Bláberja- og valhnetumuffins

Þessa uppskrift fann ég í Living etc. (húsablað) sem ég var áskrifandi að hérna í London (einn kosturinn við að búa&;í London&;er að maður getur verið áskrifandi að fullt af blöðum fyrir lítinn pening.

Ég held að ég verði að setja þessa muffinsa nálægt efsta sætinu hjá mér því mér finnst þeir alveg rosalega góðir. Ég breytti uppskriftinni samt aðeins úr Living etc. því hún var svolítið óholl þar. Að geta notað fersk bláber er auðvitað bara það besta í heimi en ef maður getur það ekki er best að kaupa fersk bláber. Bláber eru eitt það hollasta sem maður getur borðað vegna andoxunarefna (og þau innihalda líka C vítamín og járn) og valhnetur ekki síður hollar (t.d. fyrir hjartað). Athugið að uppskriftin er frekar stór (16 stykki).

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Bláberja- og valhnetumuffins

Gerir um 14-16 muffins

Innihald

 • 390 g spelti
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1,5 tsk kanill
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 30 ml agavesíróp
 • 3 eggjahvítur
 • 250 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 1 msk kókosolía
 • 60 g valhnetur, saxaðar gróft
 • 200 g fersk eða frosin bláber (ef frosin, mega berin ekki þiðna)
 • 75-100 ml sojamjólk eða önnur mjólk (notið aðeins 50 ml þið notið frosin bláber)

Aðferð

 1. Saxið valhneturnar gróft.
 2. Sigtið saman í stóra skál; spelti, lyftiduft, salt og kanil. Hrærið vel.
 3. Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggjahvítum, hrásykri, agavesírópi, barnamat, 50 ml af sojamjólkinni og kókosolíu. Hrærið vel.
 4. Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið saman. Rétt svo veltið deiginu við en ekki hræra.
 5. Bætið söxuð valhnetunum út í og veltið deiginu til nokkrum sinnum.
 6. Blandið frosnu eða fersku bláberjunum varlega saman við, hrærið eins lítið og hægt er (bara 4-5 hreyfingar). Ef deigið er mjög þurrt (mikið af spelti sjáanlegt enn þá) bætið þá meiri sojamjólk saman við.
 7. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
 8. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 9. Bakið við 180°C  í 30-35 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Gætið þess að bláberin þiðni ekki áður en þau eru sett í deigið. Hrærið eins lítið og hægt er því annars verður deigið öskrandi fjólublátt og ógirnilegt!
 • Saxa má valhnetur smátt og dreifa ofan á muffinsana.
 • Nota má pecanhnetur í staðinn fyrir valhnetur.
 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.

Ummæli um uppskriftina

Ásta Hrund
15. júl. 2011

Þessi uppskrift er mjög girnileg. En hvað á að vera mikil kókosolía? (það kemur ekki fram í "Innihald" en samkvæmt "Aðferð" þá á að vera kókosolía). Hlakka til að prufa þessar :)

sigrun
16. júl. 2011

Búin að lagfæra, vonandi gengur baksturinn vel :)

Ásta Hrund
19. júl. 2011

Baksturinn gekk mjög vel takk og ég get aldeilis mælt með þessum, ekkert smá góðir. Vinsælir hjá bæði stórum og smáum :)

sigrun
19. júl. 2011

Æði, takk fyrir að deila :)

Hildur
03. nóv. 2011

Ég ætla að prófa þessar fyrir barnaafmæli um helgina en þar sem nokkrir gestir þola illa hnetur ætla ég að sleppa þeim. Mælir þú með að stækka þá berjaskammtinn eða getur þú mælt með e-u í staðinn fyrir hneturnar?

sigrun
03. nóv. 2011

Ég myndi ekki stækka berjaskammtinn því muffinsarnir verða of 'blautir' þannig og leiðinlegt að halda á þeim. Ef gestirnir mega borða kókos (ath að kókoshnetur eru ekki 'hnetur' heldur fræ) myndi ég nota svolítið af kókos í staðinn fyrir hneturnar. Svo er spurning um að gera frekar bananamuffinsa eða gera bláberja- og bananamuffinsa (myndi fylgja bananamuffins uppskriftinni, taka einn banana út og nota um 75 g af bláberjum í staðinn). Vona að þetta hjálpi eitthvað....