Tárið

Kaffitár er um margt sérstakur staður. Ég fer nú oft á Kaffitár (og á Te og Kaffi) þegar ég er á Íslandi, nánast á hverjum degi og þegar maður fær gott kaffi á hvorum staðnum sem er, þá er það GOTT enda eigum við heimsmeistara og ég veit ekki hvað í kaffibarþjónamennsku.

Andrúmsloftið er mjög sérstakt á Kaffitári. Þegar maður kemur þar inn þá sér maður yfirleitt 2-3 andlit sem maður kannast við annað hvort úr Háskólanum, Myndlista- og Handíðaskólanum, vegna vinnunnar, eða svo geta þetta líka verið þjóðþekkt andlit. Oftar en ekki má maður sjá rithöfunda að spjalli við stjórnmálamenn, upprennandi söngkonur að raula laglínur úr nótnabókum, leikara að bera saman bækur sínar fyrir sýningar, menn á viðskiptafundum að skrifa undir samninga og margt fleira skemmtilegt. Einu sinni sat ég við hliðina á Morten Harkett úr AHA. Var reyndar aldrei skotin í honum í gamla daga, hefði annars farið í kleinu.

Ég held að stemmningin á Kaffitári sé einstök, hvort sem það er miðað við Ísland eða útlönd. Til dæmis þegar kaffibarþjónar hafa lokið vakt dagsins og eru að kveðja þá er yfirleitt helmingurinn af viðskiptavinunum sem kveður viðkomandi starfsmann líka! Þó ég sé mjög hrifin af Te og Kaffi líka þá er stemmningin ekki alveg eins og allt virkar óskipulagðara bæði í framreiðslu og afgreiðslu. En mikið getur kaffið verið gott á báðum stöðum (fer algerlega eftir því hver er við kaffivélina það skiptið).

Ég er svooooo glöð yfir því að þau hjá Kaffitári séu búin að skipta út þessum óþolandi járnstólum sem voru að gera mig geðveika. Ískrið í þeim á steingólfinu hélt mér stundum frá staðnum, það skar í gegnum merg og bein og ég þurfti alltaf að drekka eitthvað mjög heitt og vera mikið klædd því ég var með stanslausa gæsahúð. Núna eru komnir fínir tréstólar sem er unun að hlusta á, svona næstum því.

Ég á eftir að sakna Kaffitárs en ég kem aftur eftir 10 daga svo ég hlýt að geta lifað af biðina og farið á Starbucks!

Fyrir þá sem hafa áhuga á kaffi þá getið þið skoðað vefinn hans Jóhannesar www.urbanmania.com/kaffi

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Anna Stína
27. maí. 2005

hæ hó - já alveg sammála andrúmsloftinu á Kaffitár, voða vinalegt og afslappað - líka þegar er mikið að gera. Te og kaffi er þessa dagana í meira uppáhaldi hjá mér kaffilega séð en það er mun ópersónulegra (reyndar er fólkið þar farið að þekkja Freyju og spjalla við hana - hún er upprennandi kaffisjúklingur held ég, elskar lyktina af nýmöluðu kaffi). Ég má reyndar skammast mín að hafa enn ekki prófað Tárið eftir breytingar í Bankastrætinu, styttist í það vonandi. Sjáumst - kv. AKM

Sigrun
28. maí. 2005

Reyndar, latte sem Njáll hefur komist með hendurnar í, mmmmmmmmmm ó mæ god hvað það getur verið gott hjá honum! Held að það séu besta latte í heimi svei mér þá.