Ananasdrykkur

Þetta er hollur og góður drykkur, ananas á að hreinsa þvagfærakerfið, bæta meltinguna (inniheldur meltingarensímið bromelain), styrkja beinin, lækka blóðþrýsting, er trefjaríkur og ég veit ekki hvað. Ananassafi á líka, las ég einhvers staðar, á víst að vera góður fyrir hjartasjúklinga. Bananar eru fullir af B6 vítamíni, potassium (kalíum/kalín), kalki, C og A vítamínum og auðvitað trefjum og flóknum kolvetnum sem hjálpa til við meltingu og til að jafna blóðsykurinn. Kalíum er mikilvægt til að sporna við hjartasjúkdómum. Í einum meðalstórum banana er um 11% dagsþörf af kalíum. Appelsínur er óþarft að kynna enda pakkfullar af C vítamíni :) Hreinn snilldardrykkur, þarf ég að segja meira?. Ægilega góður drykkur og bæði þykkur og kremaður.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
 


Dásamlega þykkur og góður drykkur (smoothie)

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Ananasdrykkur

Fyrir 2-3

Innihald

  • Nokkrir ísmolar
  • 400 g mjög vel þroskaður ananas, afhýddur, kjarnhreinsaður og saxaður
  • 1 stór, mjög vel þroskaður banani
  • 100 ml hreinn appelsínusafi (meira eftir smekk)
  • 50 ml sojamjólk (má sleppa)

Aðferð

  1. Setjið ísmolana í blandarann og hellið svolitlu af safanum út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
  2. Afhýðið ananasinn, kjarnhreinsið og skerið í bita. Setjið 400 g af ananasinum út í blandarann ásamt afganginum af appelsínusafanum. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  3. Afhýðið bananann og bætið honum út í ásamt sojamjólkinni. Blandið í um 10 sekúndur.
  4. Bætið meira af sojamjólkinni saman við ef þið viljið þynnri drykk.
  5. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef drykkurinn er ekki nógu sætur (hann ætti að vera það með þroskuðum ávöxtum), má setja um 1 msk af agavesírópi út í.