Appelsínu- og ólífusalat frá Morocco
10. júní, 2008
Þetta salat er frískandi og sumarlegt og alveg frábært til að bera fram sem öðruvísi salat hvort sem þið berið fram hefðbundið grænt salat líka eða ekki. Stundum er gaman að breyta til, sérstaklega á sumrin! Uppskriftin er úr frábærri bók sem ég hef átt í mörg ár og heitir North African Cooking.
Appelsínu- og ólífusalat frá Morocco
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Appelsínu- og ólífusalat frá Morocco
Fyrir 2 sem meðlæti
Innihald
- 1 appelsína
- Fjórðungur af rauðlauk
- 6-8 svartar ólífur, steinalausar
- Smá klípa cayenne pipar
- 1 msk ólífuolía
- 0,5 tsk agavesíróp
- Fersk corianderlauf til skreytingar (má sleppa)
Aðferð
- Skrælið appelsínuna og hreinsið allt hvíta hýðið utan af henni sem og himnuna sem umlykur appelsínuna. Best er að skera appelsínuna á bakka með börmum því þið þurfið að nota safann sem kemur af appelsínunni.
- Skerið rauðlaukinn í örþunnar sneiðar og aðskiljið hringina í sneiðunum.
- Raðið appelsínusneiðunum á disk. Dreifið laukhringjunum yfir sneiðarnar.
- Sneiðið ólífurnar (má sleppa því að sneiða þær).
- Dreifið ólífunum yfir sneiðarnar.
- Í litla skál skuluð þið blanda saman ólífuolíunni, cayenne piparnum, appelsínusafanum og agavesírópinu.
- Hrærið vel og hellið yfir salatið.
- Látið salatið standa við stofuhita í um klukkutíma til að bragðið nái að „taka sig".
Gott að hafa í huga
- Salatið má gera með dags fyrirvara. Best er að geyma salatið í ísskáp og taka það út um klukkutíma áður en á að bera það fram. Hellið þá vökvanum yfir og látið standa.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
28. júl. 2017
Morocco heitir víst Marokko á íslensku!
28. júl. 2017
Það er reyndar Marokkó á íslensku (ekki Marokko) en ég nota yfirleitt ekki íslensku heitin því mér þykir þau oft afkáranleg...sbr. Jórvíkurskíri í stað Yorkshire.