U2 miðarnir komnir

Jibbí. U2 miðarnir eru komnir og ég er búin að hengja þá á ísskápinn svo ég geti horft á þá oft á dag þangað til tónleikarnir fara fram. Þeir eru 19. júní þannig að ég get horft á miðana í rúmar 3 vikur frá og með deginum í dag. Það er reyndar skemmtilegra að horfa á U2 spila en samt, ég get látið mig hlakka til alveg þangað til og horft bara á miðana á ísskápnum.

U2 miðarnir - þetta verður magnað!

Það verður reyndar varla neitt sem toppar 80 þúsund manna U2 tónleika í Slane Castle á Írlandi 2001 vá vá vá en það verður alveg ÖRUGGLEGA samt frábært og æðislegt á þessum tónleikum, þetta er nú einu sinni U2 sem ER sko auðvitað besta hljómsveit í heimi (það eru margar fleiri góðar en U2 er samt best!). Smári og Anna Stína þið verðið bara að horfa á miðana hér því ykkar koma ekki alveg strax hí hí.

Annars fyrir þá sem ekki vita þá fórum við Jóhannes á U2 tónleika í Slane Castle 2001 (þar sem platan Unforgettable Fire var meðal annars tekin upp) og þeir höfðu ekki haldið tónleika þar í 20 ár. Tónleikarnir okkar voru daginn eftir jarðarför pabba Bono og voru þess vegna mjög tilfinningaþrungnir. Upphitunarhljómsveitir voru meðal annars Red Hot Chilli Peppers (frábærir), Coldplay (finnst þeir góðir en þeir voru alls ekki að virka fyrir framan þennan mannfjölda), Kelis og JJ72. Svo mættu U2 á svæðið og að heyra 80 þúsund manns tryllast er soldið klikkað. Við vorum eiginlega alveg aftast, vinstra megin við kastalann og hljómsveitin var auðvitað bara litlir maurar á sviðinu en það var allt í lagi, það var stór skjár og við heyrðum VEL. Ég verð að segja að hljómsveitin er betri á tónleikum en á diskum (er það hægt?). Svo eftir tónleikana, labbaði ég í leiðslu með Jóhannesi í rútu sem flutti okkur inn til Dublin. Í rútunni voru allir hálf syfjaðir (við vorum alveg að sofna, höfðum ekkert sofið í um sólarhring því við vorum að koma eiginlega beint frá Íslandi). Byrjar ekki einn Íri, að syngja upp úr þurru (við erum að tala um algerlega upp úr þurru). Hann hélt áfram að syngja og fólk var farið að rumska aðeins. Fleiri fóru að raula með og að lokum var kominn gítar, um 15 manns að syngja með og einhver söngkona sem var með mjög flotta rödd tók undir. Þetta var magnað. Þau sungu alla leiðina, í rúman klukkutíma! Þau voru auðvitað öll blindfull og þetta voru mest megnis ógeðfelldar klámvísur en samt skemmtilegt!

Við vorum svo óheyrilega blönk þarna að við áttum varla fyrir mat. Við nurluðum saman fyrir samlokum á tónleikasvæðinu (sem voru viðbjóður) og við áttum ekki peninga fyrir alla ferðina í leigubílnum upp á flugvöll en leigubílstjórinn gaf okkur það sem upp á vantaði. Það var ekki séns að við ættum fyrir hóteli þannig að það var bara kalt og hart gólfið á flugvellinum sem beið. Við steinsofnuðum bæði reyndar. Þið eruð kannski að velta fyrir ykkur hvernig við höfðum efni á því að fara á tónleikana? Jú ég fékk eina bestu og óvæntustu gjöf sem ég hef fengiðá ævinni. Árni Matt sem var að vinna með Jóhannesi á mbl fékk miðana og gaf okkur þá. Ég verð honum ævinlega, ævinlega þakklát. Mun samt ekki skýra börnin í höfuðið á honum þó að hann sé búinn að biðja um það í staðinn. Ef ég eignast hund þá má hann heita Árni Matt :)

Þetta verða sennilega bestu tónleikar ævi minnar en það er ekki þar með sagt að maður eigi ekki að prófa fleiri tónleika. Við höfum verið nokkuð dugleg við að skreppa á tónleika, erum búin að sjá t.d. Lenny Kravitz (mjög flottur en ömurlegt upphitunarband), Tom Waits (þvílík upplifun), Stereophonics (góðir), Moby (mjög góður), Macy Gray (allt í lagi). Sáum Macy fyrir nokkrum árum og ég man ég sagði við Jóhannes að mér fyndist eiginlega upphitunarhljómsveitin hennar betri, þvílíkur kraftur í þeim. Ég lagði nafnið á þeim á minnið og það voru engvir aðrir en Black Eyed Peas sem eru orðin svaka fræg í dag. Svo sáum við Sigurrós í London (algjörlega magnaðir). Man ekki eftir fleiri tónleikum en okkur langar á miklu fleiri, aðallega langar okkur þó að sjá LAMB og Björku. Heyrðum aðeins í LAMB á Moby tónleikunum en svo misstum við tónleikum með þeim því trommarinn þeirra var veikur og tónleikunum í það skiptið aflýst. Svo er Duran Duran á Íslandi í sumar, ohhhhhh mig langar svo að fara, væri geðveikt. Var ekkert SMÁ hrifin af Duran Duran og fannst Roger Taylor sætastur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It