Biscotti með pistachiohnetum og appelsínukeim
15. janúar, 2006
Þessar biscotti kökur eru meiriháttar góðar með kaffinu, frábærar til að dýfa í teið eða kaffið. Þær eru líka frekar hollar en pistachio hneturnar innihalda holla, einómettaða fitu sem er góð fyrir hjartað. Það er engin fita í kökunum fyrir utan eggjarauðan sem inniheldur vítamín o.fl. sem er gott fyrir okkur (í hófi). 
Ég geri reglulega heilan helling af þessum biscotti kökum og á í langan tíma (nema Jóhannes finni boxið). Athugið að best er að nota fínmalað spelti og fínmalaðan hrásykur. Yfirleitt nota ég rapadura hrásykur í allan minn bakstur en mér finnst hann ekki passa í biscotti.
Athugið að appelsínubragðið er frekar sterkt þegar kökurnar eru nýbakaðar en það dofnar á öðrum degi og verður betra (að mínu mati). 
Svo gott með kaffinu, biscotti með pistachiohnetum og appelsínukeim
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Biscotti með pistachiohnetum og appelsínukeim
Gerir 12-15 kökur
Innihald
- 220 g spelti
- 0,5 tsk engifer
- 1 egg
- 110 g hrásykur, fínmalaður ef þið finnið svoleiðis
- 1 tsk mjög fínt rifinn appelsínubörkur
- 110 g ósaltaðar pistachiohnetur, saxaðar smátt
- Nokkrar matskeiðar af vatni ef þarf
Aðferð
- Rífið appelsínubörkinn mjög fínt á rifjárni. Gætið þess að rífa einungis appelsínugula börkinn og ekki hvíta hýðið fyrir innan.
- Saxið pistachiohneturnar smátt.
- Í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti og engifer. Hrærið vel.
- Í annarri skál skuluð þið hræra saman egg og hrásykri ásamt vanilludropum. Hrærið vel þannig að sykurinn nái að bráðna svolítið.
- Bætið eggjablöndunni saman við speltið og hrærið þangað til allt blandast vel saman. Hér gæti þurft að bæta við svolitlu af köldu vatni (matskeið í einu) til að blandan verði nægilega blaut. Hún má samt ekki vera klístruð heldur þarf að vera þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist við allt. Mér finnst gott að miða við að deigið sé eins og leir.
- Bætið söxuðu pistachio hnetunum saman við og hrærið/hnoðið deigið vel. Einnig má nota deigkrók og hrærivél.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og fletjið deigið út þannig að þið fáið u.þ.b. 12 sm breiðan og 22 sm langan hleif sem er um 1-1.5 sm á hæð.
- Bakið hleifinn við 160°C í um 30-40 mínútur eða þangað til hleifurinn er orðið nógu harður til að hægt sé að skera hann.
- Takið hleifinn úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið hleifinn á ská í þunnar sneiðar (1 sm) með flugbeittum brauðhníf. Skerið varlega til að pistachiohneturnar brotni ekki úr deiginu.
- Dreifið sneiðunum á bökunarpappírinn, setjið aftur inn í ofn og bakið í 10-15 mínútur.
- Snúið sneiðunum við og slökkvið á ofninum og leyfið þeim að kólna inni í ofninum (ef þið eruð ekki með blástursofn er gott að opna ofninn).
- Gætið þess að biscotti kökurnar brenni ekki á þessum tímapunkti og takið það út ef sneiðarnar eru orðnar mjög dökkar.
- Athugið að sneiðarnar eru mjúkar á þessum tímapunkti en munu harðna við að kólna. Ef þær harðna ekki má baka þær í nokkrar mínútur til viðbótar.
- Geymið í lokuðu íláti.
Gott að hafa í huga
- Ef pistachiohneturnar eru saltar, má skola af þeim saltið og láta þær þorna.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
16. feb. 2011
Sæl Sigrún
Ég var að búa til þetta deig og svo stendur "hnoðið aðeins" ... er það hægt? þetta kom út eins og marens deig hjá mér.
Annars er hleifurinn í ofninum núna og ég bíð spennt... gerði kryddbrauð frá þér í gær og það var mjög gott ;)
Takk fyrir mig
16. feb. 2011
Sæl, gaman að heyra að kryddbrauðið hafi verið gott :)
Varðandi deigið þá hef ég aldrei bakað marengs svo ég veit ekki alveg hvernig áferðin á því er.  Ég geri þó ráð fyrir að þú sért að meina að deigið hafi verið of blautt? Það eina sem mér dettur í hug er að eggjahvíturnar hafi verið stórar (ég nota ávallt meðalstærð nema annað sé tekið fram) og deigið hafi því verið aðeins of blautt. Það gæti verið að þú þyrftir að baka biscotti-ið aðeins lengur í staðinn svo það verði ekki mjúkt/gúmmíkennt.
Vona að þetta hjálpi.
Kv.
Sigrún