Avocado- og melónusalat með sítrónugrass-jógúrtsósu

Algjört dásemdar sumarsalat. Cantaloupe melónur eru pakkfullar af Beta Carotene (sem umbreytist í A vítamín í líkamanum) og C vítamínum og eru sérlega góðar fyrir heilsu augnanna. Einnig eru þær stútfullar af andoxunarefnum og sporna gegn krabbameini og hjálpa einnig til við að minnka líkur á heilablóðfalli og hjartaáföllum, pakkfullar af trefjum, potassium, fólinsýru og niacin (B3 vítamín). Einnig stuðla A vítamín að heilbrigðri lungnastarfsemi. Cantaloupe melónur hafa verið borðaðar síðan á tímum Grikkja og Rómverja! Melónurnar eru ekki það eina holla í þessu salati því kirsuberjatómatar eru líka pakkfullir af C vítamínum og innihalda efnið lycopene og ef lycopene efnið væri mennskt væri það eins konar hermenn gegn krabbameini því lycopene spornar gegn fjölda tegunda krabbameins. Avacado inniheldur svo einómettaðar fitusýrur (oleic acid) sem hjálpar til við að minnka blóðfitu, potassium sem hjálpar til við að stýra blóðþrýstingi, trefjar, fólinsýru og margt fleira gott. Allt í allt er þetta frábæra salat algjört vítamínbúst! Vá þetta var eins og þakkarræða á Óskarsverðlaunahátíð!!

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Avocado- og melónusalat með sítrónugrass-jógúrtsósu

Fyrir 4 sem meðlæti

Innihald

  • 1 cantaloupe melóna, vel þroskuð (þessar sem eru eins og klæddar neti að utan og eru grænar að innan)
  • 200 g kirsuberjatómatar
  • 2 avocado, vel þroskuð
  • 1 haus lambhagasalat

Sítrónugrass-jógúrtsósa

  • 1 stilkur sítrónugras, ystu blöð fjarlægð
  • 200 ml hreinn eplasafi
  • 1 msk sítrónusafi
  • 125 ml hrein sojajógúrt. Einnig má nota venjulega jógúrt eða AB mjólk
  • Smá klípa turmeric
  • 0.5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0.25 tsk svartur pipar

Aðferð

  1. Afhýðið melónuna og saxið í grófa en jafna ferninga. Setjið til hliðar.
  2. Sneiðið kirsuberjatómatana í helminga. Setjið til hliðar.
  3. Saxið sítrónugrasið gróft.
  4. Afhýðið avacadoin og saxið í grófa en jafna ferninga. Pakkið inn í plast svo bitarnir verði ekki brúnir.
  5. Setjið eplasafa, sítrónusafa og sítrónugrasið í lítinn pott, látið sjóða í um 5 mínútur.
  6. Látið kólna.
  7. Blandið saman jógúrti, turmerici, salti og pipar.
  8. Fjarlægið sítrónugrasið úr pottinum og hellið vökvanum út í jógúrtið. Hrærið vel.
  9. Skolið salatblöðin og raðið á mjög stóran disk eða bakka.
  10. Dreifið melónubitunum yfir salatblöðin.
  11. Dreifið avacadoinu yfir melónubitana.
  12. Dreifið kirsuberjatómötunum yfir avacadobitana.
  13. Hellið jógúrtsósunni yfir eða berið fram í sér skál.
  14. Berið fram strax (því avocadoið verður fljótt brúnt).

Gott að hafa í huga

  • Ef þið eruð rosa mikið að flýta ykkur má gera fína salatsósu með smá agavesírópi og sojajógúrti / AB mjólk / jógúrti. Kryddið eftir smekk.
  • Nota má hunang (t.d. acacia hunang) í staðinn fyrir agavesíróp.