koma frá Mexico nýbúnir í 11 tíma flugi, búnir að bíða á flugvellinum í 6 tíma og lenda svo í þessari seinkun. Aumingja þau.
Það sem kom mér mest á óvart í þessu öllu saman er hversu rólegir Íslendingar eru í svona aðstæðum. Kannski er ekki hægt að alhæfa í því en þessir Íslendingar sem þarna voru gerðu að gamni sínu, sögðu brandara, spjölluðu, sumir fóru á barinn og höfðu ægilega gaman. Einn Breti sem var í hópnum byrjaði að æsa sig þarna fyrst en held hann hafi gefist upp því enginn annar var að æsa sig. Annað hvort eru Íslendingar svona geðgóðir eða þeir láta trampa á sér og eru of bældir til að rífast.
En endirinn er sá að ég er búin að sofa í rúman klukkutíma um það bil samtals síðan klukkan 7 í gærmorgun og við erum því ansi lúin, ekkert sem lagast ekki með góðum nætursvefni svo sem. Ég er búin að skrifa bréf til Flugleiða og skammast og get ekkert gert meira í bili.
Verst með bakpokann þó, er ferlega svekkt fyrir Jóhannesar hönd yfir að hann komist ekki með hann með sér á Laugaveginn.