Kaffi og appelsínur
Hafið þið prófað að drekka appelsínusafa og kaffi strax þar á eftir? Oj. Það er eins glötuð samsetning eins og að drekka kaffi strax á eftir hangikjöti (þó að það sé langt síðan ég borðaði hangikjöt þá man ég enn vonda bragðið). Nú veit ég ekki hvort ég er að misskilja eitthvað, hvort maður eigi bara að drekka appelsínusafann þegar maður er búinn að borða og drekka kaffið fyrst eða hvort maður eigi að drekka kaffið síðast. Það eru aldrei neinar leiðbeiningar sko og mér finnst fólk í bíómyndum alveg drekka appelsínusafa og kaffi í belg og biðu án þess að spá í það. Mér finnst alltaf öruggast að drekka appelsínusafann með morgunmatnum og drekka svo kaffið, allra síðast en vandinn er að á hótelum þá fær maður oft kaffi í bollann um leið og maður fær appelsínusafann í glas og þá er þetta orðið flókið því ég vil drekka kaffið mitt heitt (og ég meina sjóðandi heitt). Þá þarf ég að drekka kaffið fyrst en það er glatað að drekka kaffi á fastandi maga og bragðkirtlarnir mínir eru bara ekki vel undirbúnir undir svona kaffiárás áður en þeir fá mat til að hugsa um. Svo þá er ég komin í klípu; sleppi ég kaffinu, drekk ég það á fastandi maga eða drekk ég það eftir matinn þegar það er orðið kalt (því ég borða frekar mikið á morgnana og borða frekar hægt). Þetta er rosaleg klípa. Já þau eru mörg vandamál heimsins sko.
Ég vona að gestirnir okkar (Gróa móðursystir mín og Sigga dóttir hennar) fyrirgefi okkur þó við setjum þessa hallærissamsetningu á borðið (þ.e. kaffi og appelsínusafa, ekki kaffi og hangikjöt). Eftir allt saman, þá er voða notalegt að sjá kaffi og appelsínusafa á morgunverðarborðinu, það er jú alltaf svoleiðis í bíómyndunum. Annars er ég spennt að vita hvort einhver þekkir verri bragðsamsetningu en kaffi/appelsínusafa eða kaffi/hangikjöt??