Ananas- og kókosís

Þessi ís er sá fyrsti sem ég prufa með stevia sætu eingöngu. Enginn viðbættur sykur er í ísnum. Ísinn er mjólkurlaus, glúteinlaus, hnetulaus, vegan og án viðbætts sykurs. Bæta má meiri sætu við t.d. kókossykri (e. coconut sugar) fyrir sætara bragð en hann var reyndar bara sætur og fínn svona. Best er að láta ísinn þiðna vel við stofuhita áður en hann er skafinn úr boxinu. Mjög mikilvægt er að nota sætan og vel þroskaðan ananas.

 

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Ananas- og kókosís

Um 1 lítra af ís

Innihald

  • 400 g ananas, snyrtur
  • 400 ml kókosrjómi (e. coconut cream)
  • 250 ml kókosmjólk (e. coconut milk)
  • 2 tsk límónusafi
  • 20 dropar stevia með kókosbragði
  • 2 tsk xanthan gum (fæst í heilsubúðum)
  • 70 g kókosmjöl
  • Ein lófafylli ristaðar kókosflögur (má sleppa)

Aðferð

  1. Snyrtið ananasinn (skerið miðjuna úr og hýðið af). Skerið í meðalstóra bita. Þið þurfið um 400 grömm.
  2. Setjið kókosrjóma og kókosmjólk í pott og hitið varlega en án þess að sjóði. Þegar blandan er orðin heit takið hana þá af hellunni. Kælið í um 10 mínútur.
  3. Setjið blönduna í matvinnsluvél eða blandara ásamt ananasbitunum. Maukið í um 3-5 mínútur. Hellið í stóra skál.
  4. Hrærið límónusafa, stevia og xanthan gum út í. Hrærið vel.
  5. Bætið kókosmjölinu saman við og hrærið vel. Smakkið til með fleiri stevia dropum ef þarf.
  6. Látið blönduna kólna í ísskáp í um 1-2 klukkustundir.
  7. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
  8. Ef ekki er notuð ísvél:
  9. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana (einnig má setja ísinn í blandara og brjóta ískristallana svoleiðis). Frystið áfram og takið ísinn út til að brjóta ískristallana eins oft og þörf krefur.
  10. Látið ísinn þiðna við stofuhita í 1-2 klukkustundir áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

  • Xanthan gum fæst í heilsubúðum og heilsudeildum stærri matvöruverslana. Þrátt fyrir nafnið er það náttúruleg afurð og gerir áferð íssins betri. Nota má maísmjöl í staðinn.