Ananas- og gulrótarmuffins
1. júlí, 2007
Nammi namm. Þessir eru sumarlegir og góðir með fullt af vítamínum, trefjum og viðlíka hollustu. Muffinsarnir eru líka upplagðir til að taka með í lautarferðina eða til að setja í nestisboxið fyrir ferðalagið! Það er fátt sem gleður meira eftir langan akstur!
Athugið að best er að nota silicon muffinsform en ef þið eigið ekki slíkt getið þið sniðið hringi úr bökunarpappír til að setja í muffins bökunarform.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án hneta
Ananas- og gulrótarmuffins
Gerir 12 stykki
Innihald
- 200 g gulrætur, skrældar og rifnar fínt
- 120 g ananas (um 4 sneiðar) í litlum bitum
- 225 g spelti
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 2 tsk kanill
- 1 egg
- 1 eggjahvíta
- 110 g Rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 120 ml sojamjólk (gæti þurft meira eða minna)
- 1 msk kókosolía
Aðferð
- Skrælið gulræturnar og rífið á rifjárni.
- Skerið ananasinn í litla bita.
- Í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, vínsteinslyftiduft, salt og kanil. Hrærið vel.
- Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggjum, rapadura hrásykri, sojamjólk, gulrótum, ananas og kókosolíu. Hrærið mjög vel.
- Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið varlega saman. EKKI hræra heldur veltið deiginu með trésleif þangað til allt blandast saman. Alls ekki nota hrærivél. Mikilvægt er að hræra sem minnst til að deigið verði létt í bakstri.
- Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
- Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
- Bakið við 200 °C í 20-25 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Gott er að bæta við rúsínum, kókosmjöli, valhnetum, pecahnetum eða appelsínuberki í uppskriftina.
- Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
- Nota má ananas úr dós (í eigin safa, ekki sírópi) en best er að nota ferskan ananas, vel þroskaðan.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, haframjólk eða undanrennu haframjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
30. jan. 2013
Hæhæ :)
Vildi bara benda þér á að í "Gott að hafa í huga" flokknum talarðu um barnamat en það er ekkert svoleiðis í uppskriftinni sjálfri :)
Ég var að baka þessar muffins og skellti bara smá bræddu smjöri útí og setti í pappaform og það reddaðist alveg :)
Mæli 100% með þessum, rosa góðar! :)
30. jan. 2013
Takk Margrét, búin að lagfæra uppskriftina :)