Bláberjadrykkur með kókosvatni

Hvað get ég sagt…...ef keppt væri í hollustu drykkja (svona eins og í t.d. 100 m hlaupi) þá væri þessi drykkur í fyrsta sæti (og sennilega öðru og þriðja líka). Hann fengi einnig heiðursverðlaun í hollustu. Bláberin eru full af andoxunarefnum sem hjálpa til við að sporna gegn krabbameini, og drykkurinn inniheldur kókosvatn sem er svo dæmalaust gott fyrir okkur, potassíum sem hjálpar hjartanu sem og að halda blóðþrýstingnum í lagi. Hann inniheldur líka sesammauk sem inniheldur fullt af kalki, kopar og járni svo fátt eitt sé nefnt. Koparinn er mikilvægur fyrir þá sem hafa gigt eða eru slæmir í liðunum.

Athugið að blandara þarf til að útbúa drykkinn. Ef þið hafið fræofnæmi má sleppa sesammaukinu.


Einn hollasti drykkur sem til er

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Bláberjadrykkur með kókosvatni

Fyrir 2

Innihald

  • 100 g frosin bláber (eða fersk)
  • 200 ml ískalt kókosvatn (enska: coconut water)
  • 1 vel þroskaður banani (eða pera)
  • 4 tsk agavesíróp
  • 2 tsk sesammauk (tahini)

Aðferð

  1. Setjið bláberin í blandarann ásamt kókosvatninu. Blandið í 5 sekúndur.
  2. Afhýðið bananann og setjið í blandarann ásamt agavesírópi og sesammauki. Blandið í 20 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  3. Ef þið notið fersk en ekki frosin bláber er gott að setja nokkra ísmola í blandarann með drykknum.

Gott að hafa í huga

  • Kókosvatn og tahini fæst í heilsubúðum og í heilsuhillum matvöruverslana.

Ummæli um uppskriftina

Hildur
06. ágú. 2011

Þessi drykkur er frábær - geri hann oft og reyni að drekka hann ekki of hratt svo ég geti notið hans lengur. Dóttir mín sem er tæplega tveggja ára er líka komin á bragðið :) Takk fyrir frábæran vef.

sigrun
06. ágú. 2011

Ji en frábært að lesa :) Sérstaklega að dóttur þinni líki drykkurinn vel því börn eru jú oft hörðustu gagnrýnendurnir :)