Aduki baunaspírur

Það er ekki erfitt að spíra baunir. Það eina sem maður þarf er krukka, vatn og baunir. Mér finnst reyndar erfiðast að láta Aduki baunir spírast, þær eru pínulítið tregar. Mungbaunir og kjúklingabaunir spíra mun betur. Það eru margir sem nota mold og fína spírunarbakka eða sérstaka bómull en ég átti ekkert svoleiðis. Það er mikilvægt að nota bestu fáanlegu baunir og kaupa lífrænt framleiddar baunir. Baunaspírur eru eitt af því allra hollasta sem maður borðar því með því að spíra margfaldast baunir í hollustu. Þær eru afar vítamínríkar og innihalda holl ensím.


Aduki baunaspírur vinstra megin, óspíraðar baunir hægra megin

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Aduki baunaspírur

1 skammtur

Innihald

  • 1 lúka aduki baunir
  • 1 hrein glerkrukka (gætið þess að hún sé a.m.k. 5 sinnum stærri en magnið af baununum)
  • 200 ml vatn

Aðferð

  1. Látið vatn fljóta yfir baunirnar í krukkunni. Látið liggja í bleyti í 12 tíma.
  2. Hellið vatninu af og skolið baunirnar. Hellið aftur af.
  3. Látið baunirnar standa við stofuhita.
  4. Skolið baunirnar 3-5 sinnum á dag í 3-5 daga.
  5. Þegar spíruendarnir eru orðnir gulleitir eru baunirnar búnar að vera of lengi að spírast.
  6. Til að hægja á spírunarferlinu má geyma spírurnar í ísskáp og skola þær af og til. Þær geymast þannig í allt að viku eða meira.

Gott að hafa í huga

  • Ef baunaspírurnar eru orðnar slappar má alveg nota þær í brauðbakstur, þær gefa gott bragð og eru bráðholl viðbót.