Svo fegin

Ég er SVO fegin að ég þarf ekki að fara í lest heim. Í staðinn get ég labbað heim í góða veðrinu og þó að göngutúrinn sé ekki langur, bara um 7 mínútur eða svo þá er hann nóg til að teygja aðeins úr sér eftir langa setu. Það er um 28 stiga hiti núna og það eru allir sem vinna með mér kvíðnir fyrir svitabaðinu í lestunum sem bíður þeirra enda er það ekkert grín. Það er búin að vera svona mini hitabylgja í um 1 viku og spáð aðeins áfram. Hitinn á að vera 28 stig á morgun og fram á föstudag og ég er ekki að hlakka til, ég þarf að fara á 2 fundi úti í bæ á morgun og fimmtudag.

Lestarnar eru ekki hannaðar með hita né loftræstingu í huga og það er vel greinilegt þegar maður notar þær í miklum hita. Ég man eftir því þegar ég þurfti að nota lestarnar á hverjum degi. Ég kveið því svoo mikið. Líka þegar hitinn er svona mikill þá fara lestarteinarnir að bogna. Ekki bogna þannig að það sjáist heldur bogna þeir pínulítið þannig að rafmagnið nær ekki alla leið. Þá stoppa þær og hitinn í vögnunum verður algerlega óbærilegur, það er þó skárra þegar þær eru á ferðinni. Nei í hitabylgjum þá fara þær hægar (reyndar ef rignir, ef eru laufblöð á teinunum, ef er of mikill vindur o.s.frv. þá klikka þær, það má ekkert út af bera enda 50 ára gamall tækjabúnaður sem er verið að nota). Ég man eftir því að hafa verið í lest í 35 stiga hita og innandyra hefur sennilega verið svona 45 stiga hiti og það eru engar ýkjur. Það líður yfir marga í svona hita og mann langar helst bara að hoppa út um gluggann. Ef við gefum okkur að ein manneskja gefi álíka mikinn varma og ein 60 watta ljósapera (hefur verið sýnt fram á að það er um það bil sá varmi sem við gefum frá okkur í kyrrstöðu) þá eru um 100 ljósaperur í einum troðfullum vagni og þær eru fljótar að segja til sín í miklum hita.

Annars vita þeir alveg af vandamálinu þessir sem ráða yfir lestunum, vandamálið er bara fjárskortur og einnig það að enginn hefur getið komið með lausn sem hefur virkað fyrir loftræstikerfi neðanjarðalestanna. Vandinn er ekki sá að blása kalda loftinu inn heldur að koma heita loftinu út aftur því það kemst ekki út um göngin. Það er sem sagt engin undankomuleið fyrir heitt loft og þeir sem nota lestarnar grillast því bara, eða sjóða eða steikjast. Þeir hafa heitið 100.000 pundum (um 13 milljónir) í verðlaun fyrir þann sem getur hannað kerfi sem virkar. Nú er bara að setjast að teikniborðinu sko. Held að Smári bróðir hafi verið kominn með hugmynd :) Áfram Smári.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It