Asparssúpa
Fyrir mér er asparssúpa jólasúpa. Heima hjá mér var alltaf elduð asparssúpa og hún var bara höfð bláspari þ.e. einungis á jólunum. Hún var þykk og góð og ég hlakkaði alltaf mest til að borða hana því mér þótti kjöt ekki gott. Það er enginn rjómi í súpunni en hún er samt hnausþykk, rjómakennd og fín, sérstaklega ef þið notið nýmjólk. Auðvelt er að gera súpuna glúteinlausa en þá notið þið hrísmjöl í stað speltisins. Ef þið hafið mjólkuróþol má nota sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða haframjólk. Vissuð þið að í aspars er mjög mikið af K vítamíni sem og fólinsýrum? Einnig er C og A vítamín, trefjar og fleira gott fyrir okkur. Aspars er því ekki einungis sniðugur fyrir ófrískar konur (þ.e. fyrir heilbrigðan vöxt fóstra) sem eiga að taka inn fólinsýrur heldur stuðla vítamínin í asparsinum að heilbrigðu hjarta, sterkara ónæmiskerfi, góðri sjón og einnig er aspars vatnslosandi og hefur góð áhrif á bólgur (samt ekki ef þið borðið svo á ykkur gat af söltu jólasteikinni!).
Súpan er einföld og fljótleg í undirbúningi, afskaplega ódýr og hana má frysta.
Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka asparsinn. Því meira maukaður því betra. Einnig er mikilvægt að nota grænan en ekki hvítan aspars.
Afskaplega fljótleg og bragðgóð asparssúpa
Þessi uppskrift er:
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Asparssúpa
Innihald
- 1 msk kókosolía
- 3 msk spelti (má nota hrísmjöl ef þið hafið glúteinóþol)
- 350 ml léttmjólk (gæti verið að þurfi minna)
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 2 x 400 g dósir grænn aspars (önnur dósin má vera bútar), safinn er notaður
- Smá klípa svartur pipar
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Hellið safa af annarri dósinni í skál og setjið til hliðar.
- Maukið í matvinnsluvél, asparsinn úr þeirri dós sem þið voruð að hella safanum af. Setjið maukið til hliðar.
- Hrærið saman kókosolíu og spelti þangað til blandan líkist deigi. Gott er að hræra í lítilli en djúpri skál. Bætið 150 ml af mjólkinni út í skálina, smá slettu í einu og hrærið þangað til deigið verður nánast fljótandi. Setjið speltblönduna í pott. Bætið smátt og smátt 100 ml af mjólkinni, til viðbótar út í súpuna. Hrærið allan tímann.
- Bætið grænmetisteningi út í og hrærið hann vel út.
- Bætið maukaða asparsinum út í og hrærið vel. Bætið meiri mjólk út í súpuna ef þið viljið hafa hana þynnri.
- Rétt áður en súpan er borin fram skuluð þið bæta asparsinum og vökvanum úr hinni dósinni út í súpuna. Hitið en hrærið ekki mikið (svo asparsinn verði ekki að mauki).
- Kryddið með svörtum pipar og salti ef þarf.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með snittubrauði.
- Súpuna má gera mjólkurlausa með því að nota hrísmjólk, haframjólk, möndlumjólk eða sojamjólk.
- Einnig má nota hafrarjóma til að fá súpuna mjög þykka. Athugið að hafrar innihalda glútein.
- Nota má hrísmjöl, maísmjöl eða kartöflumjöl í staðinn fyrir spelti.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
Ummæli um uppskriftina
25. mar. 2013
Sæl, hefurðu prufað að nota kókosmjólk í þessa súpu?
25. mar. 2013
Ég hef notað hana og hún mildar heldur asparsbragðið en er að öðru leyti bara mjög góð.