Avocado- og hnetudrykkur

Þessi drykkur (smoothie) er í raun heil máltíð. Hann er fullur af trefjum, próteini, A, C og E vítamínum, kalki og hollri fitu. Sannkölluð vítamínsprengja. Drykkurinn hentar vel þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan) því hann er kalkríkur, próteinríkur og fullur af nauðsynlegum vítamínum en inniheldur engar mjólkurvörur.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og blandara til að útbúa þennan drykk (nema þið getið malað hneturnar í blandaranum, þá þurfið þið einungis blandarann). Einnig er vel hægt að nota matvinnsluvél eingöngu.


Svalandi, seðjandi og afar hollur drykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Avocado- og hnetudrykkur

Fyrir 2-3

Innihald

  • 6-8 Brasilíuhnetur
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1 vel þroskaður, stór banani
  • 1 vel þroskað avocado, lítið
  • 1 msk hreint hlynsíróp (eða agavesíróp)
  • 300 ml sojamjólk (eða undanrenna)
  • 2 tsk hveitiklíð (má sleppa)

Aðferð

  1. Setjið hneturnar í matvinnsluvél og blandið í um 1 mínútu eða þangað til hneturnar eru fínmalaðar. Setjið 3 tsk til hliðar en setjið afganginn í blandara.
  2. Afhýðið avocadoið og bananann og saxið gróft.
  3. Setjið banana og avocado í blandara og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  4. Hellið sojamjólk og hlynsírópi út í ásamt hveitiklíðinu og blandið í um 5 sekúndur.
  5. Bætið meiri sojamjólk við ef ykkur finnst drykkurinn of þykkur.
  6. Berið fram í glösum með Brasilíuhnetumulningi ofan á.
  7. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Nota má cashewhnetur eða möndlur í staðinn fyrir Brasilíuhnetur.
     

Ummæli um uppskriftina

Ragnheiður
21. okt. 2011

Ég prófaði þennan drykk í fyrsta skipti fyrir rúmri viku síðan og hef verið algjörlega háð honum síðan:-) - laga hann á hverjum degi. Unaðslega góður og seðjandi - og umfram allt hollur. Ég hafði aldrei á minni 53 ára löngu ævi keypt avocado fyrr en ég fór í verslunarleiðangur til að kaupa hráefnið í drykkinn góða. Í framhaldi fór ég að lesa mér til um avocado. Það er talið að það lækki slæma kólestrólið í blóðinu svo nú verður spennandi að fara í næstu kólesterólmælingu hjá "doksa".

sigrun
21. okt. 2011

Jiii en gaman að heyra :) Takk fyrir að deila með okkur :) Spennandi að heyra hvað doksi segir :) Það er um að gera að bæta svolitlu af haframjöli út í ef þú ert að velta fyrir þér (slæma) kólesterólinu, haframjölið er talið vinna gegn hækkuninni :)

Ragnheiður
22. okt. 2011

Takk fyrir "kommentið" Sigrún. Ég hef alltaf sett 2 teskeiðar af hveitiklíði út í drykkinn, ætti ég sem sagt að bæta svolitlu af haframjöli útí líka?

sigrun
22. okt. 2011

Mér skilst að haframjöl eigi að vera brilliant til að lækka vonda kólesterólið í blóðinu :) Um að gera að prófa :)