Baunaréttur frá Rwanda

Þegar ég var í Rwanda febrúar 2008 hitti ég stúlku að nafni Nadine í bænum Ruhengeri sem er við rætur Virunga fjallanna. Ég spurði hana hvað Rwandabúar borðuðu helst og hún svaraði: Baunir, grænmeti, kartöflur og maís hvers dags en kjöt spari. Hún nefndi pintóbaunir, kartöflur, sellerí og fleira úr uppskrift frá mömmu sinni og uppskrift þessi varð til úr þeim upplýsingum. Baunir eru mikið notaðar í Rwanda og ekki síst vegna þess að kjöt er frekar lítið borðað enda kannski ekki á færi allra að kaupa kjöt upp á hvern dag. Þessi baunaréttur er ekki svo ósvipaður Kitheri, baunaréttinum góða frá Kenya, báðir eru þeir mildir og bragðgóðir án þess að láta mikið yfir sér. Fínustu grænmetisréttir svona þegar maður á ekki of mikið í ísskápnum. Í þennan rétt má bæta við meira grænmeti eins og gulrótum, papriku, grænum baunum o.fl. svona eftir því hvað maður á. Rétturinn er bestur ef hann fær að malla í svolítinn tíma og hann er betri daginn eftir. Nauðsynlegt er að leggja pintóbaunir í bleyti að morgni til að geta búið til þennan rétt að kvöldi. Mér finnst brilliant að það sé sellerí í þessarri uppskrift frá Rwanda en eftir að hafa horft á górillu (og hlustað á hana) bryðja sellerí 2 metrum frá mér í fjöllum Rwanda get ég ekki annað en brosað þegar ég handfjatla sellerí.


Diskinn á myndinni keypti ég á markaði í Kigali höfuðborg Rwanda

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Baunaréttur frá Rwanda

Fyrir 2-3

Innihald

 • 1 bolli pintóbaunir, lagðar í bleyti (3 bolla af vatni) í 8 tíma
 • 1 stór kartafla, skorin í (sykurmólastóra) bita 
 • 3 sellerístilkar, sneiddir
 • 1 laukur, afhýddur og sneiddur þunnt
 • 1 tsk kókosolía
 • 1 gerlaus grænmetisteningur 

Aðferð

 1. Hellið vatninu af baununum og setjið þær í pott ásamt vatni þannig að rétt fljóti yfir.
 2. Látið sjóða í um 30 mínútur eða þangað til baunirnar eru orðnar meyrar en ekki mjúkar.
 3. Sneiðið sellerístilkana frekar gróft.
 4. Afhýðið kartöflurnar og skerið í bita (eins og sykurmola að stærð).
 5. Bætið selleríi, kartöflum og grænmetisteningi út í pottinn og látið malla í um 15 mínútur eða þangað til kartöflurnar eru orðnar nokkuð mjúkar en ekki alveg að mauki.
 6. Afhýðið laukinn og sneiðið frekar þunnt.
 7. Á meðan skuluð þið hita kókosolíu á stórri pönnu og steikja laukinn í 5 mínútur eða þangað til hann verður gylltur og fer að ilma, bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
 8. Hellið öllu úr pottinum á pönnuna. Látið malla í 20 mínútur eða þangað til allt fer að blandast vel saman og verða svolítið maukað (rétturinn er bestur svoleiðis).
 9. Berið fram með t.d. chapati.

Gott að hafa í huga

 • Rwandabúar nota yfirleitt cassava í svona rétti en kartöflur eru einnig notaðar.
 • Salt og annað krydd er yfirleitt notað frekar en grænmetiskraftur en til að auðvelda matreiðsluna, notaði ég grænmetistening.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.