Skítakuldi

Iss, það er skítkalt í London. Ok það eru 20 stig en eftir undanfarna vikur þá virka 20 stig mjög kalt. Við fórum í labbitúr í gær og vorum eitthvað voða bjartsýn, fórum bara á bolunum út og ég hélt ég yrði bara úti. Við náðum að hlýja okkur í búðum og svona (reyndar hjálpaði frosna jógúrtin ekki, hefði frekar átt að fá mér heita mjólk en jæja, var þess virði). Þetta hitastig er reyndar mjög þægilegt því maður getur verið bara í léttri peysu og þarf ekki úlpu.

Já við vorum sem sagt á rúntinum í London í gær, við vorum að kaupa eitt og annað fyrir Afríkuferð. Það er betra að kaupa svona einn og einn hlut heldur en að kaupa allt í einu þá virkar það svo mikið eitthvað. Ég keypti mér bol og léttar buxur frá North Face sem er hægt að festa upp á hliðunum. Já ég keypti mér reyndar regnbuxur líka fyrir Laugaveginn. Keypti Berghaus Goretex buxur. Þær eru mjög þunnar og léttar en eiga að vera alveg vatsnheldar, enda úr Goretex efni. Sjáum hvernig þær reynast í íslensku rigningunni :) Nú liggjum við á bæn um að verði gott veður helgina sem við ætlum Laugaveginn. Sem er reyndar næstu helgi..... Amen

Ég held að Jóhannes sé búinn að pakka niður og upp úr blessaða bakpokanum sínum svona 7 sinnum, labba með hann um íbúðina, hoppa upp og niður þannig að ljósakrónurnar hristist, vigta hann, setja meira dót í hann, labba aðeins meira með hann...... Ég er svo hissa á því að hann sofi ekki með bakpokann á sér, eða í gönguskónum. Kæmi mér ekkert á óvart þó hann hafi gert það þegar ég var ekki heima :) Hann er nú meiri útivistarperrinn :)

Ég þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því að krókna úr kulda á morgun, það er spáð 27 stiga hita og sól þannig að ég ætti að geta farið út á bol án þess að skjálfa. Ég ætla að fá Jóhannes til að hitta mig í hádegisgarðinum góða með nesti. Þetta verður svona mini-lautarferð. Ekkert betra á svona dögum en að sitja undir tré með nesti og góðan félagsskap.

Svo er það bara Ísland á þriðjudaginn. Jibbíííííí.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It