Bakaður byggréttur með spínati, hvítlauk og sveppum

Í þennan rétt má nota ýmislegt grænmeti eins og papriku, sellerí og fleira en einnig er hann góður eins og hann er. Skemmtilegast er að baka matinn í nokkrum, litlum eldföstum mótum og bera þannig fram fyrir matargesti en það má líka demba þessu í stórt, eldfast mót. Það er eitthvað alveg dásamlegt við bráðinn ost og grjón/bygg, finnst það alveg ferlega góð blanda. Ég borða lítið af mjólkurvörum en ostur slæðist stundum inn í svona ofnrétti. Rétturinn er léttur í maga en samt vel seðjandi því bygggið gefur góða fyllingu. Hægt er að kaupa úrvals íslenskt, lífrænt ræktað bygg (ég á að sjálfsögðu við heilt bygg (bankabygg) en ekki malað). Athugið að ef þið hafið glúteinóþol eða ofnæmi má nota hýðishrísgrjón í staðinn fyrir bygg.

Þessi réttur hentar einstaklega vel í frystihólfið og upplagt að búa til svolítið mikið af honum til að eiga síðar þegar maður hefur lítinn tíma en langar í eitthvað gott að borða.

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins

Bakaður byggréttur með spínati, hvítlauk og sveppum

Fyrir 2-3

Innihald

Fylling:

  • 2 dl soðið bygg (sjóðið 0,5 bolla á móti 2 bollum af vatni í 30 mínútur)
  • 150 g ferskir shiitake sveppir, sneiddir þunnt
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 100 g ferskt eða frosið (og þiðið) spínat
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 100 g magur ostur, rifinn

Hvítlaukssósa:

  • 3 msk sýrður rjómi, 5% (án gelatíns frá Mjólku). Einnig má nota majones
  • 1 hvítlauksgeiri, marinn eða 1 tsk hvítlaukssalt (t.d. frá Pottagöldrum)
  • 0,5 tsk salt (sleppið ef þið notið hvítlaukssalt)
  • 4 msk AB mjólk

Aðferð

  1. Sjóðið byggið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
  2. Steikið sveppina á á pönnu. Notið vatn til að steikja sveppina. Saltið eftir smekk.
  3. Ef þið notið frosið spínat, kreistið þá vatnið úr. Bætið spínatinu saman við og steikið þangað til allur vökvi er nánast farinn úr spínatinu. Setjið til hliðar.
  4. Afhýðið rauðlaukinn og saxið smátt.
  5. Hitið kókosolíu á pönnunni og steikið rauðlaukinn í nokkrar mínútur. Ef þarf meiri vökva á pönnuna notið þá vatn.
  6. Setjið laukinn í stóra skál og bætið sveppum, spínati og byggi saman við.
  7. Rífið ostinn og bætið honum út í skálina. Hrærið vel.
  8. Blandið saman í lítilli skál; sýrðum rjóma, pressuðum hvítlauk, salti og AB mjólk. Hrærið vel.
  9. Blandið hvítlaukssósunni út í stóru skálina og hrærið vel í öllu.
  10. Setjið blönduna í nokkur lítil eldföst mót eða eitt stærra (óþarfi er að smyrja mótin).
  11. Bakið við 180°C í um 20 mínútur.
  12. Berið fram salati og jafnvel meira af hvítlaukssósu.

Gott að hafa í huga

  • Í staðinn fyrir bygg má nota hýðishrísgrjón.
  • Ég nota stönglanana af shiitake sveppunum en flestir henda þeim.
  • Nota má aðra bragðmikla sveppi en shiitake sveppi.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.

Ummæli um uppskriftina

Hafdís Björk
07. feb. 2011

Sæl Sigrún, frábær síða og engin uppskrift sem ég hef prófað hefur klikkað. Mig langar svo að spyrja þig, ég er mjög tæp á mjólkurvörum og þar á meðal osti,sakna þess mikið að geta ekki borðað bráðinn ost :( var að spá hvort þú vissir ef að Parmesan ostur gæti verið betri minna af óþolsefnum í honum?
Kv. HBG

sigrun
07. feb. 2011

Sæl Hafdís :)

Hmmm ég held að parmesan ostur sé nú alveg jafn 'slæmur' fyrir þá sem hafa mjólkuróþol en það er spurning hvort að samsetning efnanna séu eitthvað öðruvísi í hörðum osti? Ég er ekki klár á því, líklega er best að spyrja næringarfræðing eða mjólkurfræðing. Þú gætir líka spurt þau í Ostabúðinni? Sumir sem hafa óþol fyrir osti geta borðað bráðinn ost en það á líklega ekki við um þig. Hefurðu prófað geitaost eða buffalo mozzarella? Kannski að það sé eitthvað sem þú gætir notað. Sumir þeir sem hafa óþol fyrir kúaafurðum geta borðað geit. Athugaðu hvort að geitaostur eða buffalo mozzarella fæst í þessum sælkerabúðum sem eru á Íslandi, upp á ef þú gætir notað það í mat. Annars er það bara sojaostur (sem getur innihaldið mjólk, athugaðu það) en hann er yfirleitt óttalegt drasl svo ég mæli yfirleitt ekki með honum.

Vona að þetta hafi hjálpað.

Kv.

Sigrún

Lára J
20. júl. 2011

Finnst þessi uppskrift mjög girnileg en eitthvað misfórst í "framleiðslu" hjá mér. Ég bý erlendis svo ég notaði grískt jógurt fyrir AB mjólkina og bygg svo var ég með freskt spínat. Þetta varð mjög blautt hjá mér og ekki alveg nógu girnilegt.
Held það þurfi bara að passa vandlega upp á að grænmetis mixið og grónin séu ekki of blautt.

og eins og ákvallt, takk kærlega fyrir frábærar uppskriftir..
kv. Lára

sigrun
20. júl. 2011

Hæ hó

Já einmitt, blandan þarf að vera mátulega 'þurr' svo að hún verði ekki ógirnileg. Léstu örugglega renna vel af bygginu? Vonandi tekst betur til næst. Þú gætir prófað að henda réttinum inn í ofn og baka lengur en við lágan hita svo að vökvinn gufi upp. Það ætti ekki að skipta máli hvort þú notar ferskt spínat eða frosið. Það eina sem mér dettur í hug er að gríska jógúrtin hafi 'skilið sig' við hitun?

ingibjorgd
13. ágú. 2011

Þessi byggréttur er alveg meiriáttar! Ég átti ekki til ferska sveppi þannig að ég notaði þurrkaða og sauð þá með bygginu, ég er ekki frá því að það hafi gefið bygginu svona indælan sveppakeim. Við hituðum réttinn síðan upp daginn eftir og hann var jafnvel bara betri ef eitthvað er:) Þessi réttur er virkilega fínn svona einn og sér en ég get líka ímyndað mér að hann sé upplagt meðlæti með fisk eða kjúklingi.

sigrun
13. ágú. 2011

Gaman að vel hafi tekist til :) Já það má örugglega nota hann sem meðlæti líka, örugglega fínt með grilliðum mat....