Bláberja- og bananaís
23. ágúst, 2009
Bláber og bananar. Namm. Þessi ís er mjólkurlaus og eggjalaus og hentar því vel fólki með þess konar óþol..hann er líka góður þó maður hafi ekkert óþol og er sérlega hollur. Hann er próteinríkur, járnríkur, pakkfullur af andoxunarefnum, inniheldur holla fitu en er samt sætur. Svo er ísinn alveg dæmalaust fjólublár og fallegur.
Leggið cashewhneturnar í bleyti í sólarhring áður en þið búið ísinn til. Athugið að nauðsynlegt er að eiga matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift en ekki er nauðsynlegt að eiga ísvél.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Bláberja- og bananaís
Gerir 1 lítra
Innihald
- 200 g bláber (fersk eða frosin)
- 90 ml agavesíróp
- 1 tsk sítrónusafi
- 75 g cashewhnetur, lagðar í bleyti í sólarhring
- 300 ml sojamjólk eða önnur mjólk
- 3 msk kókosolía
- 100 g döðlur, saxaðar gróft
- 1 vel þroskaður banani
Aðferð
- Sjóðið bláberin í agavesírópi og sítrónusafa í nokkrar mínútur. Kælið vel.
- Saxið döðlurnar gróft.
- Hellið vatninu af cashewhnetunum. Maukið cashewhneturnar í matvinnsluvél í um 2 mínútur eða þangað til alveg mjúkar og maukaðar.
- Bætið 100 ml af mjólkinni út í og blandið áfram þangað til blandan líkist súrmjólk að þykkt.
- Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og maukið áfram í 30 sekúndur.
- Bætið döðlunum út í og maukið áfram.
- Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og maukið áfram í 30 sekúndur.
- Blandið afgangnum af mjólkinni og kókosolíunni saman við.
- Setjið bananann út í og maukið vel.
- Hellið helmingnum af bláberjamaukinu út í matvinnsluvélina og blandið í nokkrar sekúndur.
- Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 20 mínútur og setjið svo í plastbox. Hrærið afganginum af bláberjablöndunni út í boxið með skafti á matskeið. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
- Ef ekki er notuð ísvél:
Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Eftir um 2 klukkustundir skuluð þið hræra afganginum af bláberjablöndunni út í boxið með skafti á matskeið. Frystið. - Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.
Gott að hafa í huga
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Hálffrosinn ís er frábær sem íshristingur (sjeik). Blandið í nokkrar sekúndur í blandara, með mjólk.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Nota má önnur ber í staðinn fyrir bláber.
- Athugið að gera má hráfæðisútgáfu af þessum ís með því að nota heimatilbúna möndlu- eða hnetumjólk og sleppa suðunni á bláberjunum. Maukið bláberin í blandara eða matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og agavesírópi.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024