Bloggið

Ekki lengur grasekkja

Veiiii Jóhannes er kominn heim. Hann og Borgar komu áðan og lá bara vel á þeim. Jóhannes keypti handa mér fullt af skálum og dóti fyrir CafeSigrun sem ég hlakka auðvitað til að nota og svo fékk ég matreiðslubók sem heitir The Swahilian kitchen. Held að sé óeðlilegt hvað ég verð glöð að fá nýjar matreiðslubækur og hversu mikið ég hlakka til að skoða þær. Að halda á óskoðaðri, nýrri matreiðslubók er fyrir mig eins og fyrir dópista sennilega að halda á sprautunál með heróíni, svona næstum því.

En já talandi um tilhlökkun. Ég horfði á nýja heilsuþáttinn á Skjá einum (í gegnum netið) og var full tilhlökkunar enda búin að fylgjast dáldið með þessum 10 grunnreglum þeirra, finnst þær sniðugar að mörgu leyti. Ok ég vil helst ekki setja út á þetta framlag því það er mjög flott og þarft. Ég set hins vegar nokkur spurningarmerki við innihaldið og framsetningu. Ég er ekkert að tala um skemmtigildi þáttarins né frammistöðu þáttarstjórnanda sem mér finnst ekki vera aðalatriðið (íslenskir þættir bara ERU pínlegir, svo pínlegir að ég held um magann stundum ef ég horfi á þá. Ég horfi það sjaldan á sjónvarp að kannski er þetta allt pínlegt en ég fæ ekki þessa tilfinningu í gegnum breska þætti).

Sko. Þegar fólk er að umturna mataræðinu sínu, kannski frá grunni, eftir 30 ár, þá eiga rúsínur í vatni EKKI eftir að heilla sem eitthvað girnilegt. Meira að segja mér finnst það ógeðslegt. Niðurskorin epli í sítrónusafa eiga heldur ekki eftir að heilla fólk sem er vant því að borða kannski 100 gr af súkkulaði eða 200 gr af lakkrís á dag. Það þarf að trappa það niður og t.d. ávaxtakonfekt (úr þurrkuðum ávöxtum og hnetum, eða grillaðir niðurskornir bananar með carob bitum, alls kyns jógúrt/berja drykkir o.s.frv.) væri heppilegra sem fyrsta skref (finnst mér persónulega allavega).

Talað var um að strásæta væri eitur. Strásæta eins og Aspartam hefur verið margrannsökuð í tugi ára og aldrei neitt komið fram sem bendir til þess að það sé hættulegt líkamanum (nema það sé borðað í bílförmum, á dag). Upplýsingar er hægt að finna t.d. á Vísindavef Háskólans. Sykursjúkir borða til dæmis strásætu eins og aspartam og þessar tugir milljóna sykursjúkra í heiminum myndu vera í eiturefnaáfalli á hverjum degi miðað við hversu rosalega eitruð strásætan á að vera. Það er ekki svo. Ég hef notað hana í 15 ár og aldrei orðið meint af. Ástæðan fyrir því að ég nota strásætu í mat er til að fækka hitaeiningum ef ég vil gera eitthvað sætt.

Í þættinum er talað um að nota Xylitol en ekki megi nota ávaxtasykur. Hvoru tveggja hefur svipaðan áhrif á blóðsykur, fer hægt út í blóðið og ávaxtasykur finnst jú í öllum ávöxtum (en er óunninn þar að vísu). Ég sé ekki afhverju eigi ekki að nota ávaxtasykur í stað xylitols þar sem t.d. mikil neysla xylitols getur haft slæmar afleiðingar á magann (mikill niðurgangur). Ég hef oft notað xylitol og það er fínt en mér finnst ávaxtasykurinn líka heppilegur. Það er heldur ekki gott að mínu mati að ráðleggja fólki sem er að reyna að létta sig að nota xylitol því það eru jafn margar hitaeiningar í xylitol og venjulegum sykri (þó maður noti 30% minna af honum en venjulegum sykri). Það er fullt af fólki sem er að spá í að breyta um lífstíl og mataræði og horfir á þáttinn og heldur að xylitol sé 'megrandi'. Það er ekki svo. Xylitol er líka skaðræðisdýrt, dollan sem þau héldu á í þættinum er á 600 krónur!!! Fyrir fólk með lítið á milli handanna er þetta varla raunhæfur möguleiki.

Annað, í þættinum var mælt með því að nota hunang en ávaxtasykur og hunang er voða svipað að uppbyggingu svo ég veit ekki alveg afhverju hunangið á að vera betra? Mér finnst rosa gott að nota lífrænt byggsíróp og lífrænt hrísgrjónasíróp úr brúnum hrísgrjónum en það var ekkert minnst á þannig sætuefni.

Æi eins og ég segi þá á ég ekki að vera að röfla yfir einhverju svona framtaki, sem er glæsilegt og hugmyndin er flott. Ég held bara, að eftir að hafa verið með vefinn minn núna í 4 ár, þá finnst mér bara mikilvægt að sýna fólki að hægt sé að elda góðan og hollan mat, jafnvel kökur og að þetta sé samt girnilegt. Bara afsakið, rúsínur í vatni eru ekki að gera sig fyrir mig og ég er ekki viss um að fólk sem hefur lifað á óhollustu í 40 ár hoppi hæð sína af gleði yfir þeim. Þetta er þó aðeins mín persónulega skoðun og ekki taka mark á þeim frekar en þið viljið :)

Ok, hætti að röfla núna, ætla að skoða Swahilian Kitchen bókina mína. Furðulegt hvað safnast að mér afrískar uppskriftabækur þennan mánuðinn hí hí.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Tindinum náð og Jóhannes á leiðinni heim

Í hnotskurn gekk allt vel hjá Jóhannesi og co, allir náðu tindinum (Lenana tindinum í 4598 m hæð) þrátt fyrir að Jóhannes væri lasinn, með hita o.s.frv. Hann segir ferðasöguna þegar hann kemur til baka. Hann kemur á morgun veiiiiiii. Hlakka svo til.

Fór í vinnuna áðan en var send heim :( þeim fannst ég eitthvað lasleg.

Var samt glöð að ég fór í vinnuna því ég var búin að panta bók af Amazon sem heitir RAW (hráfæði). Ég ætla nú ekki að fara að éta hráfæði en það er rosa gaman að skoða þessa bók og þessar pælingar. Jóhannes keypti líka handa mér Thai Food. A Journey for food lovers. Hún er æææææææðiiiisslleeeeeg. Ég á bók úr sömu seríu sem er frá Indlandi og hún er frábær. Er búin að eignast 4 matreiðslubækur í þessum mánuði, nokkuð gott. Þarf bara að passa að hnerra ekki á blaðsíðurnar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ekki minn dagur

Þetta var ekki minn dagur í dag, alveg á hreinu. í fyrsta lagi er ég með hálsbólgu og hita, ég verð rosa sjaldan lasin, varð síðast lasin í Afríku, í júlí á síðasta ári. Ég fór í ræktina í morgun (hélt að mér myndi líða betur, ekki spyrja mig afhverju). Mér leið ekkert betur, ég var eins og drusla. En jæja eftir að hafa verið svona dugleg ákvað ég að verðlauna mig með góðum latte, átti það alveg skilið. Gymmið okkar er í verslunarmiðstöð sem er á Oxford Street og í verslunarmiðstöðinni, á 2. hæð fyrir neðan gymmið er sem sagt Starbucks. Ég trítlaði þangað. Það gek nú ekki betur en svo að ég hrundi niður stigann. Ok, ekki alveg, ég datt niður um eina tröppu. Þetta var furðulegt, það var eins og ég hafi gleymt að nota hægri fótinn eða eitthvað því ég datt fram fyrir mig, á gólfið, báða lófana og á hægra hnéð. Það var mikið lán að ég lenti ekki á vinstra hnénu, það var nógu aumt eftir ræktina. Ég er reyndar vön því að "lenda" eftir fall þ.e. ég vandist því þegar ég flaug af hrossum, hjólum, skíðum o.s.frv. hér í gamla daga að hugsa um, í fallinu, hvernig best væri að lenda. Það sem maður gerir er að ákvarða hvar þykkasta beinið eða þykkasti vöðvinn er og reyna að lenda þar, snúa sér í loftinu. Það hefur oft komið sér vel en ég var eitthvað sein að hugsa (ég fattaði hreinlega ekki að ég hefði dottið fyrr en ég lá með nefið ofan í gólfinu). Ég lenti BEINT á hægra hnénu og báðum lófunum (og pínu á nefinu). Það var fullt af fólki sem sá þetta og kímdi þegar það sá að var allt í lagi með mig. Strákurinn sem kom aðvífandi (einn af öryggisvörðunum) spurði mig hvort að væri allt í lagi með mig "Já já" sagði ég með nefið ofan í trégólfinu (sem betur fer ekki steingólf). "Ég er bara svo sein að hugsa". Svipurinn á stráknum var þannig að ég VEIT að hann var að hugsa "Ok maður þarf nú ekki doktorsgráðu til að labba niður stiga... en hún er svo sem ljóshærð....". Æi, ég fékk mér bara kaffi og trítlaði heim, blá á hægra hnén og aum á því vinstra, hóstandi og aumingjaleg.

Þegar ég kom heim opnaði ég hurðina (hún er rosa þung) en þurfti eitthvað að halda henni meðan ég var að setja töskuna á bakið en það gekk ekki betur en svo að hún skall á hægri sköflunginn á mér þannig að nú er stærðarinnar kúla, og mar þar. Hægri fóturinn er orðinn nokkuð litríkur eftir daginn.

Þar sem ég get aldrei verið kyrr, ekki einu sinni þegar ég er lasin (mígreni er það eina sem kyrrsetur mig, svona yfirleitt) og þar sem það er enginn til að stoppa mig því ég er ein heima, þá ákvað ég fyrst að þrífa alla íbúðina hátt og lágt og svo fór ég að búa til Muesli orkustöng svo að ég ætti eitthvað gott í frystinum. Ég skar mig auðvitað, nema hvað :( Slasaði mig þó ekkert á ryksugunni. Furðulegt.

Ég ákvað að það væri komið gott í bili og ætla að taka því rólega það sem eftir er kvöldsins. Ég fer ekki í vinnuna á morgun, er enn þá með hita og hósta svo ég ætla að slappa af bara, eða reyna það allavega.

Jóhannes og co ættu núna að vera komin upp í 2. búðir, sem heita Shiptons Camp (4200m hæð) og á morgun ættu þau að leggja af stað á Lenana tindinn (4895m). Hlakka til að heyra frá honum aftur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jóhannes á Mt. Kenya

Jæja þá er kjeeeeelllllinnnn farinn að príla. Fékk sms áðan þar sem hann var staddur einhvers staðar í hlíðum Mt. Kenya. Það gengur rosa vel, hópurinn er mjög fínn víst og Jóhannes er voða glaður að geta notað allt fína dótið sitt sem hann keypti. Hlakka svooo til að fá ferðasöguna. Á meðan er ég bara með hálsbólgu dauðans, heyrist ekkert í mér. Komst reyndar ekki að því fyrr en áðan, fór í labbitúr og í nokkrar heilsubúðir og á einum stað endaði ég á því að skrifa niður á blað það sem mig vantaði, það heyrðist ekkert í mér. Fyndið að hafa verið svoleiðis í kannski heilan dag án þess að fatta það, það er jú enginn heima nema ég svo enginn að tala við. Ég er ekki en af þeim sem talar við sjálfa sig. He he. Fyndið því mér er ekkert illt í hálsinum, hann er bara lokaður.

Allavega, bara að láta vita að gengur vel hjá Jóa spóa, skrifa meiri fréttir af honum ef einhverjar verða.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Afríska kaffihúsið

Veiiiiii. Einn sem ég vinn með hér í London var að koma úr fríi frá Suður Afríku (hann er þaðan) og kom með æðislegu uppskriftabók handa mér sem heitir The African Cafe. Hún fékkst í pínulítilli bókabúð í Cape Town og er samin af þeim sem reka samnefnt kaffihús þar í borg þ.e. The African Cafe. Ég á aðra Suður-afríska matreiðslubók sem ég keypti í Nairobi, Kenya og þessi er ekki síðri. Blanda af alls kyns skemmtilegum réttum, með flottum myndum (sem mér finnst alltaf nauðsynlegt) og ég á örugglega eftir að prófa mig áfram og láta ykkur vita hvernig gekk. Held að aumingja strákurinn hafi verið orðinn þreyttur á mér því ég er alltaf að spyrja hann um matarmenningu Suður-Afríkubúa, hvað mamma hans eldi, hvað uppáhaldsmaturinn hans sé, hvort að sé hægt að kaupa Suður-afrískan mat í London o.s.frv. Ég legg þessar spurningar alltaf fyrir alla sem koma frá löndum með aðra matarmenningu en ég þekki. Finnst svo gaman að vita allt um hvað fólk eldar og hvers vegna það eldar matinn sem það eldar! Held að þessi bók eigi að þagga niður í mér. Hún gerir það allavega þangað til ég fer að prófa mig áfram hí hí. Þessi bók er annars vandfundin því hún fæst ekki á Amazon eða í bókabúðum almennt. Það finnst mér æði. Ég hef nefnilega lagt það í vana minn að kaupa matreiðslubók úr hverju því landi/borg sem ég heimsæki og á orðið ansi gott safn. Þessi er reyndar smá svindl þar sem ég hef ekki komið til Suður-Afríku (þó það sé á dagskránni). Það var annars frábært að fá þessa bók núna því Jóhannes er farinn til Afríku og þá get ég dúllað mér í að skoða þessa skemmtilegu bók.

Er annars að bíða eftir matreiðslubók af Amazon um hráfæði. Hlakka rosa mikið til að fá hana, á að vera rosa góð. Átti að koma í dag en kemur líklega ekki fyrr en í næstu viku sem er dáldið svekkjandi. Er alveg hætt að stóla á Amazon varðandi tíma, það virðist alltaf klikka!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hann á ammæl' í daaaag

Til hamingju með afmælið JG og hafðu það gott á afmælisdaginn.

Verst að missa af kökuboðinu :(

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sigga Saga Class

Ég er nú meiri dekurdúkkan. Ég er sem sagt komin út aftur, til London. Þegar ég flaug á laugardagsmorgninum síðastliðnum þá var ég sérdeilis heppin því vinur minn (kalla hann bara Beib svo hann lendi ekki í vandræðum hí hí) (you know who you are :)) var að innrita. Hann var BÚINN að innrita mig þegar ég kom á völlinn, greip töskuna mína, merkti hana með öllum þeim merkimiðum sem til voru, Saga Class, Business Class, Handle with Care og ég veit ekki hvað. Ekki nóg með það heldur fékk ég boð í Saga Lounge þar sem maður getur fengið sér eitthvað að drekka og svona (með fína fólkinu, ekki sama hvar maður drekkur djúsinn sko). Svooo var ég leidd til sætis á Saga Class (með fylgd Beib sko) og þar var heldur betur dekrað við mig. Jeminn. Mér leið eins og prinsessu í hásæti. Svo er líka minni ókyrrð í Saga Class, ég sver það. Pöpullinn aftur í hristist en ég sat bara í hásætinu mínu án þess að haggast. Ég gæti svoooooooo vanist þessu get ég sagt ykkur.

Mér fannst eins og ætti að vera rauður dregill og móttökunefnd þegar ég kom á Heathrow en ég held að ég hafi nú bara verið komin aðeins of langt fram úr mér þar. Ég celeb spottaði nefnilega á Heathrow, sá Jerry Hall, fyrrverandi konuna hans Mick Jagger og mér fannst umsvifalaust eins og við ættum að vera að 'hanga saman', ég var nú einu sinni eins og celeb sjálf sko, miðað við þjónustuna. Ég labbaði rosa nálægt henni og fannst ég vera alveg í 'rétta félagsskapnum'. Hún leit annars hroðalega illa út og ég var smá stund að átta mig á því hver þetta var.

Þetta var annars fín ferð, ég náði 3 sushiboðum (fæ vonandi myndir síðar og ég þarf að blogga rækilega um nýja sushistaðinn í Iðu - er ekki kát) og við Beib bökuðum fullt af hollu dóti, fengum okkur hollt að borða, fórum á kaffihús og höfðum það rosa fínt. Gott að hafa góðan félagsskap þegar maður er svona einn. Þá hefur Jóhannes líka minni áhyggjur af mér.

 Takk fyrir mig Beib, knús, knús, knús.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Skemmtileg heimsókn

Jæja þá er aldeilis skemmtilegri heimsókn lokið. Það var rosa gaman að fá Jónsa og Auðun (http://www.audunol.com/) í heimsókn. Við höfum aldrei fengið gesti sem hafa verið jafn áhugasamir um mat og matargerð en þá tvo. Ekkert SMÁÁÁ gaman. Greyin þeir koma samt ekki í bráð held ég aftur he he. Þvílíkt sem þeim var pískað út og þeir keyrðir áfram í þéttri dagskrá, vaktir upp snemma og haldið lengi fram eftir í "matreiðslunámskeiðum". Við gerðum bara ótrúlega margt á þessum 4 dögum. Það voru til dæmis veitingastaðir (m.a. Gallipoli (Tyrkneskur), Sri Thai (Thailenskur), Gili Gulu (sushi), indverskur staður (því miður ekki Punjab því það var fullt) og leynistaðurinn okkar Jónsa sem Jóhannes og Auðun áttu ekki að fá að vita um (en við vorum dáldið vitlaus því við tókum mynd af okkur svo það var ekki leyndó lengi :() Svo var farið á kaffihús, t.d., Vergniano, Starbucks, Coffee Republic, Tinderbox og strákarnir fóru svo á einhverja staði á Camden, og svo var auðvitað Espresso Joe (http://www.urbanmania.com/kaffi/) í fullum gangi við góðan orðstír. Það sem við borðuðum svo á CafeSigrun var svo ekkert lítið. Greyið strákarnir þorðu ekki að segja annað en mmm ahhh, frábært, goooottttt o.s.frv því annars hefði þeim verið hent út. Var sem sagt ekki alveg hlutlaust álit á því sem ég var að búa til he he.

Við smökkuðum/gerðum t.d. Tandoori kjúkling, salat og bygghrísgrjón ásamt snittubrauði (hollu auðvitað), biscottibrauð með pistachiohnetum og appelsínukeim, súkkulaði-kirsuberjabiscotti, kryddaðar skonsur með þurrkuðum ávöxtum, brauðbollur með hirsi, sólþurrkuðum tómötum o.fl., bananamöffins, ostaköku með bláberjum, mango-kókosís, kiwi-ananasjógúrtís o.fl. Svo gerðum við margt fleira eins og prófuðum sykurlausan jógúrtís á Muffinskis, fórum í nokkrar heilsubúðir (Planet Organic og Fresh & Wild og fórum með nokkrar bænir þar inni (svona heilsubænir)), japönsku sushibúðina, fórum í fatabúðir, skóbúðir og strákarnir fóru svo sjálfir að versla eitthvað fínt. Þar sem ég fór í gærmorgun til Íslands þá missti ég af þeim á Camden markaðnum, Portabello markaðnum og Spitalfields markaðnum því miður, fannst það mjög leiðinlegt.

Greyin koma ekki úthvíldir heim, held það sé nokkuð ljóst

Er annars skíthrædd um að birtist mynd af mér í Séð og Heyrt eða DV þar sem ítrekað var reynt að ná af mér mynd fyrir framan skítabúllur eins og Burger King, McDonalds, Angus Steakhouse o.fl. Jeminn. Sé fyrir mér fyrirsagnir eins og "Heilsudrottning afhjúpuð....... hvað er RAUNVERULEGA á matseðlinum hjá CafeSigrun" eða "CafeSigrun, sannleikurinn um mataræðið, heilsuna og lífstílinn". Það náðist líka hér um bil mynd af mér með 4 bjóra í fanginu og ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma he he (þeir voru ekki ætlaðir til eigin inntöku þó).

En já gestirnir okkar voru fyrirmyndargestir og skemmtilegir í þokkabót, við viljum endilega fá þá aftur en held að þeir verði alveg mánuð að jafna sig á þessu öllu saman :) Takk fyrir komuna Auðun og Jónsi!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Norski læknirinn umhyggjusami

Já ég fór í endurkomu í gær, út af hnénu. Það gekk svo sem vel, þó hnéð mætti alveg vera betra. Ég stend í 10 mínútur á sama stað og get ekki beygt hnéð á eftir. Ég hélt að þetta tæki 6 vikur og svo væri ég farin að hlaupa og klifra á fjöll og ég veit ekki hvað. Það á að skoða hnéð aftur eftir 3 mánuði og einnig þarf kannski að mynda hitt hnéð. Það sem læknirinn skilur ekki er hvers vegna þetta gerist þar sem ég er í góðu formi líkamlega, er ekki með gigt og allt virðist í lagi svona á yfirborðinu. Ég er ALLT OF ung til að svona eigi að geta gerst. Ég nennti ekki að útskýra fyrir honum skautaslys, vélsleðaslys, hrossaslys (milljón), hjólaskautaslys, reiðhjólaslys, fimleikaslys og mörg önnur slys. Hann taldi ólíklegt að þeir hefðu getað lagað skemmdina þar sem ég væri ekki enn þá orðin góð. Við sjáum hvað setur. Nú fer ég að byrja í sjúkraþjálfun og svoleiðis rugli þannig að þetta hlýtur að koma allt saman. 

Annars var læknirinn sem skoðaði mig í gær ekki Abdúllah eða hvað hann hét sá loðni, indverski sem gerði aðgerðina. Er farin að hallast að því að hann hafi, í aðgerðinni misst hár af handleggnum eða augabrúnunum eða skegginu eða höfðinu eða bringunni eða hálsinum eða eyrunum, úr nefinu eða bakinu þess vegna (hann var MJÖG loðinn), ofan í sárið og það sé þess vegna sem hnéð er ekki orðið almennilegt he he.

En já í gær hitti ég annan lækni, ungan, norskan, ljóshærðan mann (svona týpískur maður sem fólk hér í London segir um "já hann er svona víkingslegur" eins og sagt er um Jóhannes) með rosa sterkan hreim. Hann var alveg fínn sko. Hann benti mér á að reyna að fara í sund en ég benti honum á í staðinn að ég kæmi frá Íslandi þannig að það væri ekki fræðilegur séns í helvíti að ég færi að synda um í þessum köldu bakteríupollum sem eru í boði hér. Hann skildi mig reyndar vel.

Anyway, hann potaði í mig og meiddi mig eins og lækna er siður og þegar ég var að fara, staðfesti hann við mig heimilisfangið eins og er alltaf gert. Já ég kvaðst búa í þessari götu. Svo sagði hann, "já fín gata"? Þar sem venjan er að tsjitttsjatta um ekki merkilegri hluti en hvar maður býr og veðrið hér í UK (ekki margt hægt að tala um annað við ókunnuga) þá spáði ég ekkert í það og sagði "já, fín gata nema þegar er brotist inn til manns". Ég er EKKI að grínast, maðurinn hoppaði upp úr stólnum!! "HAAA ,VAR BROTIST INN?????" "ööö já sagði ég, dáldið MIKIÐ hissa á viðbrögðunum". Næstu 15 mínútur fóru í það að hann spurði mig í þaula, með áhyggjusvip um innbrotið, undanfara, hvernig ég hefði komið að því, hvað lögreglan hefði sagt o.s.frv. Hann fórnaði höndum, greip um höfuðið á sér, stundi, dæsti, iðaði í stólnum og sagði hluti eins og "nei, trúi þessu ekki, en hræðilegt", "hvað segirðu bara, jesús minn" og "daginn fyrir aðgerðina? þú hefðir getað verið ein heima þegar þeir komu" og blah blah. Ég benti honum á að það væru 25 milljón öryggismyndavélar í heiminum og 10% af þeim í Bretlandi og að það væri ekki EIN myndavél í okkar götu. Við það hélt ég að hann færi bara að gráta. Á þessum tímapunkti var mér hætt að standa á sama um umhyggjusemi læknisins, hann var búinn að spyrja okkur hvað við störfuðum við, hvaða dót við hefðum keypt, hversu mikið tjónið hefði verið, hvort við hefðum verið heima o.s.frv. Mér varð hugsað til einnar sem ég þekki heima á Íslandi sem á mann sem lærði læknisfræði í Noregi. Hafði hugsað mér að hafa samband við hana og spyrja hana um "umhyggjusemiskúrsinn" sem maðurinn hennar hefði sennilega þurft að taka. Ég sagði lækninum líka að eldhússkærin okkar hefðu verið tekin og ég uppskar "NEI NEI NEI en hræðilegt, ERTU BARA að segja mér satt" við það. Hér var ég var farin að iða svolítið í sætinu, orðin svona "jæææææææja.....má ég faaaaara núna". Svo kom löng þögn. Svona óþægileg þögn því ég vissi ekki afhverju hann var svona voðalega umhyggjusamur og áhyggjufullur, hvort hann væri eitthvað skrýtin, svona voða góður inn við beinið eða hvað eiginlega gekk að honum. Svo segir hann upp úr þurru...."ég á sko heima í sömu götu". Furðulegt hvað umhyggjusemin getur verið raunveruleg þegar málið snertir mann sjálfan. "Þetta er svo róleg gata, hvernig getur þetta gerst?" sagði hann ennfremur. Ég sagði honum bara að tryggja sig vel og loka gluggum og læsa hurðum. Samt fyndið í 8 milljón manna borg að skurðlæknirinn manns búi í sömu götu.

O jæja, ég losnaði loksins frá honum og ég er viss um að fólkið á biðstofunni hafi haldið að það hafi verið eitthvað mikið að hjá mér vegna óhljóðanna sem komu úr lækninum...alveg frá dýpstu hjartarótum...með tilfinningu og allt saman.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Fullt af nýjum uppskriftum á CafeSigrun

Datt í hug að birta uppskriftirnar sem ég er búin að vera að búa til síðasta mánuð eða svo (ykkur til skemmtunar og fróðleiks he he). Þetta eru sem sagt uppskriftirnar sem ég hef verið að senda út á póstlistanum mínum: Eins gott að æfa sig þar sem Jónsi og Auðun (www.audunol.com) eru að koma til London!!! Það er margt planað, m.a. Indverjamarkaður (krydd), Spitalfields markaðurinn, milljón heilsubúðir, kaffihús, búðarráp, söngleikur, út að borða á Gili Gulu, út að borða á Gallipoli og jafnvel fleira. Þar sem þeir eru aðal stuðningsmenn CafeSigrun (aðallega Jónsi sem bakar þangað til hann sprengir ofna og fyrir utan Jóhannes sem er yfirsmakkari á öllu) þá er margt planað í eldhúsinu.

Meðal annars verður smakkaður indverskur tandoori kjúklingaréttur með bygggrjónum og salati ásamt bláberjaostaköku í eftirmat. Við ætlum að búa til (og/eða smakka það sem ég á í frysti) flapjack, súkkulaðibiscotti með kirsuberjum og möndlum, mangó-kókosís, kiwi-ananasjógúrtís, sólskinskúlu, bananamöffins, epla-hnetumöffins eða bláberja-valhnetumöffins (eða bæði :)), kryddaðar skonsur með þurrkuðum ávöxtum, nýbakað brauð og margt fleira!!! Veiiii það er svo gaman að hafa fólk í eldhúsinu sem finnst gaman að baka og búa til hollt.

En já, hér eru uppskriftirnar sem ég er búin að vera að dútla við í síðasta mánuði:

Gulrótar- og bananakaka: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_236

Grískar möndlukökur: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_237

Jógúrtís með ananas og kiwi: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_238

Mangó- og kókosís: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_239

Pistasjóbrauð með appelsínukeim: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_240

Gulrótarbrauð með sólþurrkuðum tómötum og hirsi: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=1#uppskrift_242

Carobhrískökur: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_241

Gult linsubaunamauk: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=9#uppskrift_243

Vanillubiomjólkurís: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_244

Súkkulaðikrem á köku: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_245

Súkkulaðibiscotti með möndlum og þurrkuðum kirsuberjum: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_246

Súkkulaðimús með tofu (enginn rjómi né smjör), hentar fyrir fólk með mjólkuróþol: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_247

Ferskur túnfiskur með eggjanúðlum: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=4#uppskrift_248

Sólskinskúlur (veitir ekkert af þessa dagana!!): www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_249 Var líka að bæta við fleiri myndum við nokkrar eldri uppskriftir ef þið hafið áhuga á að skoða:

Bananamöffins: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_88

Súkkulaðimöffins: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_95

Kryddað kjúklinga- og vínberjasalat: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=3#uppskrift_131

Döðlubrauð: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_122

Flap Jack/Muesli orkustöng: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_162

Kókosbrauðbollur: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=1#uppskrift_231

Döðlusulta: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=9#uppskrift_235

Djúsí kaka með hnetum og ávöxtum: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_181

Starbuckssamloka (holl): www.cafesigrun.com/index.php?ufl=9#uppskrift_60

Fitulítið súkkulaðikaka: www.cafesigrun.com/index.php?ufl=2#uppskrift_245

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It