Bloggið
Af sól og sykri
Takk fyrir stuðninginn varðandi síðustu færslu. Ég er að vona að fólk sem stelur efni frá mér verði að pöddum í næsta lífi og að einhverjir (sér til skemmtunar) stígi á þær. Ég veit að ég er vond en miðað við allt sem ég legg í vefinn minn, þá verð ég bara svekkt og sár þegar fólk stundar þetta. Ef þessir fyrrnefndu aðilar væru þeir einu væri þetta ok en ég er mjög víða að sjá (og frétta af) alls kyns stuldi á efni frá mér. Virkilega lélegt. Fólk hefur lagst svo lágt að stela myndum líka án þess að geta heimilda og jafnvel til að nota í auglýsingar. Jebb....svona er hin hliðin á þeim sem „nota“ vefinn minn. Jákvæða hliðin er fólkið sem sendir þakklæti og stuðning en því miður eru rotin epli til staðar.
Nú er vorið/sumarið heldur þetur komið í London. Skólaskrakkarnir svitna undan blazer jökkunum sínum og konur ganga út af fótsnyrtistofunum með svamp á milli nýlakkaðra tána. Það er reglulega ljúft að upplifa sólskin og 20 stiga hita í byrjun apríl. Það hefur verið frekar kalt að undanförnu og gott að fá svolítið D vítamín í blóðið, hita í vöðvana og sól í sálina.
Talandi um vítamín(leysi) og skólakrakka. Á hverjum degi sæki ég Afkvæmið til dagmömmu. Ég fer í strætó og á meðan ég bíð (á sama tíma hvern dag) hrúgast skólakrakkar fyrir utan strætóstoppið. Þetta eru aðallega Harry Potter skólastrákar. Beint fyrir framan strætóstoppið er sjoppa (eða það sem við köllum „Indverjabúð“ en það eru mjög miklir fordómar að tengja svona búðir endilega við Indverja því það getur vel verið að t.d. Pakistanar reki þær. Við erum bara of vitlaus til að vita muninn). Þetta er ágætis sjoppa, snyrtileg og hrein og selur flest sem vantar svona í neyð eins og te (Bretar myndu deyja ef þeir ættu ekki te í bollann sinn), WC pappír, kúlupenna og ljóta blómvendi með pínulitlum blómum sem eiga að vera rósir. Þeir selja líka sælgæti og nóg af því. Þetta sælgæti borða skólastrákarnir... og nóg af því. Ég sé sömu strákana á hverjum einasta degi, alltaf með sælgæti í höndunum. Þeir hrúga í sig súkkulaðistykkjum, einhverju sykurdufti í löngu, löngu röri (mjög vinsælt), karamellum, súkkulaðiíspinnum o.fl., o.fl. Ég fæ sykursjokk bara af lyktinni sem kemur af sælgætinu. Ég hef verið að horfa í kringum mig í strætó og á götunum. Iðulega og ég meina í svona 85-95% tilfella eru börn á öllum aldri að japla á sælgæti. Ein móðirin í strætó um daginn var að fóðra um ársgamla krakkaklumpinn sinn á hvítum súkkulaðibitum (White Chocolate Drops). Ég sé iðulega börn sem eru hálf tannlaus (því þau eru það ung) að naga súkkulaði, kremkex eða sykursnúða. Í dag sá ég t.d. eitt krógann sem var enn að slefa, með KitKat. Þetta eru ekki svona „féló“ börn þ.e. ekki endilega þó þau leynist inn á milli. Það virðist engu máli skipta hvaða þjóðfélagshópi fólk tilheyrir því það er ekki síst konurnar og karlarnir í teinóttu skyrtunum með lillabláu- og bleiku peysurnar á öxlunum sem gefa börnunum sínum sælgæti og drasl. Og það er ekkert barn sem virðist geta verið án Ribena sykursullsins. Ef það er ekki sykurinn eru það kartöfluflögurnar sem eru svo sniðuglega markaðssettar að þær koma í 30 gr pokum sem er akkúrat skammturinn fyrir skólakrakkana.
Hvað verður til þess að foreldri gefur barni sem getur ekki einu sinni talað, súkkulaði eða sleikibrjóstsykur? Ég kemst bara ekki alveg yfir þetta. Afkvæmið, 18 mánaða veit ekki einu sinni hvað þetta er, hvað þá hvaða nafni þetta heitir. Ef hún er svöng seinni partinn, fær hún hafrakex til að maula á, og vatn að drekka. That‘s it. Svo fær hún heitan, heimatilbúinn og hollan kvöldmatinn þegar hún kemur heim. Ef hún vill ekki hafrakex er hún ekki svöng. Á morgnana þegar hún fer út fær hún stundum epli, banana eða döðlur. Það fer dálítið eftir bleiustöðunni (þ.e. því sem kemur út he he). Ef það er kæfubleia (mjög stíft) fær hún t.d. döðlur eða Cheerios en ef það er guacamolebleia getur verið gott að gefa banana eða epli o.s.frv. til að stemma af. Það er einhvern veginn það eðlilega í stöðunni finnst mér að rétta líkamann af með náttúrulegum leiðum. Alsæl maular hún á þessu „sælgæti“ og drekkur vatn með (sem er gott til að skola náttúrulega sykurinn sem sest á tennurnar á milli mála).
Kannski kemur að því að Afkvæmið biður um súkkulaði, eða frostpinna eða brjóstsykur. Kannski mun hún smakka slíkt (ekki hjá okkur þó) og finnast gott. Það er ekki mikið sem hægt er að gera nema að bjóða upp á hinn kostinn alla hina dagana, þann holla.
Ætli skólastrákunum hafi einhvern tímann dottið í hug að borða epli eða banana í staðinn fyrir sælgæti? Ætli þeim hafi verið boðið það einhvern tímann eða ætli þeir kjósi sælgætið alveg sama hvað? Kannski hefur þetta allt með uppeldi að gera, kannski hefur þetta með aðstæður og hópþrýsting að gera. Ég veit sjálf hvað er erfitt að hætta að borða sælgæti 12 ára. Mig langaði aldrei í það aftur eftir að ég hætti en það var með ólíkindum hvað aðrir voru forvitnir um ástæður o.fl. Ég hugsa að það hefði verið auðveldara að vera 12 ára og hætta að reykja. Fólk hefði látið mig í friði en ekki með sælgæti, ó nei. Ég minntist aldrei á það sjálf að fyrra bragði að ég borðaði ekki sælgæti en það var fljótt að spyrjast út.
Á hverju einasta kvöldi á mínum yngri árum skar pabbi minn niður ávexti skál. Hann skar annað hvort epli eða appelsínu eða hvoru tveggja og maulaði yfir sjónvarpinu. Aldrei var sælgæti eða kartöfluflögur eða slíkt sem fór í skálina hans. Bara þetta eina litla atriði skiptir sköpum því mér þykir sjálfsagt að skera niður ávexti og maula yfir því sem ég er að gera í tölvunni (ég á jú ekki sjónvarp).
Þessir strákar búa í landi sem selur ekki fjórar eplategundir í matvörubúðinni heldur 20. Sama gildir um aðra ávexti, svo mikið úrval, allt ferskt og mikið til af lífrænt ræktuðum afurðum. Ég ætla ekki að vera skrýtna konan sem býður skólastrákunum upp á epli en mikið langar samt til að spyrja þá út í neysluvenjur heimilisins. Ég er svo óskaplega forvitin (svona eins og þegar ég reyni að sjá hvaða óhollustu fólk er að kaupa í matvörubúðinni).
Mér skilst að Íslendingar séu litlir eftirbátar Breta hvað sykurneyslu varðar (allt þetta jógúrt/skyr-sykursull er auðvitað skelfilegt) en það væri gaman að vita hvað íslenskir unglingar borða á leiðinni heim til sín úr skólanum. Ég hef nefnilega ekki hugmynd.
P.s. held ég sé sólbrunnin eftir daginn.
Ég.þoli.ekki.svona.....
Ég absolútelí þoli ekki þegar fólk stelur efni frá mér. Ég legg (og Jóhannes) SVO mikla vinnu í vefinn minn og í hann fara samanlagt þúsundir klukkustunda á ári hverju. Að ótöldum efniskostnaði, hráefniskostnaði og öðrum kostnaði. Að fólk GETI lagst svo lágt að stela uppskriftum OG textanum sem á undan fylgir (sem er oft persónulegur) og birt á vef sínum (sem er bæ ðe vei söluvefur) án þess að geta heimilda gerir mig svo brjálaða að ég verð eins og jarðarber í framan og svo svitna ég reiðisvita og mig langar að sprengja eitthvað í loft upp (ok hjálpar ekki að vera komin 8 mánuði á leið…svona upp á skapið að gera en ég myndi samt vera svona, þrátt fyrir núverandi ástand).
Mér barst í dag ábending frá dyggum notanda vefjarins (og ég kann henni innilegar þakkir fyrir) og hún benti mér á að á þessum tiltekna vef væri verið að nota uppskriftir frá mér. Þær eru birtar óbreyttar. Orðrétt. Ég hef sent nokkur “vel valin” orð á umsjónaraðila eldamennsku.is (ég ætla ekki einu sinni að tengja í þennan vef, ég geri þeim það ekki til geðs að vísa umferð af mínum vef yfir á þeirra) og ég ætla rétt að vona að þeir fjarlægi uppskriftirnar mínar hið fyrsta (ég mun athuga). Ekki aðeins eru þeir að brjóta höfundarrétt heldur eru þeir líka að nota uppskriftirnar mínar eins og ég leggi vörunni gott orð í munn. Ég hef aldrei notað vöruna, hef ekki áhuga á að nota hana og enn minni áhuga á styðja við hana með því að leyfa birtingu á efni frá mér. Sérstaklega eftir þessa framkomu.
Sveiattan og oj bara.
Hollir kleinuhringir, það nýjasta í heilsugeiranum?
Er hægt að gera kleinuhringi holla? Er hægt að gera þá þannig að þeir séu fullir af andoxunarefnum, járni, steinefnum og vítamínum?
Samkvæmt nýjasta æðinu þá er það hægt og vel það. Notað er spelti sem er unnið á annan hátt en hefðbundið er og notaður er hrásykur og agavesíróp. Myndina af afrakstrinum má sjá hér að ofan. Mjög spennandi fyrir þá sem finnst kleinuhringir góðir en hafa þurft að neita sér um þá hingað til, heilsunnar vegna.
Ég hef misst af...
...ótrúlega mörgu sem gengið hefur á í dægurmenningu Íslendinga (og íþróttum o.fl.). Það er jú vegna búsetu erlendis. Þegar ég hef verið að skoða fjölmiðlana undafarna mánuði þá er svo margt sem ég skil ekki og svo margt undanfarin ár sem ég hef ekki skilið eða hreinlega bara hefur farið fram hjá mér. Ég hef verið búsett í London með hléum frá því árið 2001.
Ég hristi stundum hausinn yfir Íslendingum en svona í sanngirni hristi ég líka hausinn yfir Bretum, þeir eru kol-klikkaðir. Það er samt öðruvísi að skilja ekki sitt eigið land eða sína eigin þjóð, og oft erfiðara, svona andlega. Hér fyrir neðan er ýmislegt sem hefur farið fram hjá mér (eða ég hreinlega misst af) á undanförnum árum eða nýverið:
Baggalútur – Skil hann ekki....fyrir mér er vefurinn eins og „Ekki fréttir“ sem átti að vera voða fyndið cirka 1990. Ég verð bara pirruð þegar ég eyði tíma í fréttir sem eru ekki fréttir og einu sinni hlustaði ég á heilan „Ekki“ fréttatíma andaktug (ég hélt að allt væri satt sem kom fram...er sérlega auðtrúa) og þegar ég komst að því að allt var bull varð ég alveg galin. Ég heyrði einu sinni jólalag með Baggalút og hélt í svona 2 ár að þeir væru hljómsveit en ekki vefsíða og ég hefði misskilið eitthvað þarna í upphafi. Það er erfitt að tala um „Hljómsveitina Baggalút“ við Íslendinga, þeir halda að maður sé að reyna að vera fyndinn.
Gilz, Nilli, Vala Grand, Haffi Haff – Þetta fólk hefur gert hvað nákvæmlega?
Barnaland – vefsíða sem ég hræðist út í hið óendanlega. Fyrir mér er Barnaland eins og vefsíða til heiðurs Jerry Springer.
Pressan, Miðjan, Bleikt.is, Eyjan, Smugan – eru þetta allt sama vefsíðan sem skiptir um útlit vikulega?
ÍNN og allar hinar sjónvarpsstöðvarnar sem hafa sprottið upp – þær spretta upp eins og gorkúlur en deyja jafn óðum. Allir verða stjörnur í viku og enda svo í Séð og Heyrt þar sem þær eru rakkaðar niður (í þau fáu skipti sem ég skoðaði Séð og Heyrt og var á Íslandi fannst mér það alltaf þannig...gæti verið alhæfing).
Séð og Heyrt – Hversu oft er hægt að skrifa „Sjáið kjólana og skartið“ án þess að það missi marks? Hvað ætli sumir einstaklingarnir hafi birst oft á forsíðum með mismunandi mökum? Séð og Heyrt er ekkert nýtt fyrirbæri (sbr. Se og Hør í Danmörku) en við erum 350.000 manns og spurning um að nota bara sömu blöðin á um 5 ára fresti? Það fer allt í hring á Íslandi hvort sem er.
Kaninn – er það ekki einhver útvarpsstöð?
Eurovision – íslenska þjóðin er við það að tapa vitinu öðru hvoru og við sem búum erlendis vitum ekki endilega alltaf af því fyrr en á Facebook. Sama með handbolta. Frábært samt þegar íslensku þjóðinni gengur vel í einhverju...Finnst bara leiðinlegt þegar maður getur ekki einu sinni montað sig af því við útlendinga að þekkja þátttekendur í Eurovision. Bretar hrista bara hausinn og skilja ekki baun.
Stelpurnar – einhver þáttur sem ég hef aldrei séð en maður þykir víst mjög lummó fyrir að hafa ekki séð einn einasta. Áramótaskaup – hef ekki séð Skaupið síðan 2001.
Spaugstofan – Really?
Smáralindin – var Kringlan ekki nóg fyrir okkur 350.000 Íslendinga?
Með allt á hreinu – ég skil bara ekki „astraltertugubb“ húmorinn...bara skil hann ekki. Var reyndar ekki erlendis þegar það fyrirbæri var í gangi, bara horfði ekki á myndina, ekki frekar en LaBamba, Grease eða Dirty Dancing fyrr en 20 árum eftir að allir hinir sáu myndirnar (sá Dirty Dancing um daginn). Búin að sjá Með allt á hreinu fyrir löngu síðan en skildi hana ekki. Kannski þarf eitthvað áfengismagn í blóðinu til? Hef átt langar samræður við fólk sem reynir að troða því í hausinn á mér hvers vegna Með allt á hreinu sé frábær og fyndin mynd en ég verð bara pirruð við að horfa á hana.
Kardimommubærinn – ég bjó erlendis þegar ég var lítil og hef aldrei séð Kardimommubæinn.
Dýrin í Hálsaskóginum – sama, ég bjó erlendis og þekki ekki Dýrin í Hálsaskóginum.
Hef ég misst af einhverjum mikilvægu? Spurning sko...hmmmm.....  Þetta gæti þó útskýrt hvers vegna ég er svona eins og ég er. Held samt ekki. Nema stundum hefur mér þótt leiðinlegt að hafa ekki séð Kardimommubæinn og Dýrin í Hálsaskóginum. Það er endalaust verið að vitna í þessi tvö leikrit og maður er stundum svolítið útundan, sérstaklega þegar verið er að baka piparkökur um jólin...þá finnst mér ég alveg úti að aka og söngla „Þegar piparkökur bakast...“ til að vera með (en er ferlega taugaveikluð samt því ég kann ekki textann og hætti því yfirleitt eftir fyrstu laglínuna). Ég veit nefnilega ekkert hver söguþráðurinn er, né hvers vegna er verið að syngja um piparkökur. Stundum finnst mér ég minna íslensk við þennan „skort“ minn en það verður að hafa það.
Ég er í essinu mínu þessa dagana að kyrja „Row, Row, Row Your Boat“, „Twinkle, Twinkle Little Star“ o.fl. vísur því þær man ég eftir úr æsku. Ég reyni þó að hafa jafnvægi á íslenskum og enskum sönglögum...svona upp á Afkvæmið að gera því mér finnst nauðsynlegt að kenna henni líka um krumma sem kroppar í höfuð og býður öðrum krummum í hlaðborð. Brútal og hressandi.
Ferðasagan (og myndir) komin á vefinn
Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa um ferðalög um framandi slóðir þá er Borgar (bróðir) búinn að birta ferðasöguna frá Rwenzori í Uganda ásamt myndum. Skoða má hvoru tveggja á vef Afríku Ævintýraferða. Jóhannes tók allar myndirnar (nema auðvitað af sjálfum sér á toppnum).
Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kanna nýjar og spennandi slóðir fyrir væntanlegar ferðir. Þeir voru allir sammála um það ferðalangarnir að þetta væri staður sem vert væri að kanna í framtíðinni.
Maður gerir ekki svona
Já ég er búin að sjá Fréttablaðið…með viðtalinu við Bakarann. Ég er búin að fá svo margar fyrirspurnir um þessa grein að ég sé mig tilneydda til að skrifa nokkur orð og svara þeim hér með. Fyrstu viðbrögð mín við lesturinn voru að brosa út í annað því ég hef svo oft hitta gosa sem þennan sem slá um sig stórum orðum þegar kemur að heilsutengdum málefnum. Ég hætti að borða sælgæti og bakarísvörur 12 ára sjáið til. Það er því óneitanlega margar glósur sem ég hef fengið á mig í gegnum tíðina. Það kemur mér ekkert á óvart lengur í þessum efnum. En ég hef sjálfstraust hvað minn lífsstíl varðar og er eins örugg þar eins og sá sem er dökkur á hörund veit að hann er dökkur, en ekki ljós.
Það sem fékk munnvikið til að detta aftur niður er að ég hugsaði til allra þeirra sem eru ekki eins vissir og ég, allra þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í hollustu. Fyrir ringlaðan, of þungan einstakling (sem vill jú helst borða sælgæti) er svona grein álíka og fyrir þann sem er að læra að keyra bíl, fengi upplýsingar um að það væri betra að keyra upp einstefnugötuna, það væri ekkert svo slæmt. Einstaklingurinn ruglaði myndi fyrst vera vantrúa (það var búið að segja honum annað) en fyrst að landsþekkti ökukennarinn segir þetta og fjölmiðillinn birtir orð hans, hlýtur þetta að vera satt? Er það ekki? Það er líka mun fljótlegra að keyra upp einstefnugötuna, hún styttir manni leið og svona.
Hvað myndi gerast ef stærsti kúabóndi landsins tæki upp á því að segja í viðtali að grænmeti væri í raun ekki betra en kjöt og við gætum alveg eins sleppt því að borða grænmetið? Grænmeti er af flestum sérfræðingum talið hollt (eins og spelti, agavesíróp og hrásykur eru taldar vera betri afurðir en það sem ömmur og afar okkar notuðu). Þeir sem eru í andstöðu við hollan lífsstíl hins vegar segja gjarnan að grænmeti sé ekkert hollara en kjöt því forfeður slátruðu jú vísundum og kanínum hægri, vinstri. Forfeður okkar hins vegar sátu ekki við tölvu eða sjónvarp hálfan sólarhringinn og bjuggu ekki í upphituðu húsnæði. Sykursýki var heldur ekki að drepa þá, né hjartasjúkdómar.
Samkvæmt Bakaranum er alveg eins gott að borða hvítan sykur eins og hrásykur og agavesíróp og spelti eru eiginlega eins og fótanuddtæki holla lífsstílsins. Tískubóla. Ég hef alltaf opinn huga gagnvart gagnrýni hvers konar. Gagnrýni gerir manni bara gott og fær mann til að víkka hugann. Hins vegar verður gagnrýnin að koma frá hlutlausum aðila, ekki þeim sem notar hvítan sykur og hvítt hveiti mest af öllum og myndi líklega tapa miklum hagnaði af því að nota dýrari vörur (sem hollar, lífrænt framleiddar vörur eru jú). Það er eins og að olíuauðjöfrar segðu að minni mengun væri nú ekki svo sniðug fyrir plánetuna, það væri alveg eins gott að menga bara áfram.
Ef maður les á milli línanna í viðtalinu (sem margir þeir sem eru tvístígandi í heilsumálum gera gjarnan til að finna afsakanir) má skilja það sem svo að kóladrykkur sé alveg jafn sniðugur og heimatilbúinn safi sem sættur er með agavesírópi. Að snúður með hvítu hveiti og glassúr sé álíka hollur og heimatilbúinn orkubiti með hrásykri. Að fransbrauð sé álíka hollt og heimatilbúið speltbrauð. Að það sem sé lífrænt framleitt skipti engu máli fyrir umhverfið eða jörðina til langs tíma (skítt með næringarefnin, hvað með framtíð barna okkar?).
Ég ætla ekki að fara út í að útlista hvers vegna hrátt agavesíróp (ekki hitað upp fyrir 47°C), rapadura hrásykur, spelti og lífrænn búskapur sé betra fyrir okkur. Mér finnst ég ekki þurfa þess. Internetið inniheldur milljónir greina varðandi þetta málefni og er jafn augljóst og að maður á ekki að keyra inn einstefnugötu (burtséð frá því hvort það er lögbrot eða ekki þá er það bara ekki góð hugmynd). Ef ég virkilega tryði ekki á það sem ég er að gera, væri ég ekki að halda úti þessum vef. Ég er frekar að skammast út í að þessir dálkasentimetrar hafi verið notaðir í að hvetja neytendur til þess að kaupa bakarísvörur (sem innihalda hvítt hveiti, hvítan sykur o.fl.). Neytendur eiga að gera upp hug sinn sjálfir auðvitað en að Bakarinn (sem margir líta upp til) hafi fengið svigrúm til að dreifa dulbúnum söluáróðri, finnst mér ekki í lagi. Ef þessi sami pési hefði látið þessi orð frá sér fara hér í Bretlandi hefði hann verið krossfestur af a.m.k. 30 samtökum hvers konar.
Maður gerir bara ekki svona.
P.s. ég er ekki að birta þennan pistil til að vekja upp einhverjar hatrammar umræður um hvað er hollt vs. ekki hollt, ég er einungis að svara fyrirspurnum sem ég hef fengið varðandi þetta málefni.
Ný uppskrift: Kókoskúlur
Ég er búin að fá ótalmargar fyrirspurnir í gegnum árin varðandi uppskrift að kókoskúlum. Ég hef haft eina sem ég hef verið að leika mér með í gegnum tíðina og hef ekki birt hana fyrr en núna. Þetta er ekki kókoskúlur eins og maður fær í bakaríum (veit ekki hvernig þær bragðast en þær eru örugglega ekki eins og þessar) og ég hef þær litlar í staðinn fyrir stórar. Þær eru akkúrat einn biti með kaffibollanum.
Stundum langar mig svo......
Ég les og skoða mörg matarblogg reglulega. Bæði til að fá hugmyndir og svo eru sum æði falleg og vönduð og maður dáist að myndum og uppskriftum og jafnvel er textinn oft skemmtilega skrifaður. Stundum fæ ég djúpa minnimáttarkennd vegna þess sem ég sé. Yfirleitt er ég þá að horfa á fagurblátt krem á köku eða eiturgræna frostpinna eða fjólubláar skreytingar með marzipani. Ég verð líka dálítið öfundssjúk því það er svo auðvelt að gera fallegar kökur með óhollu hráefni, það er svo, svo auðvelt. Það er hægt að taka SVO fallegar myndir af því sem er óhollt! Stundum, bara stundum, er svoooo freistandi að hugsa um að nota matarlit til að breyta litum t.d. í kökukremi. Æpandi fjólublár, gervilegur litur er oft mun fallegri en sveitó, heimagerður litur úr rauðrófu eða jarðarberjum sem ég nota alltaf. Svo langar mig svo oft að að búa til fallegt blátt krem á köku en það er meira en að segja það með bláberjum og von í hjarta. Fyrir myndlistarmenntaða manneskju er þetta svolítið eins og að mega ekki mála nema með sauðalitum. En ég myndi aldrei gera neitt af ofangreindu, aldrei í lífinu, en stundum getur maður látið hugann flakka og það er bara gaman. Hér er listi yfir það sem ég hugsa stundum að mig langi til að gera (en myndi aldrei, aldrei gera):
- Stundum langar mig að nota smjör svo ég geti gert hrikalega flott smjörkrem sem helst stíft og fallegt.
- Stundum langar mig að nota marzipan svo ég geti gert flottar fígúrur og alls kyns kökuhjúpa og útskurði í kökur sem helst eins jafnvel í marga mánuði.
- Stundum langar mig að nota flórsykur svo ég geti sáldrað fallegu hvítu lagi af sykri yfir kökur, það getur komið svo fallega út.
- Stundum langar mig að nota æpandi matarliti svo ég geti gert æpandi falleg krem á kökur (t.d. neongrænan, túrkísbláan, eldrauðan, sterkgulan o.fl.).
- Stundum langar mig að nota imbasamsetninguna: rjóma, sykur, hvítt hveiti og smjör svo að ég geti gert köku beint eftir uppskrift. Það er stundum svo pirrandi (og dýrt) að þurfa að gera 5-6 tilraunir með hollu hráefni áður en eitthvað heppnast.
- Stundum langar mig að nota fallega litann brjóstsykur og brjóta hann í mola til að skreyta kökur.
- Stundum langar mig að nota lakkrísreimar til að teikna alls kyns mynstur á kökur.
- Stundum langar mig til að nota perlusykur í öllum mögulegum litum og t.d. langar mig stundum til að nota silfraðar kúlur á hvítt og ljósblátt marzipan. Ég hef séð myndir af svoleiðis sem voru bara svo fallegar!
- Stundum langar mig SVO mikið að búa til jólalegar kökur með grænum, rauðum litum skreyttum gylltum kúlum.
En alveg róleg, þetta er bara fantasía og ég fer ekki að breyta út af vananum. Það að elda og baka úr hollu hráefni krefst þess bara að hugmyndaflugið sé í lagi og að maður sé óhræddur við að gera tilraunir og að þær mistakist. Sbr. að nota kakó, cashewhnetur eða jafnvel avocado í staðinn fyrir súkkulaðismjörkrem, að nota turmeric og rauðrófur í staðinn fyrir gulan og bleikan matarlit. Svo þarf að gera fjölda tilrauna þegar maður notar ekki rjóma, hvítt hveiti, sykur og smjör því það að baka úr hollara hráefni er ekki alltaf leikur einn.
Það er hins vegar þess virði að vera svolítið öðruvísi og furðulegur. Það gefur lífinu lit.....bara ekki endilega æpandi sterkan lit!
Ugandísk innkaup
Ég er búin að endurheimta eiginmanninn (og þar með tæknimann CafeSigrun). Ég var auðvitað glaðari með að fá eiginmanninn heldur en tæknimanninn en þar sem það voru hlutir sem fóru aflaga á meðan hann var í burtu þá var gott að fá þá báða heim.
Síðasta vika var ansi strembin þar sem ég var ein heima með veikt, tæplega 18 mánaða gamalt barn (og komin 7 mánuði á leið með það næsta). Veik 18 mánaða gömul börn hafa ekki vit á því að vera lasin eða vera kyrr og eru bara pirruð og úrill. Að vera einn heima, í litlu rými og komast í mesta lagi út með ruslið í 4 daga er nóg til að gera mann vitstola. Eða ég hef allavega ekki þolinmæðina sem þarf (aftur..hvernig fara einstæðar mæður með lítinn eða engan stuðning að?). Það er ekki einu sinni hægt að horfa á DVD diska eða liggja undir sæng og kúra eða baka. Ó nei. Afkvæmið hefur um 5 mínútna þolinmæði í teiknimyndum (hún sér aldrei sjónvarp og veit ekkert hvað það er) en hefur öllu meiri þolinmæði við að skoða myndbönd af sjálfri sér í tölvunni, aftur og aftur, og aftur og aftur og aftur og aftur. Ég verð líklega að bíða þangað til hún giftir sig þangað til ég get horft á þessi myndbönd aftur. Um leið og Jóhannes kom heim var honum rutt upp við vegg og honum gerðir ákveðnir skilmálar ljósir...Öll vinna sem hann hefur lagt í CafeSigrun á síðustu árum og öll vinna sem ég skuldaði (í smákökum og öðrum bakstri) er nú greidd til baka, með vöxtum. Hann samþykkti og það er hér með skráð og þið eruð vitni. Mikið var nú gott að fá hann heim samt. Afkvæmið var líka ánægt að sjá pabba sinn.
Ferðin gekk annars vel hjá Jóhannesi og hann komst á tindinn. Hann og Gísli, einn af ferðafélögunum eru líklega fyrstu Íslendingarnir sem það gera sem er auðvitað voðalega gaman. Leiðin var erfið, mun erfiðari en Kilimanjaro eða Mt. Kenya en hann komst þetta karlinn (enda fékk hann heimatilbúið göngunasl með sér). Hann gerði svo ansi góð innkaup í Uganda fyrir eiginkonuna. Hann keypti m.a. 325 grömm af ilmandi og mjúkri vanillu (heilli vanillu). Þrjúhundruðtuttuguogfimmgrömm af vanillu er mikið magn enda ilmar húsið. Hann keypti líka „Tastes of Africa“, frábæra uppskriftabók (og það er ekki auðvelt að kaupa afríska uppskriftabók handa mér því ég á þær flestar). Hann keypti líka skál og fallegar diskamottur og dúk og ekki nóg með það þá keypti hann líka krukku af hunangi úr lífrænni ræktun sem er það besta sem ég hef smakkað. Það er stórhættulega gott. Það er ljóst að ég þarf að gera dálítið af afrískum mat á næstunni!!!
Verst bara hvað er freistandi að skella sér út til Uganda (eða önnur lönd austur Afríku sem ég hef heimsótt) þegar maður sér svona fína gripi, handfjatlar þá og finnur kunnuglega lyktina af basti, tágum, bananalaufum, vanillu og mold. Ég fæ fiðring í tærnar og langar að komast í hitann og gróðurinn og góða matinn. Það verður síðar meir og ég hlakka til.
Grasekkjan í þorpinu
Nú er Jóhannes kominn í fyrstu búðir (Nyabitaba Hut) og allt gengur vel þrátt fyrir smávegis magakveisu. Hann var orðinn slappur í maganum áður en hann fór og hæðin + afrískur matur sem er ekki alltaf sérlega „stemmandi” gerir það að verkum að maginn verður óhress. Það er ekkert sem hann hristir ekki af sér og við erum bara þakklát fyrir að hann fékk ekki flensuna sem ég fékk og lá í heila viku af (er enn hóstandi). Hann hefur áður gengið á fjall (Mt. Kenya) fárveikur af flensu og var ekki hress með að þurfa jafnvel að endurtaka þann leik. Það varð þó ekki sem betur fer. Myndir af honum af Mt. Kenya eru þannig að hann stendur á toppinum með frosið bros og er eins og undanrenna í framan.
Ég er búin að hóta honum að læsa hann úti ef hann tekur ekki myndir í þúsundatali (með 14 GB minniskort ætti hann að geta tekið nokkrar) og ég bað sérstaklega um að HANN væri með á myndunum líka. Hann gleymir því nefnilega.
Ég er að búast við Jóhannesi greyinu þvengmjóum til baka því hann léttist um 7 kg þegar hann fór upp Kilimanjaro og þá var hann ekki lasinn eða með í maganum. Ég veit að eftir ferðalög hefur maður sérstaka þörf fyrir ákveðinn mat. Ég þekki það sjálf eftir ótal ferðalög um Afríku. Þó að maturinn þar sé alltaf góður er sumt sem mann bara langar í við heimkomu. Yfirleitt er ég farin að þrá brakandi fersk epli og brakandi fersk salatblöð. Stundum er það holl kaka eða smoothie sem mann langar í og hugsar stanslaust um og þegar Jóhannes fór upp Kilimanjaro þá var ís það EINA sem hann hugsaði um, í hverju skrefi. Hann fékk ís algjörlega á heilann. Enda keypti hann ísgerðarvél um leið og hann kom aftur til London og ég gerði auðvitað ís í tonnatali. Er að vona að hann langi t.d. í eitthvað hnetumauk því mig vantar matvinnsluvél (ég tími ekki að nota Vitamixinn minn í neitt sem inniheldur lauk ha ha).
Áður en Jóhannes fór sá hann til þess að mér myndi (vonandi) ekki leiðast á meðan hann væri í burtu. Hann var búinn að panta handa mér nokkrar uppskriftabækur, kaupa súkkulaði í heilsubúðinni, áskrift að Delicious (uppáhalds blaðinu mínu) og margt fleira. Það þýðir að ég fæ matarklámblað inn um lúguna hvern mánuð. Ég er ekki lítið að hlakka til. Þrátt fyrir að hafa þessa gleðiviðbót þýðir það ekki að ég sakni ekki Jóhannesar. Dagurinn er bara ekki samur án hans, sérstaklega ekki á kvöldin þegar við erum vön að fara yfir daginn og spjalla saman yfir kvöldmatnum. Afkvæmið spyr líka mikið um pabba sinn og það er erfitt að útskýra fyrir næstum því 18 mánaða gömlu barni að pabbi sé að labba á fjall í Afríku. Það eina sem hún skilur er „pabbi labba” sem meikar ekki mikinn sens fyrir svona lítinn koll. Þrátt fyrir dýrahljóðin í mér og teiknað fjall (sem gera hana bara meira ringlaða). Hún stendur sig annars vel og við mæðgur höfum það eins gott og við getum haft það svona miðað við. Ég hugsa bara á hverjum einasta degi sem ég er ein að ég er a) ekki einstæð móðir, b) ekki kona sjómanns sem fer í langa veiðitúra um ýg höf og c) ekki kona hermanns sem er í burtu í jafnvel hálft ár og kemur kannski ekki til baka. Veit ekki hvernig þessar fjölskyldur fara að.
Að lokum minni ég á áheitasíðuna hans Jóhannesar. Hann er búinn að safna um 700 dölum sem er bara ansi flott. Hann langar að safna 1000 dölum og ef einhver á smáaur aflögu þá væri nú ekki ónýtt að gleðja hann. Ég mun senda honum sms ef eitthvað bætist við. Kærar þakkir þið sem eruð nú þegar búin að styrkja hann (þ.e. górillurnar)!