Bananasplitt (bakaðir bananar)

Þetta er eftirréttur sem má gera annað hvort heima eða bara úti á grillinu, á ferðalaginu, upp í sumarbústað eða hvar sem er. Það er upplagt að nota heitt grillið fyrir þennan eftirrétt og ef þið eigið gamla banana, og svolítið af dökku súkkulaði, lífrænt framleiddu með hrásykri (t.d. Green & Black's) þá eruð þið í góðum málum.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur

Bananasplitt (bakaðir bananar)

Fyrir 2

Innihald

 • 2 stórir vel þroskaðir bananar
 • 50 g dökkt súkkulaði, lífrænt framleitt, brotið í ferninga
 • 2 stórar skeiðar vanilluís
 • 100 ml hrein jógúrt (má sleppa ef notaður er ís)
 • 2 msk agavesíróp (má sleppa ef notaður er ís)
 • 2 msk saxaðar hnetur að eigin vali
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

 1. Setjið hvorn banana í álpappír (þannig að það sé álpappír utan um þá en ekki ofan á).
 2. Ristið djúpan skurð, endilangt eftir banananum.
 3. Grillið í um 25 mínútur. Raðið súkkulaðinu í skurðinn og grillið í 5 mínútur. Einnig má hita bananana í ofni við 200°C í um 30 mínútur (gott að láta í eldfast mót).
 4. Ef ekki er notaður ís skuluð þið hræra saman jógúrtinni, agavesírópinu og vanilludropunum.
 5. Saxið hneturnar smátt.
 6. Takið bananana af hitanum og setjið ísinn yfir súkkulaðið eða hellið jógúrtblöndunni ofan á. 
 7. Dreifið hnetum yfir og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

 • Sumum finnst gott að nota þeyttan rjóma með bökuðum bönunum. Nota má cashewhneturjóma ef þið hafið mjólkuróþol.
 • Athugið að dökktsúkkulaði getur innihaldið mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.
 • Gott er að saxa jarðarber og setja yfir.
 • Nota má AB mjólk eða sojajógúrt í staðinn fyrir hreina jógúrt.