Bananaklattar

Þessir klattar eru glúteinlausir og mjög góðir þegar maður á doppótta og slappa banana (sem eru orðnir ofþroskaðir). Þessir kláttar eru upplagðir á sunnudagsmorgni, með kaffinu og mér finnst þeir bestir með sultu eða smá slettu af hlynsírópi. Athugið að ef þið eigið til glúteinlaust mjöl þá getið þið notað það í staðinn fyrir að búa til ykkar eigið.


Ljúfir og góðir glúteinlausir klattar sem henta í margt

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án hneta

Bananaklattar

Gerir 20-25 klatta

Innihald

  • 450 g bananar, mjög vel þroskaðir
  • 120 g hrísmjöl
  • 40 g kartöflumjöl
  • 30 g sojamjöl
  • 30 g bókhveiti
  • (einnig getið þið notað 220 g af glúteinlausu mjöli)
  • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2 msk kókosolía
  • 1 eggjahvíta
  • 1 egg
  • 4 msk agavesíróp
  • 0,5 tsk kanill (meira eftir smekk)
  • 300 ml sojamjólk

Aðferð

  1. Í stóra skál skuluð þið sigta saman hrísmjöl, kartöflumjöl, sojamjöl, bókhveiti, lyftiduft, salt og kanil.
  2. Í litla skál skuluð þið blanda saman agavesírópi, eggi, eggjahvítu, kókosolíu og 200 ml af sojamjólkinni.
  3. Afhýðið bananana og skerið í sneiðar (um 1 sm að þykkt).
  4. Hellið blautu hráefnunum yfir í stóru skálina og hrærið vel þangað til allt er kekkjalaust.
  5. Bætið afganginum af sojamjólkinni (100 ml) saman við ef þarf. Deigið á að vera eins og vöffludeig að þykkt.
  6. Bætið bananasneiðunum saman við. Hrærið varlega.
  7. Hitið pönnu í meðalhita.
  8. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið pönnuna að innan.
  9. Hitið 2-3 klatta í einu (fer eftir stærð pönnunnar). Hitið í 5-6 mínútur á hvorri hlið eða þangað til klattarnir verða gullnir.
  10. Berið fram strax, með sultu, osti, hlynsírópi eða agavesírópi.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk. Ekki er  víst að þið þurfið allan vökvann svo geymið alveg þangað til síðast
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Hægt er að frysta klattana en þeir þurfa að kólna fyrst.
  • Gott er að setja klattana í brauðrist til að hita þá upp aftur.

Ummæli um uppskriftina

María
07. mar. 2012

Sæl Sigrún og takk fyrir æðislega síðu.

Ég geri ráð fyrir að þú meinir bókhveitimjöl í stað bókhveitis? Þó að nafnið gefi það ekki til kynna er bókhveiti fræ, í laginu eins og pýramídi. Það getur verið að ég hafi rangt fyrir mér því ég sé orðið bókhveiti víða notað í stað bókhveitimjöls. Ég er alveg orðin rugluð :o) Kannski væri líka bara gaman að prófa að nota bókhveiti í klattana. Fræin sko.

Kær kveðja.

sigrun
07. mar. 2012

Bókhveitimjöl er bara bókhveiti nema annað sé tekið fram, þá tala ég um ómalað bókhveiti.

gestur
09. júl. 2014

Sæl Sigrún

Eiga klattarnir að vera nokkuð hráir að innan eða er ég mögulega ekki að steikja þá nógu lengi?

sigrun
09. júl. 2014

Nei ekki hráir. Hugsanlega ertu með of háan hita á pönnunni. Prófaðu lengri tíma og lægri hita ef þeir eru alveg tilbúnir að utan. 

gestur
09. júl. 2014

Kveðja Kolbrún

gestur
06. ágú. 2015

Sæl, er í lagi fyrir áferð að sleppa agave ? Er að taka út alla sætu og er hvort sem er lítið fyrir sætt.

sigrun
06. ágú. 2015

Já ætti að vera í lagi. Bættu aðeins við af olíunni í staðinn (t.d. 1 msk til viðbótar) og sojamjólkinni (eða þeirri mjólk sem þú kýst að nota) því sætan er vökvi og það þarf að nota eitthvað í staðinn ef hún fer út. Settu mjólkina bara út í smáum skömmtum. Einnig gætirðu notað ósættan eplagraut/eplamauk, hann er lítið sætur en gefur raka. Vona að þetta hjálpi. Kv. Sigrún