Óskynsemi

Ég er svooooooo óskynsöm. Rétt áður en ég fer í flugvél að horfa á fyrsta þáttinn í Lost sem ég vissi að var flugslysamynd (fjallar um fólk sem strandar á eyju eftir flugslys) og að sjálfsögðu er ég búin að horfa á 4 þætti þar sem sumt er endurtekið aftur og aftur (fólk að hugsa til baka og svona). Hversu óskynsamur getur maður verið þegar maður er flughræddur. Ég veit að hræðslan er órökrétt, veit hversu litlar líkur eru á því að eitthvað gerist, veit allt um það, búin með sálfræði og tölfræði og ég veit ekki hvað og hvað þannig að ekki reyna að segja mér að maður þurfi ekkert að vera hræddur í flugvél. Ég veit það. Ég er samt hrædd í flugvél. Ég held að það sé af því að mér finnst þetta svo ónáttúrulegt og óraunverulegt, að vera uppi í þessari hæð. Það heimskulegasta er, að þegar ég er að keyra í flugvélinni, að eða frá flugstöðvarbyggingunni þá líður mér best og þá er einmitt mikil hætta á því að eitthvað komi fyrir vélina. Reyndar þoli ég ekki flugtak og mér er ekkert vel við lendingar heldur. Hata að vera í loftinu líka. Finnst skemmtilegast að horfa á flugvélar bara, á öruggum stað, í góðri fjarlægð.

Á tímabili var ég svo hrædd að ég kallaði Heathrow Deathrow (Deild fyrir dauðadæmda fanga) og svitnaði í lófunum við tilhugsunina um að fara í flugvél. Svo er þetta eins og með alla fælni, maður þarf bara að takast á við hana og pína sig dálítið, taka eitt skref í einu. Ég er ekkert hrædd núna að fljúga nema mér finnst það bara óþægilegt og ónáttúrulegt. Við vorum bara ekki framleidd til þess að vera í stáltúbu upp í 10 kílómetra hæð sko. Svitna samt ekkert í lófunum lengur. Myndi annars verða fyrir miklu vökvatapi þar sem ég flýg 1-2var í mánuði hí hí.

Ég er annars með ákveðið heimatilbúið hræðslukerfi og það er í 4 stigum.

  • Stig 1: Smá hristingur í vélinni en allt eðlilegt þ.e. flugfreyjur brosandi og svona og enginn hræddur þó að kaffið slettist pínulítið.
  • Stig 2: fólk er beðið um að festa sætisólarnar og fara í sætin sín. Flugfreyjurnar líka (smá sviti í lófum hér) og finnst það alltaf jafn óþægilegt.
  • Stig 3: Flugfreyjurnar eru orðnar stressaðar (hef ekki lent í því sjálf en hef heyrt sögur af vinum og kunningjum). Hér væri ég eflaust farin að grenja eða gubba, eða bæði.
  • Stig 4:Flugfreyjurnar eru skelfingu lostnar (þær eru mannlegar sko) og súrefnisgrímurnar detta niður. Vélin hrapar (hef heldur ekki lent í og þekki engan heldur sem hefur lent í því).

Ég þarf alltaf að sitja hægra megin í vél og ég þarf að sitja yfir vængnum og helst þannig að ég sjái inn í hreyfilinn (Best ef það eru Rolls Royce hreyflar, treysti þeim). Þá veit ég alla vega hvað er að gerast ef kveiknar í honum, miklu betra að vita allt svona fyrst sko. Svo vil ég sitja framarlega því það er minni hristingur en aftar í vélinni. Ég stíg ekki upp í minni vélar en Boeng 737.

Veit um eina konu sem var svo flughrædd að hún endaði á því að læra að fljúga flugvélum. Fíla það. Væri alveg til í það.

Finn að þetta hefur ekki hjálpað órökrænu hræðslunni minni baun þannig að ég ætla að hætta núna enda lyklaborðið orðið svolítið sleipt.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It