Afrískt sítrónu- og appelsínukökubrauð með birkifræjum

Þetta kökubrauð passar vel sem létt síðdegiskaka/brauð með kaffi eða tei. Þessa köku er best að bera fram sama dag og hún er bökuð en einnig má frysta hana og jafnvel rista sneiðarnar. Upphaflega uppskriftin kemur úr frábærri bók sem ég keypti í Afríku í eitthvert skiptið og heitir Recipes from the African Kitchen eftir Josie Stow og Jan Baldwin. Í upphaflegu uppskriftinni áttu að vera 325 g af sykri, 125 g af smjörlíki og 4 egg þannig að fyrir þá sem vilja djúsí köku þá þarf að breyta innihaldi kökunnar frá minni útgáfu!

Athugið að þið þurfið brauðform sem tekur um 1 kg.


Afrískt kökubrauð (eða teabread)

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta

Afrískt sítrónu- og appelsínukökubrauð með birkifræjum

Gerir eitt kökubrauð

Innihald

  • Börkur af 1 appelsínu, rifinn mjög fínt
  • Börkur af 1 sítrónu, rifinn mjög fínt
  • 2 msk kókosolía
  • 200 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru eða aprikósumauk
  • 100 g Rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 3 msk agavesíróp
  • 2 egg og 2 eggjahvítur, hrærð létt saman 
  • 2 tsk vanilludropar úr heilsubúð
  • 300 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 150 ml sojamjólk (gætuð þurft minna eða meira)
  • 40 g birkifræ (enska: poppy seeds)

Ofan á kökuna:

  • Börkur af 1 appelsínu, rifinn mjög gróft
  • Börkur af 1 sítrónu, rifinn mjög gróft
  • 60 ml hreinn appelsínusafi
  • 40 ml sítrónusafi
  • 2 msk agavesíróp

Aðferð

  1. Byrjið á kökunni:
  2. Rífið börk af appelsínu og sítrónu á rifjárni. Rífið börkinn mjög fínt.
  3. Hrærið kókosolíunni, vanilludropunum, barnamatnum og rapadura sykrinum saman í skál.
  4. Hrærið eggin létt saman og bætið þeim út í skálina.
  5. Sigtið saman í stóra skál, speltið og lyftiduftið.
  6. Bætið eggjablöndunni varlega saman við. EKKI hræra mikið, bara rétt velta deiginu til svo það blandist saman.
  7. Bætið sojamjólkinni varlega saman við (gætuð þurft minna en kemur fram í uppskriftinni).
  8. Hrærið birkifræjunum ásamt sítrónu- og appelsínuberkinum varlega saman við.
  9. Deigið á að vera frekar blautt og ef maður stingur sleif ofan í deigið og tekur sleifina upp aftur, ætti deigið að leka í stórum kekkjum. Það á ekki að vera hægt að hnoða deigið.
  10. Setjið bökunarpappír innan í brauðform og hellið deiginu í formið.
  11. Bakið við 160°C í um 40-50 mínútur eða þangað til prjónn sem stungið er í miðjuna kemur hreinn út. Gætið þess samt að ofbaka ekki kökuna. Tékkið á henni eftir um 40 mínútur og lækkið hitann ef hún er að bakast of hratt. Hún verður of þurr ef hún er ofbökuð. Gott er að setja álpappír ofan á hana undir lokin til að hún bakist jafnar.
  12. Á meðan kakan er að bakast þá getið þið undirbúið það sem fer ofan á hana.
  13. Rífið appelsínu og sítrónu gróft á rifjárni.
  14. Setjið appelsínu- og sítrónubörkinn ofan í pott með sjóðandi vatni og látið bullsjóða í um 1 mínútu. Sigtið svo vatnið frá.
  15. Hrærið saman sítrónu- og appelsínusafanum ásamt agavesírópinu.
  16. Þegar kakan er tilbúin í ofninum, takið hana þá út og stingið fullt af götum í hana með litlum, beittum hnífi.
  17. Dreypið vökvanum strax á kökuna með teskeið og skreytið með grófa berkinum.
  18. Berið fram annað hvort volga eða kalda með lífrænt framleiddu appelsínumarmelaði eða hindberjasultu (án sykurs).

 

Gott að hafa í huga

  • Það er upplagt að nota sítrónur og appelsínur sem til falla í þessari uppskrift út í heitt vatn og drekka eins og te. Einnig er hægt að nota sítrónu- og/eða appelsínusneiðar út í kalt vatn.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
  • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, haframjólk eða undanrennu haframjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.