Ananas og ástaraldin með ristuðum kókosflögum
30. júní, 2012
Þetta er auðveldur eftirréttur sem er suðrænn, litríkur og hollur. Ananas er mjög trefjaríkur og er sérlega góður fyrir meltinguna því hann inniheldur meltingarensímið bromelain. Hann inniheldur líka mangan (manganese) sem er mjög svo andoxunarríkt. Ananas þykir líka góður til að vernda augun gegn hrörnun í augnbotnum. Ástaraldin er einnig mjög hollur og er fullur af bæði andoxunarefnum og vítamínum. Athugið að þegar þið veljið ástaraldin á ávöxturinn að virka svolítið þungur miðað við stærð og hýðið á að vera svolítið krumpað (virkar ekki girnilegt en þannig er það þroskað). Ef ykkur finnst steinarnir í ástaraldinum ekki góðir (þeir eru ætir) má láta safann renna fyrst í gegnum sigti.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta en með fræjum
- Vegan
Ananas og ástaraldin með ristuðum kókosflögum
Fyrir 2
Innihald
- 250 g ananas (þyngd mæld þegar búið er að snyrta hann)
- 2 msk appelsínusafi, hreinn
- 2 ástaraldin (enska: passion fruit)
- Ein lúka kókosflögur
Aðferð
- Afhýðið ananasinn, skerið í 4 bita langsum og skerið miðjuna úr hverjum bita.
- Saxið ananasinn frekar smátt (eins og sykurmola eða svo).
- Skerið ástaraldin í helminga.
- Ristið kókosflögurnar á heitri, þurri pönnu í 1-2 mínútur eða þangað til þær ilma og verða ljósbrúnar. Setjið til hliðar.
- Skiptið ananasinum jafnt í tvö glös eða skálar.
- Skafið 2 ástaraldinhelminga í hvort glas.
- Hellið 1 msk af appelsínusafa í hvort glas (dreifið yfir ananasinn).
- Látið standa í ísskápnum þangað til þið berið eftirréttinn fram.
- Rétt áður en þið berið eftirréttinn fram, dreifið þá kóskoflögunum yfir glösin.
- Berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Nota má eplasafa í staðinn fyrir appelsínusafa.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025