Bláberjaostakaka
10. maí, 2003
Þessi uppskrift er nánast sú sama og að Ostakökunni með gríska jógúrtinu og pistachiohnetunum hérna á síðunni. Athugið að best er að útbúa kökuna deginum áður og leyfa henni að kólna í 12 klst.
Ég bætti bara bláberjum út í ostablönduna og sleppti pistachiohnetunum. Ég nota yfirleitt aldrei smurosta eða rjómaosta í mat en geri undantekningu með þessa köku því hún er svo hrikalega góð. Þessi ostakaka er líka hollasta alvöru ostakaka sem þið getið búið til. Athugið að ef þið hafið hnetuofnæmi, skuluð þið nota muesli. Þessi kaka er ein af mínum allra uppáhalds og hún hefur ekki svikið mig hingað til.
Athugið einnig að þið þurfið lausbotna 26 sm kökuform fyrir uppskriftina.
Þessi uppskrift er:
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Bláberjaostakaka
1 kaka fyrir 10-12
Innihald
- 200 g gróft hafrakex eða speltkex úr heilsubúð
- 50 g muesli (eða annað muesli án viðbætts sykurs)
- 2,5 msk kókosolía
- 5 msk hreinn appelsínusafi (eða meira eftir þörfum)
- 500 g Philadelphia Light (rjómaostur)
- 250 g hreint skyr
- 3 stór egg
- 3 msk hlynsíróp
- 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 100 g fersk (ekki frosin) bláber eða 3 msk bláberjasulta, án viðbætts sykurs
- 200 g grísk jógúrt
- 200 ml bláberjasulta án viðbætts sykurs
Aðferð
- Fyrst skuluð þið byrja á því að búa til botninn:
- Setjið kexið og muesliið í matvinnsluvél og malið alveg þangað til það er orðið að dufti. Einnig má setja kexið í poka og fara með kökukefli yfir. Setjið mulninginn í skál. Dreypið kókosolíunni og appelsínusafanum yfir með teskeið. Hrærið vel. Gætið þess að mulningurinn sé „rakur” þ.e. að hægt sé að klípa mulninginn saman án þess að vera blautur eða grautarkenndur. Bætið meiri appelsínusafa við ef þið teljið þurfa.
- Klæðið 26 sm bökunarform (með lausum botni) með bökunarpappír (þannig að hann fari upp á brún). Setjið mulninginn í botninn og þrýstið honum vel niður með fingrunum. Gott er að leggja plastfilmu ofan á svo að mulningurinn festist ekki á höndunum. Bakið við 150°C í 20 mínútur.
- Á meðan botninn er að bakast skuluð þið undirbúa fyllinguna:
- Setjið í hrærivélaskál (einnig má nota handhrærivél) rjómaostinn, skyrið, egg, hlynsíróp og vanilludropa. Hrærið í 10 sekúndur eða þangað til fyllingin er silkimjúk.
- Bætið bláberjunum varlega saman við og hrærið þangað til berin hafa dreifst vel en ekki þannig að kakan verði fjólublá. Ef þið notið 3 msk af sultu, hrærið þá með gaffli nokkrar hreyfingar, gætið þess sérstaklega að hræra ekki of mikið.
- Takið botninn úr ofninum, kælið í um 10 mínútur og hellið fyllingunni svo út í. Bakið við 150°C í 40-45 mínútur. Það getur verið að þurfi að baka hana skemur (fer eftir ofninum). Potið varlega í miðju kökunnar, ef hún virkar ekki þétt, þá þarf að baka hana lengur. Hún ætti að vera svolítið mjúk í miðjunni en ekki hlaupkennd. Ef hún er hlaupkennd, bakið hana þá í 10 mínútur í viðbót. Kakan stífnar svo þegar hún kólnar. Ef þið þurfið að baka hana lengur en 55 mínútur eða ef hún er farin að dökkna um of eftir 40 mínútur), setjið þá álpappír yfir kökuna. Athugið að kakan getur verið dyntótt með tíma því ég þurfti einu sinni að baka hana í 1,5 tíma en yfirleitt nægja 50 mínútur.
- Slökkvið á ofninum og leyfið ostakökunni að kólna alveg inn í honum (gjarnan yfir nótt).
- Þegar ostakakan er orðin köld, smyrjið þá jógúrtinni yfir og leyfið kökunni að standa í ísskáp eins lengi og þið getið, allt að 2 tíma ef það er mögulegt, helst lengur.
- Því næst skal setja afganginn af bláberjasultunni ofan á. Smyrjið varlega svo að jógúrt og sulta blandist ekki saman. (Ástæðan fyrir því að gott er að láta jógúrtina stífna ofan á kökunni í dálítinn tíma).
Gott að hafa í huga
- Það er fínt að gera þessa köku daginn áður en á að nota hana því hún verður bara betri ef maður geymir hana í einn dag.
- Kakan geymist í um 3 daga í ísskáp
- Einnig er hægt að nota alls kyns önnur ber/sultur en bláber/bláberjasultu t.d. rifsber, hindber, blönduð ber o.fl.
- Ef þið búið ekki til ykkar eigið hafrakex, kaupið þá úr heilsubúð. Venjuleg hafrakex eru yfirleitt mjög óholl þó nafnið gefi annað til kynna.
- Ef þið búið ekki til ykkar eigið muesli, kaupið þá úr heilsubúð eða kaupið muesli án viðbætts sykurs.
- Ef þið fáið ekki fitulitla gríska jógúrt, má sía hreina jógúrt í gegnum grisju eða hreint viskustykki í nokkrar klukkustundir. Gott er að setja viskustykki yfir skál og festa með teygju. Hellið jógúrtinni út í og látið bíða þangað til undanrennan hefur skilið sig frá (hún lekur ofan í skálina).
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
27. maí. 2011
Væri hægt að hafa pecan eða pistasíu hnetur inní þessari uppskrift? Hvernig væri þeim þá bætt inní?
27. maí. 2011
Ertu að meina í staðinn fyrir kexið eða eitthvað annað hráefni?
27. maí. 2011
Er að meina bara með því, kannski 50/50 af kexi og hnetum eða setja hneturnar í ostinn?
28. maí. 2011
Þú getur notað fínt malaðar hnetur á móti kexinu (t.d. 50/50) en verða að vera fínt malaðar og getur sett gróft saxaðar hnetur út í ostinn (nota sama magn af osti samt).
Kv.
Sigrún
07. jún. 2011
Já ég prufa það! Takk fyrir. Btw pistasíu/kókos konfektið með trönuberjunum er algjört æði :)
07. jún. 2011
Gaman að heyra :)