Sumar og sól

Held að sumarið sé komið í London, svei mér þá. Það er 20 stiga hiti í dag og búin að vera um 20 stig og sól alla vikuna. Á morgun er spáð 27 stiga hita og sól! Ég meira að segja fór ekki með trefil í vinnuna í dag, það þýðir að þá er komið sumar. Ekkert svo langt síðan að ég lagði ullargammósíunum og vettlingunum sko. Sá á mbl áðan að það voru 4 stig í Reykjavík hí hí. Ætti reyndar ekkert að hlæja mikið, er að fara þangað í næstu viku! Mér finnst einmitt passlega heitt núna í London, má ekkert vera heitara því þá verður bara mollulegt og viðbjóðslegt loftið.

Fórum í IKEA í gær. Mér er reyndar meinilla við IKEA en maður getur samt gert góð kaup þar og þegar maður er að spara þá er IKEA auðvitað hið besta mál. Þegar maður fer í IKEA hér þá finnur maður hvað maður hefur það svakalega auðvelt á Íslandi. Þar fer maður bara á sínum eiginn bíl og ekkert mál, með bros á vör (nema um helgar) og gerir sín innkaup sem fara beint í bílinn og heim. Hérna þurfum við fyrst að labba á lestarstöð (tekur um 10 mínútur). Svo þurfum við að taka lestina (þurftum að skipta einu sinni á leiðinni) og það tekur um 40 mínútur. Svo þurfum við að bíða eftir strætó í svona 10 mínútur og taka svo strætó 192 EÐA IKEA strætóinn (ljótur sendibíll) sem taka aðrar 10 mínútur. Allt í allt tekur um 1,5 klukkutíma að komast í búðina. Við fórum í IKEA búð í Edmonton (bær í London ekki þessi í Alberta, Canada hí hí). Ok búðin er reyndar rosa fín og það var frábært að fara á miðvikudagskvöldi því það var ENGINN í búðinni. Þessi búð komst í fréttirnar um daginn þar sem var nýbúið að opna hana og lætin voru svo mikil í fólkinu að það þurfti að kalla út lögreglu, sjúkrabíla og einn dó því hann var stunginn í magann. Klikkað lið. En já sem sagt svo keyptum við fullt af drasli (sem okkur er búið að vanta lengi en ekki drullast til að kaupa) og jafnlangt ferðalag tók við heim. Svo er maður ekki svo heppinn að vera á bíl heldur þarf maður að borga undir flutningana á dótinu.

Ég var bara svo fegin í gær að ég er ekki dags daglega að nota neðanjarðarlestarnar, fékk nóg af því fyrir nokkrum árum.URRRRRRRRR. Að standa í 40 stiga hita (ekki minna en það inn í troðfullri lest), í algeru loftleysi, upp í handarkrikanum á einhverri skrifstofublók sem er búin að svitna allan daginn yfir pappírunum (bölva því mjög reglulega að vera ekki stærri en ég er og ná ekki lengra en upp í handarkrika á fólki) og svitinn bogar af manni. Upplifði þetta sem sagt í gær en þarf þess ekki á hverjum degi sem betur fer þar sem ég get labbað í vinnuna.

En núna eigum við fullt af IKEA dóti og þurfum ekki að fara þangað í bráð. Sem betur fer!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Anna Stína
27. maí. 2005

Hæ - skemmtilega IKEA saga. Ég er reyndar ekki viss um aðþú hefðir viljað keyra um Manhattan, á mjög góðum bíl reyndar, með rúmdýnu á toppnum sem skall á þakinu í vindinum. Og svo á hraðbrautunum á um 120km - með dýnuna og hrædd um að valda stórslysi !! Annars er IKEA á Long Island mjög flott búð og STÓR. IKEA virðist virka út um allan heim, reyndar smá munur á vörunum milli landa. Mér líst nú samt svolítið vel á að fara í IKEA-bus; fyndið !! KV. AKM

Sigrun
28. maí. 2005

Hí hí, Smári var nú flottur um daginn með dýnuna á þakinu á Citroeninum. Þetta virðist fylgja ykkur, að vera með dýnu á þakinu. Nýtt trend???