Útsölumatur og afgangar fyrir gyðinga

GyðingasprætÞessi pistill er nú bara til að ítreka fáfræði mína varðandi trúarbrögð en eins og allir vita þá er ég sennilega sú manneskja sem er minnst trúuð af öllum, í heiminum. Ég trúi á vini mína, fjölskyldu, menntun, heilbrigt líferni, náttúruna, dýrin og sjálfa mig (svona stundum). Ekki einu sinni REYNA að fá mig til að útskýra HVAÐ náttúran er eða HVAR hún byrjaði (svona eins og ein skólasystir Jóhannesar í Westminster sem hélt því fram að guð hefði sko VÍST „plantað risaeðlunum á jörðina“).

Allavega þegar við fluttum fyrst til Bretlands, árið 2001 þá tókum við eftir því í búðunum um þetta leyti árs að það var verið að selja vörur sem voru á hebresku (og öðru hrognamáli eflaust). Það voru settir upp sérstakir standar (svipaðir og tilboðsstandar) og t.d. var Sprite, Coca Cola og alls kyns kex sérstaklega merkt á hebresku. Þetta var nú svo sem ekki merkilegt nema að fyrir ofan þennan „tilboðsstand“ stóð “Passover“ og stundum “Jewish Passover“ (sem er víst ekki það sama) sem mér finnst svo líkt „Leftover“ (afgangar). Mér fannst eitthvað ægilega glatað við það að gyðingum væri boðið upp afganga eða útrunnar vörur og verið að auglýsa það í þokkabót!!! Mér fannst gyðingar búnir að þola nóg í gegnum tíðina sko.

Á hverju ári klóruðum við okkur í kollinum yfir þessu (en gerðum að sjálfsögðu ekkert í því að fræða okkur um þetta mál) og árin liðu og núna fyrst veit ég lauslega hvað Passover er og það hefur ekkert með afganga eða útrunnar vörur að gera. Ég vinn sem sagt með nokkrum Gyðingum og þeir eru núna í sínu Passover fríi. Svona í stuttu máli þá er Passover hátíð gyðinga til að halda upp á frelsun þeirra frá Egyptum fyrir um 3500 árum. Þeir þurfa að borða sérstakan “Kosher“ mat og það felur í sér til dæmis að þeir mega ekki borða neina fiskafurð aðra en þá sem hefur tálkn og ugga, mega til dæmis ekki borða rækjur eða humar. “Kosher“ þýðir „Það sem er rétt og fylgir reglunum“. Það eru mjög ákveðnar reglur um hvað fólk má borða (t.d. má ekki borða dýr með klaufir og ekki áðurnefndar rækjur), það má ekki blanda saman mjólk og kjöti og það verða að vera 3 tímar á milli þess sem fólk borðar mjólk og kjöt og svo framvegis. Þetta þýðir að það má ekki borða ís strax á eftir kjötmáltíð sem tryggir það að Jóhannes tekur ALDREI upp gyðingatrú, það er nokkuð ljóst (Jóhannes er sá sem kemst næstur mér í trúleysi, góð saman að klóra okkur í hausnum yfir afgöngunum fyrir gyðinga sko).

Það sniðugusta held ég við að vera gyðingur er að maður getur farið heim fyrir sólsetur á föstudögum (Til heiðurs einhverjum Sabbath dúd). Í Ísrael og fleiri stöðum lokar allt fyrir sólsetur á föstudögum og opnar ekki fyrr en á sunnudegi. Að „heiðra Sabbath“ þýðir líka að maður má ekki „valda því að einhver annar vinni. Það þýðir líklegast að það er bannað að handleggsbrjóta sig á laugardögum??? En spáið í það að geta farið heim fyrir sólsetur, sérstaklega á veturna á Íslandi, maður væri bara í vinnunni um það bil 2 tíma eða svo á föstudögum. Reyndar væri það ekki gott yfir sumartímann, maður væri kannski bara allan sólarhringinn í vinnunni.

Er að spá í að segja þeim hérna í vinnunni að ég fylgi Ásatrú og ég þurfi trúarinnar vegna að fara heim alla daga kl 4 til að tilbiðja Þór og Óðinn en að mjög mikilvægt sé að fara heim kl 2 á föstudögum. Það er jú í lögum að fyrirtæki eigi að aðlaga sig að trúarbrögðum fólks hí hí. Sjáum til.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig Finnsdóttir
25. apr. 2005

hæ ekki veit ég hvort er betra kaffi og appelsinusafi eða kaffi og hangikjöt en ég mundi kjósa kaffi og hangikjöt en það er satt Jóhannes getur ekki gerst gyðingur hann getur ekki beðið í 3 tíma ef hann veit að er til ís. Haltu áfram að skrifa svona það er svo gaman að lesa það sem þú ert að hugsa. Já gleðilegt sumar og allt það bless mamma