Biscotti með pistachiohnetum

Ég elska biscotti. Það er handhægt (passar vel í t.d. nestisbox og bakpoka), geymist vel, er frekar auðvelt að búa til og er bara nokkuð hollt. Að minnsta kosti er mín útgáfa af biscotti nokkuð holl. Þau biscotti sem fást á kaffihúsum eru yfirleitt dekkhlaðin sykri svo ég myndi aldrei í lífinu kaupa svoleiðis.

Athugið að best er að nota fínmalað spelti og fínmalaðan hrásykur ef þið finnið svoleiðis. Ég nota yfirleitt rapadura hrásykur í allan minn bakstur en finnst hann ekki passa í biscotti.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Biscotti með pistachiohnetum

Gerir um 12 sneiðar

Innihald

  • 240 g spelti, fínmalað
  • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 110 g hrásykur, fínmalaður
  • 1 egg
  • 75 g pistachiohnetur (ósaltaðar)
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 4 msk kalt vatn

Aðferð

  1. Saxið pistachihneturnar frekar smátt.
  2. Sigtið saman í stóra skál spelti og lyftiduft.
  3. Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggi, vanilludropum og hrásykri ásamt svolitlu af vatni til að leysa upp sykurinn.
  4. Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og hrærið þangað til eggið hefur blandast vel speltinu. Hér þarf að bæta við smávegis af köldu vatni (matskeið í einu) til að blandan verði nægilega blaut. Hún má samt ekki vera klístruð heldur þarf að vera þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist við allt. Mér finnst gott að miða við að deigið sé eins og leir.
  5. Bætið pistachiohnetunum saman við og hnoðið vel. Einnig er gott að nota deigkrók og hrærivél.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  7. Setjið deigið á bökunarpappírinn og fletjið út þannig að þið fáið u.þ.b. 12 sm breiðan og 22 sm langan hleif sem er um 1 - 1,5 sm á hæð.
  8. Bakið við 160°C í um 30-40 eða þangað til hleifurinn er orðið nógu harður til að hægt sé að skera hann.
  9. Takið úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið skáhallt í þunnar sneiðar (1 sm) með flugbeittum brauðhnífi. Skerið varlega svo að hleifurinn brotni ekki.
  10. Dreifið sneiðunum á bökunarpappírinn, setjið aftur inn í ofn og bakið í 10-15 mínútur.
  11. Snúið sneiðunum við, slökkvið á ofninum og leyfið biscotti kökunum að kólna inni í ofninum. Ef sneiðarnar eru orðnar dökkar skuluð þið taka þær út en ef ekki má láta þær kólna inni í ofninum.
  12. Athugið að sneiðarnar eru mjúkar á þessum tímapunkti en munu harðna við að kólna. Ef þær harðna ekki má baka þær í nokkrar mínútur til viðbótar.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið finnið ekki ósaltaðar pistachio hnetur má skola saltið af þeim og láta þær þorna.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.