Biscotti með macadamiahnetum og trönuberjum

Þessar biscottikökur eru alveg hreint dásamlega ljúfar. Maður getur sleppt appelsínuberkinum ef maður vill og þá eru þeir enn þá mildari á bragðið. Þessar tvíbökuðu kökur (bi-scotti) eru pakkfullar af C vítamíni (því trönuber og appelsínur eru jú rík af C vítamíni) og macadamiahneturnar innihalda kalk, prótein og holla, einómettaða fitu. Þessar biscotti kökur eru held ég hinar fullkomnustu „meðkaffinuásunnudegikökur” sem til eru og eru líka einstaklega jólalegar svona ef þið viljið baka jólalegar biscotti kökur.


Ægilegar góðar biscotti kökur, upplagðar með kaffinu

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Biscotti með macadamiahnetum og trönuberjum

Gerir 10-12 kökur

Innihald

  • 240 g spelti, fínmalað
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 110 g hrásykur (fínmalaður ef þið finnið svoleiðis)
  • 1 egg
  • 40 g macadamia hnetur, saxaðar gróft
  • 40 g þurrkuð trönuber (úr heilsubúð)
  • Appelsínubörkur af ¼ appelsínu, rifinn fínt (má sleppa)
  • 2 msk appelsínusafi (eða kalt vatn)
  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð

  1. Saxið macadamiahneturnar gróft.
  2. Rífið appelsínubörkinn frekar fínt á rifjárni.
  3. Sigtið saman spelti og lyftidufti í stóra skál.
  4. Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggi, vanilludropum og hrásykri. Hrærið vel. Bætið vatninu út í svo að sykurinn leysist vel upp.
  5. Bætið eggjablöndunni saman við speltið og hrærið þangað til allt blandast vel saman. Hér gæti þurft að bæta við svolitlu af appelsínusafa eða köldu vatni (matskeið í einu) til að blandan verði nægilega blaut. Hún má samt ekki vera klístruð heldur þarf að vera þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist við allt. Mér finnst gott að miða við að deigið sé eins og leir.
  6. Bætið söxuðu hnetunum, appelsínuberkinum og trönuberjunum saman við og hnoðið deigið vel. Einnig má nota deigkrók og hrærivél.
  7. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og fletjið deigið út þannig að þið fáið u.þ.b. 12 sm breiðan og 22 sm langan hleif sem er um 1-1,5 sm á hæð.
  8. Bakið hleifinn við 160°C í um 30-40 mínútur eða þangað til hleifurinn er orðið nógu harður til að hægt sé að skera hann.
  9. Takið hleifinn úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið hleifinn á ská í þunnar sneiðar (1 sm) með flugbeittum brauðhnífi. Skerið varlega til að hneturnar brotni ekki úr deiginu.
  10. Dreifið sneiðunum á bökunarpappírinn, setjið aftur inn í ofn og bakið í 10-15 mínútur.
  11. Snúið sneiðunum við og slökkvið á ofninum og leyfið þeim að kólna inni í ofninum (ef þið eruð ekki með blástursofn er gott að opna ofninn).
  12. Gætið þess að biscotti kökurnar brenni ekki á þessum tímapunkti og takið þær út ef sneiðarnar eru orðnar mjög dökkar.
  13. Athugið að sneiðarnar eru frekar mjúkar á þessum tímapunkti en munu harðna við að kólna. Ef þær harðna ekki má baka þær í nokkrar mínútur til viðbótar.
  14. Geymið í lokuðu íláti.

Gott að hafa í huga

  • Gott að hafa í huga
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Nota má hvítt súkkulaði (með hrásykri) í staðinn fyrir macadamiahneturnar.
  • Nota má Brasilíuhnetur eða möndlur í staðinn fyrir macadamihneturnar.
  • Athugið að þurrkuð trönuber geta verið sykurbætt svo kaupið þau í heilsubúð ef þið getið.