Skapvonda heilsubeljan

Ég borða nánast stöðugt allan daginn, ég hef verið kölluð hestur, íkorni og belja af samstarfsfólki (sem meinti ekki að ég liti út eins og belja heldur borðaði eins og belja, sko allan daginn og lítið í einu, væri alltaf japlandi á einhverju). Mér fannst reyndar hrikalegt að vera kölluð belja á fyrsta mánuði vinnu minnar í London fyrir nokkrum árum. Einn sagði við mig "You graze like a cow" (þú nartar eins og belja) sem ég tók auðvitað sem að ég væri eins og belja, fannst hann frekar dónalegur. Komst svo að því seinna að þetta var alls ekki illa meint og ég fyrirgaf honum.

En já ég borða að minnsta kosti á 2ja tíma fresti og stundum oftar. Ég borða ekki mikið í einu og borða mig aldrei pakksadda því mér finnst það óþægilegt. Ég fór allt í einu að velta fyrir mér hvað ef ég væri að vinna einhvers staðar þar sem ég MÆTTI ekki borða á vinnustaðnum? Sumir vinnustaðir leyfa hreinlega ekki mat við tölvurnar. Skil það svo sem þar sem ég þarf reglulega að losa lyklaborðið mitt af mylsnum og molum, þá hvolfi ég lyklaborðinu og myndarleg matarhrúga safnast upp á borðinu (ok ég ýki kannski aðeins). Skjárinn lendir dálítið í því líka, er iðulega með slettur og skvettur á sér og oftar en ekki þarf ég að kroppa eitthvað af tökkunum á lyklaborðinu.

Þegar ég fer á fundi út í bæ í London (vegalengdirnar eru nokkuð langar stundum) þá er ég alltaf með appelsínusafa, ávaxtastöng, hnetur, þurrkaða ávexti og jafnvel banana með mér. Ok ég er með fáránlega lágan blóðsykur en það hefur lagast heilmikið með því að borða svona lítið í einu og oft, heldur honum stöðugum. Ég lenti í því hér áður fyrr að vera nánast í dái einhver staðar þar sem ég gat ekki hreyft mig fyrr en ég fékk eitthvað að borða (gleymdi stundum að borða) og ég man eftir 2 skiptum sem Jóhannes kom að mér (eitt skipti í hlöðu í hesthúsinu og einu sinni í gamla Myndlista- og Handíðaskólanum þar sem ég lá bara, böðuð í köldum svita, í skjálftakasti, algerlega máttlaus og gat mig hvergi hreyft og ég rétt gat hvíslað að honum að hann þyrfti að fara og kaupa eitthvað handa mér NÚÚÚÚNA eða ég myndi drepa hann með mínum köldu, sveittu höndum. Um leið og ég fékk t.d. ávaxtasafa þá var ég spræk aftur (og blíð og góð). Mikil kaffidrykkja á þessum árum hjálpaði nú ekki heldur). Man eftir því að einu sinni var ég að keppa í hindrunarstökki og skildi ekkert í því afhverju ég datt svona oft af baki (var nú ekki vön því sko) en ég datt að minnsta kosti 4 sinnum. Fattaði svo að ég var ekki búin að borða í 12 tíma og bara drekka kaffi. Hmmmm var 14 ára þannig að mikið vatn (kaffi) hefur runnið til sjávar síðan og löngu hætt í þessu rugli.

Ein af ástæðunum fyrir því líka að ég þarf að passa mig á því að borða er að skapið í mér versnar svo hrottalega ef ég verð svöng eða ef blóðsykurinn er lágur. Jóhannes hótar að skilja mig eftir einvers staðar ef ég borða ekki (svona eins og er gert við litlu börnin stundum) eða ef ég tek ekki með mér "öryggismat". Honum finnst ég eitthvað leiðinlegt víst ef ég er svona hí hí. Ég er nefnilega með 2 persónuleika þ.e. svanga Sigrún (djöfullinn) og ósvanga Sigrún (ekki kannski engill en alla vega ekki djöfull). Ég er frekar róleg svona yfirleitt en það breytist heldur betur ef ég passa mig ekki. Þetta er ættgengt því Borgar bróðir er svona líka (áfengi getur víst gert hlutina verri he he). Þetta kallast bara lágur blóðsykur á íslensku (reactive hypoglecemia á ensku) og tengist víst insúlíni sem er jú hormón og breytir því skapinu ef ójafnvægi kemst á. Hreyfing hjálpar líka mjög mikið og þetta snarbreyttist eftir að ég byrjaði í líkamsrækt fyrir mörgum árum.

Það er bara svo asnalegt að vera með töskuna fulla af mat þegar maður opnar hana fyrir framan viðskiptavini á fundum, stundum er horft ofan í pokann minn og nokkrar augabrúnir lyftast! Ég tek fullan poka af nesti með mér á hverjum degi í vinnuna. Ég tek til dæmis soðin egg (borða reyndar bara eggjahvíturnar), hrískökur, epli, banana, appelsínur, vínber, salöt, þurrkaða ávexti, alls kyns afganga frá kvöldmatnum kvöldinu áður, gulrætur, hnetur og margt fleira. Ég kaupi ALDREI, ALDREI tilbúinn mat og örbylgjuofna legg ég hatur á (mér finnst ástæðan vera augljós og felast í nafninu þ.e. ör- BYLGJUR, er ein af þeim sem treysti ekki örbylgjuofnum, löng saga). Það verður líka allt of auðvelt og freistandi að kaupa tilbúna rétti og henda þeim í örbylgjuna þannig að ég sleppi því bara. Talandi um skyndimat þá lifa Bretar á honum. Það er ENGINN á mínum vinnustað (11 manns) sem tekur með sér nesti að heiman, það kaupa allir tilbúinn mat, í bakka, til að hita í örbylgjunni. Enda eru Bretar að verða feitasta þjóð í heimi og bresk börn eru orðin þau feitustu í heimi. Skelfilegt ástand og ég vona að Jamie Oliver nái að bjarga þjóðinni. Einn sem ég vinn með, strákur um 25 ára borðar ALDREI af leirtaui þ.e. af hörðum diskum því hann borðar einungis skyndibitamat. Hann hefur aldrei eldað mat á ævi sinni og stefnir ekki á það. Það stefnir hins vegar í slæman farveg hvað mittismál varðar! Honum hefur aldrei dottið í hug að spá í næringarinnihald og hann er afar ánægður með rjómasósurnar sínar, svínapylsurnar, beikonið, djúpsteikta fiskinn og franskarnar, flögurnar, kexið og allt í þeim dúr. Hann veit ekki hvað hitaeiningar eru og er alveg sama um þær (hann ætti alveg að spá í þær samt). Nefni þetta bara því við erum svo á algjörlega öndverðum meiði hvað mataræði og heilsuhugleiðingar varða, við erum eins svart og hvítt og mögulegt er (sem betur fer).

En já ég myndi held ég hreinlega deyja ef ég mætti ekki borða við tölvuna. Ég veit líka að Jóhannes myndi fara í verkfall á sínum vinnustað, held að það sé nokkuð ljóst.

Erum annars í góðu yfirlæti hjá Smára bróður og Önnu Stínu á Íslandi og fáum æðislega hollt og gott að borða enda fyrirmyndar heilsufólk og þau elda bara hollan og góðan mat. Hér verð ég næstu 2 vikurnar að vinna en Jóhannes fer heim í dag, mánudag :(

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig Finnsdóttir
09. maí. 2005

hæ þetta var aldeilis lesning ég er buin að koma Jóhannesi á flugvöllinn eigum við ekki að reyna að hafa sushi áður en þu ferð ?? bara í miðri viku S og AS geta komið lika en þu veist að föstyud og laugard eru oftast uppteknir hjá mér kv mamma.

Anna Stína
17. maí. 2005

HÆ PÆ - ég væri alveg til í að komast til þeirra í mat úr því að þau elda bara hollt og gott, virðist alveg fyrirmyndarfólk :-) Annars er ég sammála með nestið - að sjálfsögðu á maður að nesta sig áður en farið er í vinnuna; sérstaklega ef maður kemst bara í einhvern skyndibita í næsta nágrenni. Mundu bara að þegar fólk er að horfa svona á nestið manns er það yfirleitt forvitni og öfund !! Það hefur ekki hugmyndaflugið til að fatta að td. döðlur og gulrætur eru æðislegar með í nestisboxið. Greyin !!