Banana-, hafra- og súkkulaðikökur

Mér var bent á þessa uppskrift af Guðrúnu Björgu, notanda CafeSigrun sem búsett er í Frakklandi. Hún eins og ég, er aðdáandi vefsíðunnar Chocolate and Zucchini og Guðrún benti mér á þessa uppskrift þaðan. Ilmurinn sem kemur þegar maður bakar þesssar!!! Maður minn. Ég breytti uppskriftinni aðeins örlítið, notaði cashewhnetur í staðinn fyrir möndlur, notaði 50 g af döðlum og minnkaði súkkulaðið um 20 gr. Einnig bætti ég við svolítilli kókosolíu. Þessar kökur eru próteinríkar, kalkríkar, innihalda holla fitu, flókin kolvetni og þær má borða jafnt í morgunmat sem með kaffinu (noti maður dökkt súkkulaði með hrásykri)! Þær eru lang bestar þegar þær eru nýkomnar út úr ofninum en mýkjast aðeins við geymslu.


Jólalegar og afar bragðgóðar smákökur

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Banana-, hafra- og súkkulaðikökur

Gerir um 35 kökur

Innihald

 • 75 g möndlumjöl (fínmalaðar möndlur)
 • 60 g cashewhnetur (eða möndlur)
 • 1,5 msk kókosolía
 • 4 bananar, vel þroskaðir (um 400 g án hýðis)
 • 0,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 50 g döðlur, saxaðar gróft
 • 200 g haframjöl
 • 35 g kókosmjöl
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 100 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, saxað gróft

Aðferð

 1. Ef þið eigið ekki möndlumjöl, malið þá möndlurnar afar fínt í matvinnsluvél (án þess að þær verði olíukenndar). Þær ættu að líta út eins og gróft mjöl. Setjið í stóra skál.
 2. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvélina og blandið í a.m.k. 1 mínútu eða þangað til hneturnar verða maukaðar. Setjið kókosolíuna út í og maukið áfram í um 1 mínútu. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og maukið áfram í 30 sekúndur.
 3. Afhýðið bananana og bætið þeim út í matvinnsluvélina ásamt vanilludropum. Maukið í um 20 sekúndur eða þangað til flaueliskennt. Smakkið til á maukinu...það er brjálæðislega gott.
 4. Saxið döðlurnar mjög smátt og setjið í stóru skálina ásamt kókosmjöli, haframjöli og salti. Hrærið vel.
 5. Hellið bananablöndunni út í stóru skálina og hrærið létt.
 6. Deigið ætti að verða frekar blautt þannig að það dropi í stórum kekkjum af skeið en ekki þannig að það renni strax af skeiðinni. Deigið ætti að vera of blautt til að hægt væri að hnoða það.
 7. Saxið súkkulaðið gróft og hrærið því varlega saman við.
 8. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
 9. Setjið 1 kúfulla matskeið af deigi fyrir hverja smáköku, á plötuna.
 10. Reynið að móta flatar, kringlóttar kökur sem eru um 5 sm í þvermál. Gott er að nota bakið á teskeið (gott að bleyta hana) eða fingurna til þess að móta kökurnar.
 11. Bakið við 180°C í 20-25 mínútur.
 12. Kökurnar ættu að verða dökkar á brúnunum þegar þær eru tilbúnar.
 13. Látið kökurnar kólna og geymið þær í lokuðu plastíláti.

 

Gott að hafa í huga

 • Nota má möndlur í staðinn fyrir cashewhnetur.
 • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur stundum mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. 
 • Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði.

Ummæli um uppskriftina

gestur
25. nóv. 2012

Ég bakaði þessar áðan og gleymdi að setja súkkulaðið út í. Kökurnar eru himneskar, fljótlegt að búa þær til og þær eru alveg geggjaðar. Svo góðar og hollar. Ég á eftir að baka þessar oft og eiga í ísskápnum til að hafa með eftirmiðdags teinu.

sigrun
25. nóv. 2012

Gaman að heyra :) Þú getur líka fryst þær og skellt þeim svo í ofninn til að hita aðeins upp :)